Einstaklega órómantískt glampönk

,,Ég er líka mikið að leika mér með tungumálið, það er svo mikið sem hægt er að gera með það. Það hefur alltaf áhrif á lokablæbrigðin hvernig þú raðar orðunum og hvernig þú velur þau.“  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

,,Ég er líka mikið að leika mér með tungumálið, það er svo mikið sem hægt er að gera með það. Það hefur alltaf áhrif á lokablæbrigðin hvernig þú raðar orðunum og hvernig þú velur þau.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Þegar Jóhannes Bjarki Bjarkason Thelion, þekktur undir listamannsnafninu Skoffín, er spurður út í nákvæma skilgreiningu á tónsmíðum sínum þarf hann að taka sér umhugsunarfrest.

„Ég hef sjálfur verið í miklum vandræðum með þetta, ég er farinn að lýsa henni sem einhverju glampönki sem felst í raun bara í því að ég legg mikið upp úr svona aktívri sviðsframkomu, sviðsframkomu sem gerir mikið fyrir augað,“ segir Jóhannes sem leggur stund á stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Klæddir eins og bílasalar

Sem dæmi um þessa aktívu sviðsframkomu tekur Jóhannes samhæfða búninga sem hann og hljómsveitin sem spilar með honum hafa klæðst undanfarið. „Við spiluðum á nokkrum tónleikum síðasta sumar þar sem við vorum allir í denim on denim.

Svo spiluðum við á nokkrum tónleikum þar sem við vorum allir klæddir eins og bílasölumenn frá áttunda áratugnum og þegar við spiluðum á Húrra í janúar vorum við allir í svona sólarstrandaskyrtum. Mér finnst alla vega mikilvægt að leggja mikið upp úr sviðsframkomu.“

Jóhannes segir erfitt að festa fingur á hvaðan innblástur tónsmíðanna komi. „Á síðustu plötunni minni sem var svona coverlaga plata þá var þar óður manns til íslenskra dægurlaga. Íslensk dægurlagahefð er mjög sterk í höfðinu á mér, þó það sé kannski ekkert endilega alltaf til staðar í textunum mínum eða lagasmíð þá legg ég mikið upp úr því að líta til íslenskra fyrirrennara og íslensks tónlistarfólks.

Tónlist af fullkomnu handahófi

Ég er líka mikið að leika mér með tungumálið, það er svo mikið sem hægt er að gera með það. Það hefur alltaf áhrif á lokablæbrigðin hvernig þú raðar orðunum og hvernig þú velur þau.“

Nýja platan sem kemur út í mars er ólík fyrri útgáfum Jóhannesar en öll ellefu lög plötunnar eru frumsamin. Jóhannes semur bæði lög og texta en fær vini sína með í lið ef spilað er á sviði.  „Mér finnst tónlistarsköpunin hjá mér alveg einstaklega órómantísk þar sem hún er mjög sjaldan komin út frá einhverjum einbeittum stað. Oftast verða hlutirnir til af fullkomnu handahófi.

Þetta er auðvitað bara vinna, því meira sem þú skrifar og semur því líklegri ertu til þess að semja betri texta og lög. Eins og um allt saman, að vinna hart að því sem þú hefur áhuga á.”

Pönk að vera lélegur

Jóhannes hefur lært á hljóðfæri síðan hann var 11 ára og æfði á bassa í átta ár. „Ég sem allt saman, texta, lög og helstu atriðin og svo fer ég með það til strákanna í hljómsveitinni. Þar verður núansinn til og blæbrigðin. Sem er náttúrulega frábært, það er mjög erfitt að vinna einn sem tónlistarmaður því maður þarf oft einhvern til þess að spegla hugmyndirnar sínar í og ég hef lært mikið af því.”

Frá tónleikum Skoffíns. Hljómsveitin var klædd í gallaefni frá toppi til táar.  Ljósmynd/Alfreð Kaldi

Frá tónleikum Skoffíns. Hljómsveitin var klædd í gallaefni frá toppi til táar. Ljósmynd/Alfreð Kaldi

Þrátt fyrir að vilja ekki kenna sig við neina sérstaka stefnu er pönkið og rokkið sterkt í Skoffíni. „Ég kem úr pönki. Þegar ég var unglingur var ég í mörgum misgóðum böndum og þau voru alltaf mjög lituð af poppframeworkinu, þá var alltaf lögð áhersla á það að söngvarinn þyrfti að vera mjög góður söngvari.

Þegar ég byrja með Skoffín 2016 þá fannst mér  rosa mikið pönk að syngja og vera ekkert sérstaklega góður. Í dag þá er það náttúrulega búið að breytast og núna finnst mér það ekkert pönk lengur.“

Andstyggð á kapítalisma

Eins og áður segir er Jóhannes í stjórnmálafræði og því er eðlilegt að velta vöngum yfir því hvort það sé ekki mikil pólitík á bak við listsköpun hans. „Þegar ég byrjaði þá var ég mjög upptekinn af því að tónlist skyldi vera pólitísk og það ætti að vera eitthvað svona pólitískt element og það er svo sum alltaf til staðar en það er alltaf mismikið og fer eftir því hverjar áherslurnar eru.

Ég er náttúrulega vinstrisinnaður og ég hef andstyggð á kapítalisma og maður reynir kannski að lauma því aðeins inn,“ segir Jóhannes og bætir því við að stjórnmálafræðinám geri nemendur gjarnan daufa fyrir pólitík.

„Maður fer að skilja ferlið á bak við stjórnmál svo vel, sama hvort það er í íslenskum stjórnmálum eða erlendum. Af því að maður hefur aukinn skilning á þessu þá er auðvelt að afskrifa hegðun sem hluta af leiknum. Í gegnum það finnst mér hugsjónir og prinsipp falla í svaðið.“

Aðgerðaráætlun án hugsjóna

Jóhannes tekur aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem dæmi. „Hana skortir alls konar hugsjónir. Þegar maður les hana þá hugsar maður : „Hér er bara verið að fjalla um aðerðir til aðlögunar loftslagsbreytingum en ekki mótvægisaðgerðir gegn þeim. En ég skil af hverju þetta er svona vegna þess að ég skil hvernig pólitíkin virkar.“ Þá er auðvelt að vera ekki jafn harður á því og gefa því ekki jafn mikinn gaum.

Mér finnst alltaf mikilvægt að minna sjálfan mig á að jafnvel þó hlutir séu svona og hafi verið svona í gegnum tíðina þá þurfa þeir ekki að vera þannig, það er alltaf hægt að breyta til. Þá er ég að tala um að maður á að standa á bak við hugsjónir sínar, maður á að halda fast í prinsipp jafnvel þó veruleikinn í kringum mann segi manni eitthvað annað.“

Skoffín í miðjum flutningi.  Ljósmynd/Alfreð Kaldi

Skoffín í miðjum flutningi. Ljósmynd/Alfreð Kaldi

Tónlist fyrir öll

Skoffín er sólóverkefni Jóhannesar en hann er einnig hluti af listakollektívunni post-dreifingu. Þar er annars konar pólitík við lýði og Jóhannes skrifaði um listakollektívuna í lokaritgerðinni sinni sem hann skilaði í byrjun árs. „Mér finnst post-dreifing vera mjög pólitískt batterí, þá einblínum við mikið á pólitíkina í kringum menningu, tónlistarsköpun og tónlistarflutning án þess að vera að troða því ofan í fólk.

Mér finnst verst þegar tónlistarfólk, til dæmis eins og Hatari, er með mjög háleit skilaboð um hitt og þetta og mér finnst það bara hallærislegt. Eldri pönksenan var svolítið í því en í dag er þetta orðið póstmódernískara ef við getum notað það orð.“

Í listakollektívunni er aðgengi að tónlist sterkt mótíf. „Post-dreifing er svona lauslegt samansafn af tónlistarfólki á stórreykjavíkursvæðinu. Það varð til í desember 2017 og hefur það að markmiði að auka sýnileika og sjálfbærni í tónlistarsköpun og listsköpun yfir höfuð.

Við leggjum mikið upp úr því að hafa aðgengi greitt á tónleikum, reynum að rukka sem minnst fyrir miða, sömuleiðis með útgáfurnar okkar svo við horfum á þetta þannig að þetta sé ekki eitthvað sem við ættum að græða á.“

Nýjasta plata Skoffíns, Skoffín bjargar heiminum, er væntanleg á næstunni. Hún er gefin út af post-dreifingu og verður m.a. aðgengileg á netinu.