Umhverfisráðherra segir Íslendinga þurfa að einblína minna á hagvöxt

„Samkvæmt erlendum skýrslum þar sem varað hefur verið við loftslagsbreytingum höfum við enn tíma til þess að bregðast við en hann styttist og styttist og það dynja yfir okkur neikvæðar fréttir.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Samkvæmt erlendum skýrslum þar sem varað hefur verið við loftslagsbreytingum höfum við enn tíma til þess að bregðast við en hann styttist og styttist og það dynja yfir okkur neikvæðar fréttir.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Þetta er klárlega grafalvarlegt mál. Fyrir mér er þetta stærsta áskorun 21. aldarinnar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra um neikvæða þróun í loftslagsmálum.

„Mér finnst samt sem áður mikilvægt að við horfum á þetta sem áskorun, ekki bara sem vandamál. Það er merkingarmunur á því. Við þurfum að takast á við þetta og við þurfum að vinna þessa baráttu. Þess vegna er þetta áskorun fyrir mér.“

Aðspurður segir Guðmundur að tíminn til þess að bregðast við vandanum sé naumur. „Samkvæmt erlendum skýrslum þar sem varað hefur verið við loftslagsbreytingum höfum við enn tíma til þess að bregðast við en hann styttist og styttist og það dynja yfir okkur neikvæðar fréttir.“

Guðmundur kveðst þó hæfilega bjartsýnn. „Ég er þeirrar skoðunar að okkur á að geta tekist þetta en það veltur auðvitað ofboðslega mikið á því að þjóðir heims standi saman í því. Þar vantar mikið upp á núna, til dæmis að Bandaríkin og Brasilía séu með. Þetta eru ríki sem hafa lýst yfir efasemdum, hafa jafnvel dregið sig út úr alþjóðasamvinnu eða eru að því.“

Stjórnvöld og almenningur til aðgerða

Ábyrgðin á því að taka á vandanum er allra, að mati Guðmundar. „Ábyrgðin er alls staðar. Það er hlutverk stjórnvalda að búa til ramma, kerfi og hvata sem gerir okkur kleift sem einstaklingum að breyta hegðun okkar.

Það eru þá til dæmis hvatar eins og þeir að skipta úr bensín- eða dísilbíl yfir í rafmagns- eða metanbíl, það eru kerfislægar breytingar sem hið opinbera þarf að hafa forgöngu um að geti gerst, til dæmis með því að lækka álögur á bíla sem eru umhverfisvænni, eins og verið er að gera. Það þýðir líka það að við þurfum að efla almenningssamgöngur og svo framvegis svo stjórnvöld skipta klárlega miklu máli.“

Þáttur fyrirtækja í að sporna við þróuninni er einnig stór. „Það skiptir máli hvað fyrirtækin í landinu gera, öll þeirra, að þau setji umhverfismálin í fyrsta sæti. Síðan má nefna stóriðjuna og flugið sérstaklega. Það er gríðarlega stór hluti mengunarinnar sem kemur frá þessum aðilum. Á Íslandi erum við svo fá og þetta eru svo stórir aðilar miðað við okkar fjölda þannig að þeirra framlag skiptir miklu máli.

Þessir aðilar sem ég nefni eru undir sérstöku kerfi sem hefur verið búið til í Evrópu sem er í rauninni þannig að þú ert bara með pott af svokölluðum losunarheimildum sem er svo útbýtt á þessi fyrirtæki en hann dugar bara fyrir ákveðnu hlutfalli af útlosuninni, eins og er með álverin hérna heima, þau þurfa síðan að kaupa restina á markaði. Það þýðir að þegar þau eru farin að kaupa það mikið að það borgar sig fyrir þau að taka frekar peningana sem fara í að kaupa losunarheimildirnar og setja hann í aðgerðir til þess að draga úr losuninni þá myndast hvati fyrir þau til þess að nota fjármagnið með þeim hætti.“

Guðmundur bendir á áhugavert verkefni í þessu samhengi. „Það er verkefni sem er búið að vera í gangi uppi á Hellisheiði þar sem koltvísýringi er dælt ofan í berglög þar sem hann festist í bergi og kristallast. Kostnaðurinn við þetta er 25 Bandaríkjadalir fyrir hvert tonn af koltvísýringi sem þú dælir niður en það er mjög svipað og kostnaðurinn á tonninu á losunarheimildum fyrir fyrirtækin. Þannig að hér gæti verið að myndast annar valkostur fyrir þau en að kaupa heimildir, valkostur sem myndi draga úr útlosun þeirra.“

„Þetta skiptir allt máli“

Einstaklingsframtakið er þó einnig mikilvægt. „Það skiptir máli að hjóla, það skiptir máli að flokka sorpið sitt, að pæla í því hversu oft þú flýgur og svo framvegis. Svo skiptir líka máli, þegar ég tek ákvörðun um að fljúga eða nota bíl, hvort ég geti bætt fyrir það með einhverjum hætti, eins og til dæmis með landgræðslu, með því að gróðursetja birki, eða endurheimta votlendi, það eru til sjóðir sem maður getur lagt inn á fyrir það. Þetta skiptir allt máli.“

Talið berst að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum til ársins 2030 sem var gefin út nýverið. Guðmundur samsinnir því að áætlunin sé sú allra viðamesta hingað til.

„Þetta er áætlun sem nær til allra geira samfélagsins. Það fylgir henni fjármagn sem er það sem hefur vantað með þeim aðgerðaáætlunum sem hafa komið fram á undan þessari. Það hefur annað hvort fylgt mjög lítið fjármagn eða jafnvel ekki neitt. Þetta er gjörbreytt.“

Guðmundur segir áætlunina í stórum dráttum tvíþætta. „Annað flaggskipið er orkuskipti í samgöngum. Nú þurfum við að ráðast í þessa þriðju orkuskiptabyltingu á Íslandi og hún snýst um það að skipta út mengandi orkugjöfum, bensín og dísil, fyrir innlenda endurnýjanlega orkugjafa. Það skiptir máli að þeir séu innlendir, að við séum ekki lengur háð innflutningi á orku, og að við séum ekki lengur að leggja mengandi jarðefnaeldsneyti til grundvallar í samgöngum hjá okkur

Hin stóra aðgerðin er að binda kolefni úr andrúmsloftinu í gróðri og jarðvegi. Það er gert með landgræðslu og skógrækt. Endurheimt votlendis er síðan ekki síður mikilvæg en þá er maður ekki að binda kolefni úr andrúmsloftinu heldur að koma í veg fyrir að koltvísýringur losni úr mýrunum. Þetta eru aðgerðir sem ekki síst skipta máli þegar við horfum lengra inn í framtíðina og ætlum að ná kolefnishlutleysi árið 2040, sem er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar.

Stóra verkefnið er að minnka magnið af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu, koltvísýringi og öðrum slíkum,“ segir Guðmundur og bætir því við að ríkisstjórnin setji nú í fyrsta skipti fjármagn í nýsköpun sem tengist loftlagsmálum. „Það verður bráðlega stofnaður loftlagssjóður sem mun veita styrki í nýsköpun.“

Óviss um róttækari aðgerðir

Blaðamaður spyr Guðmund hvort ekki þurfi að ráðast í róttækari aðgerðir. Um það segir Guðmundur ,,Góð spurning, en ég get ekki svarað því með já eða nei. Það sem við ákváðum að gera er að birta stóru línurnar. Áætlunin verður síðan yfirfarin á þessu ári og önnur útgáfa gefin út.

Ég held að krafan verði sú að ríki geri betur en þau geri í dag. Ég held að svona plagg, svona aðgerðaráætlun, þurfi að vera mjög lifandi. Það þarf að vera hægt að geta aukið í aðgerðirnar. Við erum með rammann, kannski koma nýjar hugmyndir sem við getum komið inn, en við viljum líka gera betur með þær aðgerðir sem eru til staðar. Ég ekki von á neinu öðru en að við munum herða róðurinn á næstu árum.“

„Við höfum verið svolítið hrædd við að tala um neyslu því hún kemur svo við mann en þetta er að breytast. Við verðum einfaldlega að tala um þá miklu neyslu sem á sér stað og hvaða áhrif hún hefur.” Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Við höfum verið svolítið hrædd við að tala um neyslu því hún kemur svo við mann en þetta er að breytast. Við verðum einfaldlega að tala um þá miklu neyslu sem á sér stað og hvaða áhrif hún hefur.” Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Ein af róttækari aðgerðum sem komið hefur upp í umræðunni er hugmynd Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna, um kjötskatt. Guðmundur segist ánægður með að umræðan um kjötskatt eigi sér stað. „Og líka umræða almennt um neyslu. Við höfum verið svolítið hrædd við að tala um neyslu því hún kemur svo við mann en þetta er að breytast. Við verðum einfaldlega að tala um þá miklu neyslu sem á sér stað og hvaða áhrif hún hefur. Og við verðum að reyna að draga eins og við getum úr allri þeirri sóun sem á sér stað. Matarsóun er til dæmis stórt loftslagsmál. Neyslumálin með öllu sem þeim fylgir er eitt af því sem ég mun beita mér fyrir.

Mér finnst fínt að ræða þetta með kjötskattinn, ég get hins vegar ekki almennilega tjáð mig um það hvort við ættum að taka hann upp, þetta er eitthvað sem við þyrftum að skoða fyrst, hvaða árangri það skilar og svo framvegis. Hins vegar er alveg klárt og ég finn það, sérstaklega á fólki upp úr tvítugu, að það eru bara miklu fleiri sem eru að gerast grænmetisætur eða eru vegan og það er frábært.“

Neyslan er beintengd hinum margumtalaða hagvexti. Aðspurður segir Guðmundur aukinn hagvöxt á Íslandi ekki endilega alltaf koma niður á Móður jörð. „Umhverfisvæn verkefni geta stuðlað að auknum hagvexti en svo kannski í öðrum tilfellum kemur hann niður á Móður Jörð. Í mínum huga þurfum við að einblína minna á hagvöxt og meira á félagslega og umhverfislega vísa og mælikvarða.“

Fagnar gagnrýni Landverndar

Guðmundur var áður framkvæmdastjóri Landverndar en félagasamtökin gagnrýndu hann harðlega nýverið vegna löggjafar ríkisstjórnarinnar um laxeldi sem tryggir rekstrarleyfi óháð niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Guðmundur segist fagna gagnrýninni.

,,Ég fagna aðhaldi sem kemur úr þessum geira, algjörlega. Varðandi þetta mál sérstaklega, þá kemur lagasetningin úr sjávarútvegsráðuneytinu. Að mínu mati heldur úrskurðurinn frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sér, en það er í rauninni verið að gefa fyrirtækjunum færi á því að laga það sem úrskurðurinn sagði að væri ekki í lagi, án þess að fara í þær aðgerðir að slátra fiskinum.

En svo eru ekki allir sammála um áhrif lagasetningarinnar, umhverfisverndarsamtökin eru á einu máli, sjávarútvegsráðuneytið er á öðru. Ég tek fram að lagasetningin var ekki gerð hérna í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Hins vegar var sótt hingað um undanþágu frá starfsleyfi og við veittum tímabundna undanþágu með skilyrðum, m.a. þeim að fyrirtækin ynnu með virkum hætti að því að bæta úr annmörkum á umhverfismati fiskeldisins sem tilteknir voru í úrskurði úrskurðarnefndarinnar. Einnig var sett sem skilyrði að starfseminni yrði haldið í lágmarki til að draga sem mest úr umhverfisáhrifum og mengun sem henni fylgir.

Guðmundur segir það vera honum hjartans mál að félagasamtök í umhverfismálum standi styrkum fótum. „Það er númer eitt, tvö og þrjú að við séum með sterk félagasamtök sem gagnrýna stjórnvöld. Eitt af því sem ég er að vinna að hér í ráðuneytinu er einmitt að reyna að efla félagasamtök.

Ég kem úr þessum geira, ég vann í sex ár fyrir félagasamtök, og eitt af því sem er verið að gera núna er að auka rekstrarstyrki til félagasamtaka um 50% á þessu ári og önnur 50% á því næsta. Ekki halda að þetta séu háar upphæðir, en þær eru háar í prósentum. Við erum að hækka frá 13 milljónum árið 2018 og upp í 31 milljón árið 2020 til allra félagasamtaka sem snúast um náttúru og umhverfisvernd. Það munar um hverja milljón fyrir þau, ég þekki það mjög vel.

„Með mitt náttúru- og umhverfisverndarhjarta”

Gagnrýni Landverndar byggðist á því að löggjöfin væri andstæð orðum Guðmundar um að hann hafi sagt sambærilegt inngrip í umhverfisvernd „með öllu ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi“ fyrir tveimur árum. Um það hvort áherslur hans í umhverfismálum hafi breyst mikið síðan hann fór úr því að vera framkvæmdastjóri Landverndar og í það að vera umhverfisráðherra segir Guðmundur:

„Þegar þú vinnur hjá félagasamtökum þá endurspeglar þú vilja félagsmanna. Ég vann þar sem framkvæmdastjóri og var að vinna að málefnum sem stjórn samtakanna fól mér. Ég er í raun oft að vinna að sömu málum og ég var að vinna að þar en bara á öðrum stað núna. Það er ekki hægt að gera allt með nákvæmlega sama hætti og ég sá fyrir mér að þyrfti að gera þá, enda þarf ég að hlusta á miklu fleiri raddir í dag.

Ég get þurft að gera málamiðlanir, en þú þarft þess ekki, eða síður þegar þú ert hjá félagasamtökum. Það er eitt af því sem er mjög skemmtilegt við að vera hjá félagasamtökum, þú ert svolítið með dagskrárvald og getur beitt stjórnvöld og fyrirtæki þrýstingi. Það er alveg gríðarlega mikilvægt og þess vegna hef ég lagt þá áherslu sem ég hef gert á að efla félagasamtökin.

Síðan fæ ég þetta hlutverk og er að reyna að sinna því með minni bestu getu með mitt náttúru- og umhverfisverndarhjarta og með í farteskinu alveg gríðarlega mikla reynslu af því sem ég var áður að vinna.“

Guðmundur bendir á að hjá Landvernd hafi þau ýtt mikið á friðlýsingar en í því sé hann að vinna núna með viðamiklu átaki í friðlýsingum og sömuleiðis hafi hann kallað eftir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í langan tíma og hún sé loks komin.