„Bíllausa“ borgin Pontevedra

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Undanfarin ár hafa yfirvöld ýmissa borga Evrópu tekið til sinna ráða til þess að sporna við mengun og hlýnun loftslags. Þetta hefur til dæmis verið gert með því að takmarka, eða jafnvel banna nánast alla bílaumferð.

Borgin Pontevedra í Galisíu á Spáni er ein þessara borga, en á seinustu tuttugu árum hefur almenn bílaumferð þar verið markvisst minnkuð. Eins og staðan er í dag er hún einungis leyfð í um fjórðungi borgarinnar, en sú umferð sem talin er vera nauðsynleg, til dæmis almenningssamgöngur og affermingar, hefur forgang. Árangurinn er auðsjáanlegur: losun koldíoxíðs hefur dregist saman um 70% og fjöldi dauðsfalla af völdum bílsslysa hefur minnkað gríðarlega. Í gamla bænum er umferðin nánast engin, og í miðborginni allri er samdráttur á bílaumferð alls 77%. Lítil fyrirtæki sem almennt eiga erfitt uppdráttar á Spáni blómstra í Pontevedra, en auk þess hefur íbúum borgarinnar fjölgað um 12.000 á seinustu tíu árum, ólíkt mörgum nágrannabæjum borgarinnar þar sem brottflutningur er stórt vandamál.

Borgarstjóri Pontevedra seinustu tuttugu ár, Miguel Anxo Fernández Lores, er „faðir“ þessarar jákvæðu þróunar. Á sínum fyrsta mánuði í embætti tókst honum að gönguvæða allan gamla bæ borgarinnar, um 300.000 fermetra svæði, en fyrir breytingarnar, í lok níunda áratugarins, var ástand þessa hluta borgarinnar mjög slæmt og einkenndist af stöðnun, mikilli mengun og eiturlyfjaneyslu. Gamli bærinn, sem var ekki hannaður fyrir bílaumferð réð ekki við þann mikla fjölda sem fór þar í gegn daglega, og fólk var nánast hætt að fara þar gangandi um. Auk þess að takmarka bílaumferð voru bílastæði færð neðanjarðar, en það stækkaði enn frekar það svæði sem var ætlað gangandi og hjólandi vegfarendum.

Lífsstílsbreyting virðist hafa átt sér stað hjá íbúum borgarinnar sem núna velja sjálfviljugir frekar að ganga eða hjóla á milli staða, og vilja jafnvel að aukið verði enn á takmarkanirnar. Einungis þrjú af hverjum tíu nota bíl, 90% allra fara fótgangandi í matvörubúð, og svipaður fjöldi barna gengur í skólann. Líf íbúa borgarinnar virðist miðast við bíllausan lífstíl, og göngukort hefur til dæmis verið gefið út af borginni sem gefur til kynna göngutíma frá einum stað til annars, á svipaðan hátt og almenningssamgöngukort gera oft.

Breytingunum var samt sem áður ekki fagnað til að byrja með, en fólk taldi yfirvöld vera að svipta þau borgaralegum réttindum. Lores hefur á hinn bóginn lagt áherslu á að það að keyra bíl séu forréttindi.

Mun fleiri borgir hafa tekið skref í sömu átt, svo sem Madríd, Ósló og París. Borgarstjóri Madrídar hefur til að mynda í huga að banna díselbíla í borginni fyrir árið 2025, en fyrsta skrefið er að gera Gran Vía, eina aðalgötu borgarinnar, algerlega bíllausa fyrir maí á þessu ári. Þar hefur áður verið lagt bann við notkun einkabíla í miðborginni búi eigendur þeirra utan hennar.

Í Ósló hófst árið 2015 verkefni sem vann að því að minnka bílaumferð í miðbæ borgarinnar, og núna í byrjun þessa árs juku yfirvöld enn á takmarkanirnar.

Yfirvöld Parísar vilja einnig banna díselbíla, en vinna við að draga úr almennri bílaumferð er auk þess þegar hafin. Frá og með 2016 er umferð bíla framleiddra fyrir 1997 bönnuð í miðborginni, og mörg hverfi taka þátt í „bíllausum sunnudögum“ undir merki verkefnisins Paris respire, eða París andar.

Borgarstjóri Pontevedra, Lores, hefur tekið þátt í ráðstefnum og haldið „masterclass“ í París, en þær stórtæku breytingar sem hann hefur staðið að hafa gert borgina að fyrirmynd annarra í leitinni að lausn á mengunarvandamálinu. Borgarstjórn Parísar ætlar sér til dæmis að nota hönnun hennar sem fyrirmynd fyrir ákveðin svæði frönsku höfuðborgarinnar. Kostir þessarar þróunar eru óteljandi og óumdeilanlegir, en vegna hennar hefur Pontevedra hlotið ýmis umhverfisverðlaun, meðal annars á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Heimildir:

https://www.theguardian.com/cities/2018/sep/18/paradise-life-spanish-city-banned-cars-pontevedra

https://www.eldiario.es/sociedad/Pontevedra-ciudad-coches_0_664934417.html

https://www.lavanguardia.com/natural/20160425/401345350321/ciudad-sin-coches.html

https://elpais.com/politica/2018/06/07/actualidad/1528378617_230832.html

https://oslo.mdg.no/nyhet/na-er-planen-for-bilfritt-byliv-her/

http://www.startribune.com/next-year-oslo-is-moving-toward-a-car-free-zone/503270031/

https://www.farodevigo.es/portada-pontevedra/2018/11/27/pontevedra-expone-modelo-urbano-forum/2006422.html

https://www.autofacil.es/diesel/2018/09/11/prohibicion-coches-diesel-madrid-necesitas/46233.html

https://www.paris.fr/parisrespire

https://www.businessinsider.com/cities-going-car-free-2017-2?IR=T#paris-will-ban-diesel-cars-and-double-the-number-of-bike-lanes-6