Málstýring og málstaðall

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Þessi pistill er hluti af pistlaröð um framtíð íslenskunnar.  

Pistill: Hugrún Lind Hafsteinsdóttir, hlh41@hi.is

Rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju (Eiríkur Rögnvaldsson, 2015)

Svona hljóðar ein skilgreining á réttu máli og röngu sem Eiríkur Rögnvaldsson ræðir í pistli sínum „Að breyta fjalli staðli“. Skilgreiningin var sett fram af nefnd sem var skipuð til að gera tillögur um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum. Sú nefnd setti einnig fram þá skoðun að sporna ætti gegn nýjum málsiðum með ábendingum um að þeir séu ekki hluti af gildandi málvenjum (Eiríkur Rögnvaldsson, 2015). Hér mun ég fara yfir hvaða aðferðir er hægt að nota við það að sporna við þessum nýju málsiðum og hvort  það sé yfirhöfuð mögulegt.

Lengi hefur verið reynt að kenna skólabörnum að segja mig langar en ekki mér langar. Þrátt fyrir það er þágufallshneigð útbreidd í öllum aldurshópum. Baráttan gegn henni hefur þannig ekki skilað árangri auk þess sem fjöldi barna hefur fengið þau skilaboð að mál þeirra sé ekki „rétt“ íslenska (Ari Páll Kristinsson, 2017, bls. 53). Höskuldur Þráinsson gerir þetta að umfjöllunarefni sínu í grein sinni í Ritinu og bendir þar á að það geti beinlínis verið skaðlegt að leiðbeina fólki um mál þeirra. Hann telur að leiðrétting á stöku atriði muni ekki hafa nein áhrif þar sem „villan“ styðst við reglu í innra máli þess sem á í hlut, reglu sem varð til á máltökuskeiði. Samkvæmt Höskuldi getur viðkomandi ekki breytt þessari reglu og leiðréttingar á henni geta valdið því að viðkomandi hætti að treysta eigin málkennd og geta jafnvel eyðilagt regluna í máli hans (Höskuldur Þráinsson, 2014, bls. 159).

Það er sem sagt ekki hægt að breyta innri málreglum eftir að komið er af máltökuskeiði. Hins vegar er hægt að læra utan að einstök atriði sem varða regluna. Þá er hægt að læra að segja mig langar í stað mér langar, að sögnin langa taki með sér frumlag í þolfalli en ekki þágufalli. Þegar hins vegar kemur að því að nota sögnina með þriðja persónu fornafni eða nafnorðum sem eru ekki algeng í málinu á fólk það til að nota frekar þágufallið eða þarf að minnsta kosti að hugsa sig um áður en það velur fallið á frumlagi sagnarinnar (Ari Páll Kristinsson, 2017, bls. 53­–54).

Leiðréttingar geta einnig valdið því að fólk vandi sig um of, viti að stundum noti það þágufall þegar „réttara“ væri að nota annað fall, og „leiðrétti“ sig þannig þegar það á ekki við (Höskuldur Þráinsson 2014, bls. 165). Þetta er einmitt það sem Höskuldur á við þegar hann segir að leiðréttingar geti eyðilagt innri reglur málnotendans. Í grein Höskuldar kemur einnig fram að móðurmálskennararnir, þeir sem eiga samkvæmt þeirri skilgreiningu sem rædd var hér í upphafi að sporna við nýjum málsiðum og þar með að kenna nemendum hinn „rétta“ málstaðal, hafi hann jafnvel ekki sjálfir á valdi sínu og séu þannig sjálfir óöruggir um hvað teljist „rétt“ mál (Höskuldur Þráinsson, 2014, bls. 166). Það gefur auga leið að þetta er ekki vænlegt til árangurs þar sem ekki er hægt að kenna öðrum eitthvað sem maður sjálfur hefur ekki á valdi sínu.

Það er mikilvægara að fólk geti tjáð sig óhrætt á eigin móðurmáli en að viðhalda málstaðli sem er nú þegar orðinn úreltur

Í grein sinni setur Höskuldur fram tillögu að því hvernig hægt væri að hjálpa nemendum að öðlast færni í hinum ríkjandi málstaðli þannig að þeir hafi hann á valdi sínu og geti bæði notað hann og skilið, án þess að beinlínis kenna þeim hann. Í meginatriðum snýst sú tillaga um að gera þeim þennan málstaðal sýnilegan – því að börnin læra það sem fyrir þeim er haft (Höskuldur Þráinsson 2014, bls. 178). Þau geti lært að nota þennan málstaðal ef þau lesa og heyra efni sem fylgir honum nægilega oft á meðan þau eru á máltökuskeiði og ef þau fá næga þjálfun í því að nota hann sjálf, bæði í ræðu og riti. Þessi aðferð Höskuldar virðist líklegri til að bera árangur en leiðréttingar og leiðbeiningar um málfar.

Að sjálfsögðu er gott að nemendur öðlist færni í því að nota hinn ríkjandi málstaðal og hafi hann á valdi sínu. Hins vegar tel ég að það sé einnig nauðsynlegt að gera ráð fyrir þeim breytingum sem hafa þegar átt sér stað í íslensku máli í þessum málstaðli, þar á meðal þágufallshneigð og einnig nýju þolmyndinni sem nú er að ryðja sér til rúms í máli íslenskra ungmenna. Það er mikilvægara að fólk geti tjáð sig óhrætt á eigin móðurmáli en að viðhalda málstaðli sem er nú þegar orðinn úreltur, en eins og kemur fram í grein Eiríks Rögnvaldssonar miðast hann við það sem þótti vandað ritmál fyrir 80­–100 árum síðan (2014).

Það er í eðli allra tungumála að breytast og þó svo að íslenskan hafi hingað til breyst hægar en önnur tungumál er hún þó alls ekki undanskilin málbreytingum. Það er þannig einungis tímaspursmál hvenær nýir málsiðir verða hluti af gildandi málvenjum hverju sinni. Það hefur sýnt sig að það virkar ekki að streitast á móti þessum nýju málsiðum og því er það eina sem hægt er að gera að samþykkja þá. Það að bæta þessum nýju tilbrigðum í máli við hinn ríkjandi staðal mun ekki fella þau tilbrigði sem eldri eru úr gildi heldur mun það auðga tungumálið og gera það fjölbreyttara. Þessi nýju tilbrigði í málinu munu þannig ekki verða íslenskunni að falli heldur sýna þau þvert á móti að hún er ljóslifandi.

Heimildaskrá

Ari Páll Kristinsson. (2017). Málheimar: Sitthvað um málstefnu og málnotkun. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Eiríkur Rögnvaldsson. (2015). Að breyta fjalli staðli. Hugrás. Sótt 4. febrúar 2019 af http://hugras.is/2015/11/ad-breyta-fjalli-stadli/.

Höskuldur Þráinsson. (2014). Málvernd, máltaka, máleyra – og PISA-könnunin. Í Björn Þór Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir (ritstjórar), Ritið 2 (bls 153-182). Reykjavík: Hugvísindastofnun.

SjónarmiðRitstjórn