„Mest ört vaxandi byltingarhreyfing í heimi“

DSC00761.jpg

„Veganismi snýst, í grunninn, alfarið um dýravernd, hann snýst um að sniðganga vörur sem notfæra sér eða hagnýta dýr á einhvern hátt hvort sem það er fyrir fatnað, mat eða skemmtun, eins og sirkus eða dýragarða,“ segir Birki Steinn Erlingsson, varaformaður Samtaka grænkera á Íslandi. Þó segir hann að ekki sé verið að tala um smáatriði sem enginn ræður við í nútímasamfélagi heldur snúist veganismi um að sniðganga slíkar vörur eftir fremsta megni. „Þótt þú klessir á nokkrar flugur þegar þú ert að keyra ertu ennþá vegan.“ Ekki sé skylda að losa sig við vörur sem sem keyptar voru áður en maður gerðist vegan, til dæmis dúnúlpu eða leðursófa.

Hlutverk Samtaka grænkera á Íslandi er að veita fræðslu um veganisma, gera hann aðgengilegan fyrir fólk, búa til viðburði sem vekja athygli og styðja við vegan aktívisma. Birkir segir meðlimi í samtökunum vera hátt í 400 manns.

Hann segist hins vegar ekki vita hve margir á Íslandi séu vegan. „Það er eiginlega næst á dagskrá að gera könnun um það. Ég myndi giska á að það væri þetta týpíska 3-5% af þjóðinni sem sé vegan eða á línunni.“ Yfir 20 þúsund manns eru í Facebook-hópnum Vegan Ísland og því ljóst að áhuginn fyrir veganisma á Íslandi er mikill. „Á síðustu árum er þetta búið að breytast ekkert smá mikið. Maður sér það til dæmis á úrvalinu úti í búð og í viðhorfi hjá fólki. Það vita allir hvað þetta er í dag en fyrir fimm árum þá vissu það ekki margir.“ Birkir telur að aktívistar út um allan heim, sem hafa boðað þennan boðskap í gegnum internetið hafi átt stærstan þátt í þessari viðhorfsbreytingu.

Tileinka heilan mánuð veganisma

Nýverið lauk hinum svokallaða Veganúar, sem er áskorun sem almenningur getur tekið þátt í um að gerast vegan allan janúarmánuð. Þetta er í fimmta skipti sem Veganúar er haldinn hér á landi. „Veganúar var fundinn upp af fólki í Bretlandi sem ákvað að byrja þetta með því að gera það eins auðvelt fyrir fólk og hægt er að fá upplýsingar um veganisma og prófa að vera vegan. Ég held að það hafi verið byrjað á þessu 2013. Svo tóku Samtök íslenskra grænmetisæta, sem heita núna Samtök grænkera, þátt í verkefninu með þeim árið 2014. Þetta er leið til að gera veganisma aðgengilegan fyrir fólk, vekja athygli og tileinka heilan mánuð veganisma.“

Samtök grænkera hafa staðið fyrir ýmsum viðburðum þennan mánuð í samstarfi við Landvernd: kynningarfundi, kvikmyndasýningum, málþingi um mataræði og mannréttindi og loks vegan Pálínuboði. Einn viðburðanna kallaðist Trúnó. Þar sögðu þjóðþekktir grænkerar frá því af hverju þeir eru vegan. Þar má nefna leikarann Arnmund Ernst Backman, Guðrúnu Sóley fjölmiðlakonu, DJ Margeir, Huldu B. Waage kraflyftingakonu og Sóleyju tónlistarkonu, auk Benjamíns Sigurgeirssonar, formanns Samtaka grænkera.

Hægt var að skrá sig formlega í átakið á heimasíðu samtakanna og segir Birkir þáttakendur hafa verið rúmlega 320. „Ég myndi segja að væri bara nokkuð gott fyrir Ísland. Svo eru ekki allir sem skrá sig, maður getur reiknað með að þetta séu kannski um 500 manns.“

Birkir telur ekki ólíklegt að einhverjir þáttakendur gefist upp á veganismanum eftir að mánuðinum ljúki. „Það tekur fólk misjafnan tíma að átta sig á því hvort það vilji yfir höfuð gera þetta. Það eru ekki allir sem eru tilbúnir í veganisma enda er þetta náttúrulega mikil breyting á lífinu.“

Mikilvægt að finna sér góða ástæðu

Hann ráðleggur fólki að finna sér góða ástæðu fyrir því að vera vegan ef það vill lifa slíku lífi. „Fyrir mér er það helst siðferði gagnvart dýrum og af umhverfisástæðum en svo fylgir heilsan með. Það er það helsta sem heldur mér í þessu. Það getur verið erfitt að synda á móti straumnum og því gott að vera með góða ástæðu fyrir því af hverju maður er að gera þetta. Það er mikilvægt að minna sig stöðugt á þá ástæðu því í amstri daglega lífsins þá getur maður gleymt sér.“

Fyrir þá sem vita lítið um veganisma en vilja prófa að vera vegan mælir Birkir með hópnum Vegan Ísland á Facebook. „Svo er sniðugt að taka þátt í áskorun sem heitir Challenge 22 (challenge22.com). Það er 22 daga áskorun þar sem þú færð fría hjálp frá næringarfræðingum og þau gera þetta bara eins auðvelt og hægt er. Það er sagt að það taki 21 dag að breyta vana og þú færð sem sagt 22 daga, alveg til þess að negla þetta.“ Hann mælir með að flækja hlutina ekki um of og finna til dæmis vegan útgáfu af uppáhalds uppskriftunum sínum í stað þess að leita að að framandi innihaldsefnum og flóknum uppskriftum.

Finnur mest fyrir gagnrýni á netinu

Skiptar skoðanir eru um veganisma en Birkir Steinn segist helst finna fyrir gagnrýni á netinu. „Fólk þorir að mótmæla fyrirbæri eins og veganisma í kommentakerfum eða með því að skrifa greinar. En það eru ekki margir sem eru til í rökræður augliti til auglitis af því að flestir vita ekki mikið um þetta. Ef þú veist mikið um þetta þá eru miklar líkur á því að þú hallist nær veganisma heldur en annað. En það eru auðvitað einhverjir tilbúnir í það.“

Birkir skýrir harða gagnrýni á veganisma með sjálfu eðli stefnunnar. „Ef þú ert vegan ertu sjálfkrafa að segja að hinir séu að gera eitthvað rangt af því að veganismi er siðferðisleg afstaða gegn ofbeldi gegn dýrum. Bara með því að vera vegan ertu að segja að þeir sem borða kjöt, til dæmis, séu að gera eitthvað rangt. Þú þarft ekki einu sinni að segja neitt. Fólk hefur auðvitað alist upp við að borða kjöt og fer þess vegna sjálfkrafa í vörn þegar það er gagnrýnt fyrir það.“

Birkir telur mikilvægt að afla sér upplýsinga og horfa á staðreyndir. „Ef fram kæmu ótal rannsóknir sem sýndu að við mannfólkið gætum ekki lifað án þess að vera kjötætur þá náttúrulega myndi ég ekkert vera að mæla með því við fólk að vera vegan. En það er bara akkúrat öfugt núna.“

Þyrfti 76% minna landssvæði ef allir væru á plöntumiðuðu fæði

Upp á síðkastið hafa tengsl veganisma og umhverfismála verið áberandi í umræðunni. „Það kom út mynd 2015, sem heitir Cowspiracy, sem fer rosalega vel í staðreyndir málsins. Helsta ástæðan er að það þarf svo mikið landsvæði til að rækta fóður ofan í dýr,“ segir Birkir og bætir við að það þurfi 16 kíló af plöntufóðri til þess að framleiða eitt kíló af kjöti. „Það segir sig bara sjálft að ef við værum að borða plönturnar beint þá þyrftum við minna landsvæði.“

Sem dæmi um áhrif dýralandbúnaðar á umhverfið nefnir Birkir: „91% af eyðileggingu Amazon regnskóganna er vegna ræktunar á nautgripum. Það eru mjög sláandi tölur.“

„Ný rannsókn frá Oxford frá í sumar var viðfangsmesta rannsókn á matvælum og umhverfi og þar kom fram að ef allir væru á plöntumiðuðu fæði þá þyrftum við 76% minna landssvæði til þess að rækta á. Það ættu allir, bara við að heyra þetta, að átta sig á að við þurfum að gera eitthvað í þessu.“ Rannsóknir á borð við þessa eru farnar að skila sér í stefnum yfirvalda: „Sameinuðu þjóðirnar vilja að fólk minnki kjötneyslu sína um 90%.“

Ýmsir efast um að landbúnaður á Íslandi hafi svona slæm áhrif á umhverfið en Birkir nefnir skurði sem dæmi um bein áhrif dýralandbúnaðar á umhverfið. „Hérna á Íslandi er aðallosun koltvísýrings úr skurðum. Þegar votlendi þornar upp losnar um koltvísýring. Það var óhóflega mikið grafið af skurðum miðað við hvað við erum að nota. Þeir voru búnir til fyrir landbúnað á dýrum en við þyrftum þá ekki ef við værum að rækta grænmeti í gróðurhúsum.“

Birkir nefnir að tæknilega séð sé fólk ekki vegan nema það lifi þeim lífstíl af siðferðisástæðum gagnvart dýrum, en að hann kippi sér ekkert sérstaklega upp við það ef umhverfissinnar noti hugtakið um plöntumiðað fæði. „Það er skynsamlegra að eyða orkunni einhvers staðar annars staðar.“ Hann segir að þetta geti nefnilega haft góð áhrif: „Þegar fólk byrjar að neyta plöntumiðaðs fæðis og kallar sig vegan fyrir heilsuna eða umhverfið leiðir það oft til þess að fólk kynni sér veganisma og áttar sig á því að það er verið að koma hrikalega fram við dýrin.“

Dæmum dýr í hræðilega prísund

Birkir segist vera bjartsýnn hvað varðar framtíðina en þó fari það aðeins eftir því í hvernig skapi hann sé. „Við erum að sjá þessa hreyfingu, veganismann, vaxa svo hratt. Þetta er mest ört vaxandi byltingarhreyfing í heimi. Það er bara staðreynd. Það eru milljónir manna að taka þátt í þessu og ég sé þetta bara fara að breytast á næstu árum gígantískt.“

Hann nefnir að umhverfismálin séu fólki ofarlega í huga núna og því muni veganismi verða æ vinsælli á næstu árum. „Við þurfum að gera eitthvað núna og fólk virðist vera farið að átta sig á því. Mikilvægasta málefnið núna er umhverfið, ef við förum ekki að hugsa um það núna þá eigum við enga framtíð og þá eiga börnin okkar enga framtíð heldur. Ef við getum ekki hugsað vel um dýrin, þá verðum við alla vega að hugsa vel um börnin okkar og framtíð þeirra.“

Birkir Steinn segir að lokum: „Almennt séð þá finnst mér gott að fólk auki samkennd sína til dýra því að ef þú ferð að hafa samúð með litlum kjúkling þá er líklegt að þú munir hafa samúð með öllum öðrum, jafnvel litlum maurum og náttúrulega öðrum manneskjum úti í heimi. Það er talað um að grunnurinn að hatri í heiminum sé tegundahyggja (e. speciesism); það að fordæma einhverja aðra tegund af því að hún eru öðruvísi.“ Hann vísar í að hvítt fólk hafi fordæmt svart fólk bara af því það leit öðru vísi út. „Á sama hátt dæmum við kýr, svín, kjúklinga og lömb í hræðilega prísund einungis vegna þess þau líta öðruvísi út og við skiljum þau ekki.“