Skiptineminn : Stærðfræði í Kyoto

Skiptineminn 2.jpeg

Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson, nemandi í stærðfræði við Háskóla Íslands, skrifar frá japönsku borginni Kyoto þar sem hann er í skiptinámi.

Þetta skólaárið er ég skiptinemi við Kyoto háskóla í tvær annir, frá október til ágúst. Þetta er þriðja árið mitt í grunnnámi í stærðfræði við Háskóla Íslands og á blaði það seinasta.

Eins og nafnið gefur til kynna er skólinn staðsettur í Kyoto, fyrrum höfuðborg Japans. Á japanskan mælikvarða er hún bæði lítil og friðsæl. Fyrir miðri borg er skólinn, umkringdur hofum og á. Við upphaf annar var heitt en fljótt varð kalt. Háskólinn útvegaði íbúð á skólalóðinni, henni má líkja við lítið hótelherbergi með eldhúskróki. Einu sinni gisti ég í mjög sambærilegu hótelherbergi.

Því er oft slegið fram að stærðfræði sé alþjóðlegt tungumál. Skemmtileg pæling en á kannski ekki við um háskólanám? Í það minnsta ekki samkvæmt minni reynslu. Námskeiðin sem ég sit eru kennd á ensku. Þau falla flest undir „frjálsar menntir“ og eru því að einhverju leyti almenn. Kennarar og öll aðstaða er til fyrirmyndar. Ofan á venjulegt nám er hægt að taka tíma í japönsku, allt að 15 klukkustundir að viku. Það þykir mér rausnarlegt.

Háskólalífið er ósambærilegt því íslenska. Líf margra nema fer að öllu leyti á fram á háskólasvæðinu, held ég. Á háskólasvæðinu er margt, til dæmis rakari og ferðaskrifstofa. Ég veit ekki til þess að það sé almennt nemendafélag en það er líklegt. Á hinn bóginn eru ótal nemendareknir klúbbar með kannski nokkra tugi meðlima, klúbbar tileinkaðir til dæmis klifri, hnefaleikum, blómaskreytingu, leirkerasmíði, og fleira. Klúbbarnir er margir, kannski hundrað? Líklega fleiri. Ég er í myndlistarklúbb og það er mjög gaman. Þegar vorar ætlum við í helgarferð niður að strönd og málum öldurnar.

Skiptineminn 1.jpeg

Í haust var háskólahátíð, þá var stórum bálkesti og litlu sviði komið fyrir á hafnaboltavellinum. Hafnabolti er mjög vinsæl íþrótt í Japan, eins og tennis. Á sviðinu tróðu upp lúðrasveit, töframaður og japanski sjálfsvarnarherinn. Ég held alla vega að þetta hafi verið japanski sjálfsvarnarherinn, ég skildi hvorki skiltin né kynnana. Atriðin voru fleiri en þetta er það sem ég sá.

Á háskólalóðinni er að finna stórt íþróttahús og fyrir framan íþróttahúsið blaktir fáni ólympíuleikanna. Ólympíuleikarnir verða haldnir í Tokyo 2020. Inni í íþróttahúsinu er handboltavöllur, fimleikasalur, og fleira. Á tröppum íþróttahússins æfir lúðrasveit háskólans síðdegis á virkum dögum, frá fimm til níu. Skammt frá íþróttahúsinu er aðalbygging háskólabókasafnsins. Japanskir veggir eru, á íslenskan mælikvarða, mjög þunnir og því berast æfingarnar skýrt og greinilega inn á lesstofurnar, sama hvert maður fer. Oft eru margir að fara í gegnum tónstigann, hver á sínu tempói. Þetta finnst mér undarlegt fyrirkomulag.

Það fylgja því margir kostir að búa í Japan. Að borða úti er ekki dýrt en matvöruverslanir þykja dýrar. Kannski svipað og á Íslandi? Þegar það er ekki skóli, eins og um helgar, er hægt að fara í ferðalag. Lestirnar eru skilvirkar og innanlandsflug ekki dýrt. Japanskur matur er ólíkur íslenskum og mér finnst hann góður.

SjónarmiðRitstjórn