Sauðfjárrækt skilur eftir sig stærsta kolefnissporið

Sauðfjárrækt skilur eftir sig mun stærra kolefnisfótspor hérlendis en ræktun á eldislaxi annars vegar og grænmeti hins vegar.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Sauðfjárrækt skilur eftir sig mun stærra kolefnisfótspor hérlendis en ræktun á eldislaxi annars vegar og grænmeti hins vegar. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Hefur þú velt fyrir þér hvað þú, sem einstaklingur, getur gert til þess að minnka kolefnisspor þín? Ert þú tilbúinn að breyta einhverjum af þínum lifnaðarháttunum í þágu umhverfisins? Lifir þú bíllausum lífsstíl, keyrir rafmagnsbíl, flýgur minna eða verslar í heimabyggð? Eða hugsar þú kannski um hvað þú borðar? Samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu Environice á sauðfjárræktin stærsta kolefnissporið af innlendri matarframleiðslu hérlendis, því næst laxeldið, en grænmetið losar lang minnst.

Environice er fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf um umhverfismál og sjálfbæra þróun. M.a. veitti fyrirtækið umhverfis- og auðlindaráðuneyti ríkisstjórnar Íslands ráðgjöf við gerð aðgerðaráætlunar um loftslagsmál sem kom út í fyrra. Environice hefur staðið að ýmsum verkefnum, svo sem reiknað kolefnisspor matvæla, landshluta og bæjarfélaga á Íslandi.

En hvað eru kolefnisspor? Eins og flestir vita er hlýnun jarðar talin vera eitt það stærsta vandamál sem jarðarbúar standa frammi fyrir í dag og er talið að losun gróðurhúsalofttegunda eigi þar stóran hlut. Því þarf mannkynið að kljást við það veigamikla verkefni að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. Hversu mikill útblástur gróðurhúsalofttegunda fylgir framleiðslu og notkun vöru og þjónustu er kallað kolefnisspor. Kolefnisspor er því mælikvarði á losun gróðurhúsalofttegunda. Því minna sem kolefnissporið er, því minni áhrif hefur varan eða þjónustan á hlýnun jarðar. Að reikna og greina kolefnisspor getur því verið nytsamlegt tól fyrir framleiðendur til þess að minnka losun sína á sama tíma og neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun hvað varðar þeirra eigið kolefnisspor. Nánast allt sem við gerum í daglegu lífi skilur eftir sig kolefnisspor og þar er mataræðið engin undantekning.

Environice hefur gefið út skýrslu fyrir þrjár tegundir matvæla; íslenskt lambakjöt, íslenskan eldislax og íslenskt grænmeti. Þegar kolefnisspor eru reiknuð er nánast allt í ferlinu tekið með í reikninginn, svo sem hversu mikið eldsneyti var notað, hvernig voru vörurnar meðhöndlaðar, hvernig framleiðslan fór fram, hversu mikið var losað þegar vörunum er keyrt til dreifingarstöðva og svo framvegis.

Í skýrslunni um losun frá sauðfjárbúum á Íslandi kemur fram að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskri sauðfjárrækt sé um 291.400 tonn CO2-ígilda á ári, eða sem nemur 28,6 kg CO2-ígilda á hvert framleitt kíló af lambakjöti. Samkvæmt þessu trónir íslenska lambakjötið á toppnum í samanburði á þessum þremur afurðum, en losun frá laxeldi á Íslandi er 31.000 tonn CO2-ígilda, eða sem nemur 3,21 kg CO2-ígilda á hvert kíló af tilbúinni afurð. Grænmetið losar lang minnst, en losun vegna hvers kílós af tilbúinni afurð er mjög mismunandi eftir tegundum grænmetis, eða allt frá 0,12 kg CO2-ígilda/kg fyrir kartöflur upp í 1,93 kg CO2-ígilda/kg fyrir tómata. Environice hefur ekki gefið út skýrslur fyrir aðrar tegundir matvæla, en ætla má að kolefnisspor dýraafurða sé almennt miklu hærra en grænmetis. Að borða meira grænmeti og minna kjöt getur því verið afar góð og einföld leið til þess að minnka sitt eigið kolefnisspor.

Tilgangur með skýrslunum er einnig að benda á aðgerðir sem framleiðendurnir geta ráðist í til þess að minnka losun sína og er þá helst að nefna aðgerðir sem tengjast endurheimt votlendis, en það er aðgerð sem bindur kolefni varanlega í jarðvegi. Samkvæmt skýrslunum er vilji meðal framleiðenda til þess að leggja hönd á plóg til þess að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 13 um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, stuðla að því að Ísland nái markmiði sínu um 40% samdrátt í losun fyrir árið 2030 og styðja við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040. Í skýrslunum koma fram ágæt skilaboð sem allir ættu að taka til sín; „enginn getur gert allt, en allir geta gert eitthvað“.