„Umferðarljós úti á Hafnarfjarðarvegi“

Stúdentablaðið/Unsplash

Stúdentablaðið/Unsplash

Þessi pistill er hluti af pistlaröð um framtíð íslenskunnar.

Pistill: Ægir Þór Jahnke, aej5@hi.is.

Svo hljóðar fyrirsögn tilkynningar sem birtist á fréttavefnum Vísi þann 17. febrúar 2016.[1] Það fyrsta sem íslenskur málnotandi ætti að spyrja sig eftir að lesa þessa fyrirsögn er vitaskuld: hvar ættu umferðarljós að vera ef ekki úti? Auðvitað munu flestir átta sig á merkingunni tiltölulega fljótt, í það minnsta þegar segir skömmu síðar að lögreglan beini þeim tilmælum til vegfarenda að fara gætilega. (Reyndar gætu gárungar einnig gefið sér að nú hafi gervigreindin tekið völd og mannýg umferðaljós gangi um götur skjótandi leysigeislum í rauðum, grænum og gulum!) Hér er á ferðinni eitt fjölmargra lýsandi dæma um það hvernig enskan hefur smokrað sér inn í íslenskuna eftir krókaleiðum. Vissulega er freistandi að afsaka þetta dæmi sem hroðvirkni sökum fljótfærni, sérílagi þegar haft er í huga að vegna eðlis fréttarinnar hafi viðkomandi fréttamanni vafalaust legið nokkuð á að koma upplýsingunum í loftið. Staðreyndin er þó sú að þetta er langt í frá einangrað tilvik.

Lítum á spánýtt dæmi úr íþróttaumfjöllun af Vísi: „...stuðningsmaður Birmingham hljóp inn á völlinn í þeim eina tilgangi að kýla Jack Grealish, leikmann Aston Villa. Sú ákvörðun sprakk svo í andlitið á honum er Grealish skoraði sigurmark leiksins.“[2] Þetta skilst vissulega, svona nokkurn veginn, en ekki þarf mikið ímyndunarafl til að hugsa sér hvernig þessi málnotkun kom til. Hingað til hafa svona vinnubrögð einmitt einskorðast mikið til við slúður- og íþróttafréttir. Nýlega fór ég aftur á móti í viðtal í höfuðstöðvum Fréttablaðsins fyrir menningardálk blaðsins og fékk þar staðfestingu á að málnotkun lík þeirri að ofan er aðeins líkleg til að aukast í náinni framtíð. Hraðinn sem krafist er við fréttavinnslu er slíkur að fréttafólk, þótt það sé alla jafna fullfært um að rita vandað íslenskt mál, verður æ líklegra til að gera slík glappaskot, ekki síst þegar haft er í huga að mikið af þeirra vinnu felst í að þýða og endurrita fréttir úr ensku.

Í nýlegri grein á fréttavef Morgunblaðsins fjallar Anna Margrét Björnsson um það sem hún kallar metnaðarleysi fyrir tungumálinu. Það einkennist ekki síst af auglýsingum, kynninga- og upplýsingaefni sem aðeins býðst á ensku, jafnvel þótt maður myndi ætla að markhópurinn væri Íslendingar í það minnsta til jafns við ferðamenn.[3] Sem íbúi í miðborg Reykjavíkur get ég staðfest sannindi þessa. Þar úir allt og grúir af auglýsingum á ensku.

Matseðlar eru á ensku. Þjónar ávarpa mann á ensku án þess að spyrja fyrst hvers lenskur maður sé og á þetta ekki síður við um íslenskt þjónustufólk. Svo er auðvitað mikið orðið um að þjónustufólkinu sé ekki mælandi á íslensku hvort eð er.

Þetta er sök sér fyrir okkur yngra fólkið og gerir borgina meira kosmópólítan, en á sama tíma, og án þess að fella gildisdóma, skildi maður viðurkenna að þessi þróun á sinn þátt í að sumt eldra fólk sækir síður niður í bæ.

Sem stendur flokkast íslenskan þó enn sem öruggt mál samkvæmt alþjóðlegum stöðlum UNESCO. Hún er opinbert tungumál, á sér engar mállýskur að kalla, er kennd á öllum skólastigum og er notuð dagsdaglega af vel flestum íbúum landsins. En hversu lengi? Í ályktun Íslenskrar málnefndar frá 2018 um stöðu tungunnar segir: „Tilhneiging til enskunotkunar er ekki bundin við málnotkun í viðskiptum. Þess eru dæmi að ungir Íslendingar, allt niður í börn, kjósi að hafa samskipti á ensku þótt hún sé ekki móðurmál þeirra.“[4] Sjálfur man ég eftir því á mínum grunnskólaárum að spjalla við vini mína heilu dagana einungis á ensku þó svo við værum allir íslenskir. Þá vorum við næsta einir um þennan sið, en vel má ætla að á þeim 15 árum sem liðin eru hafi þessi iðja færst nokkuð í aukana, ekki síst sé haft í huga að í dag eru fleiri nemendur í grunnskólum landsins sem eiga erfitt með samskipti á íslensku. Vitaskuld er gott mál að börnin kunni ensku vel. En einnig verður að gefa gaum að hinu geigvænlega upplýsingaflæði sem á okkur dynur gegnum hina ýmsu alþjóðlegu miðla, mest allt á ensku. Með þessum hætti fer fram hin lymskulega yfirtaka enskunnar í íslenskunni innan frá, þ.e.a.s. gegnum málstíl og setningagerð sem smám saman breytir málhugsun okkar. Líti maður til örar fjölgunar setninga einsog þeirrar sem er titill þessarar greinar, setningar sem eru íslenskar aðeins að ytra formi en enskar undir niðri, hlýtur það að slá nokkurn viðvörunartón. En hvað, ef eitthvað, er hægt að gera?

Í grein sinni á Hugrás frá 2015 minnir Eiríkur Rögnvaldsson á bölspár Rasmusar Rasks frá 1813 þar sem hann varaði við yfirvofandi útdauða íslenskunnar.[5] Rúmum 200 árum síðar stendur hún vissulega enn fyrir sínu, en maður þyrfti að vera ívið mikill bjartsýnismaður til að halda því fram að skilyrði dagsins í dag séu sambærileg við ásókn dönskunnar við upphaf 19. aldar. Staða enskunnar í alþjóðlegu samhengi virðist ekki líkleg til að haggast í fyrirsjáanlegri framtíð og því sýnt að íslenskan mun þurfa að læra að lifa með henni, sérílagi á sviði alþjóðaviðskipta, vísinda og fræðastarfa. Svo hvað skal gera?

Sjálfur er ég enginn bölsýnismaður. Tungumál eru lífseig, í það minnsta svo lengi sem vilji er til staðar meðal málnotenda að viðhalda þeim. Allt er hægt ef viljinn er fyrir henda, er gjarnan sagt. Eða við getum gripið hér í beinþýðingu úr enskunni og sagt: þar sem er vilji þar finnum við leið! Það er auðvitað stóra spurningin og henni má jafnfram snúa við. Það er að segja, ef viljinn er til staðar þá fylgja möguleikar, en án vilja þá týnast möguleikarnir og tungumálið hefur þar með glaðar tilverurétti sínum.

Í erindi sínu um „Málstefnu 21. aldar“ lýsir Kristján Árnason þrem kostum um þróun málstaðla á öldinni, áframhaldandi íhaldssemi, frjálsleg mótun „nýíslensku“ eða eins konar uppgjöf gagnvart erlendum málstöðlum. Segir hann í kjölfarið að: „Fyrsti kosturinn er sá eini sem hægt er að mæla með sem markmiði í íslenskri málpólitík á 21. öld.“[6] Hér er á ferðinni ofureinföldun og það sem í heimspeki er skilgreint sem valtvennurökvilla (eða svart-hvítt skekkjan), þ.e. þegar möguleikar eru útilokaðir til þess að viðmælandi/lesandi neyðist til að velja á milli kosta sem andstæðingur hans hefur skilgreint fyrirfram. Með fullri virðingu fyrir Kristjáni og þeim rökum sem hann færir í kjölfarið, sem eru raunar öll gild og góð, þá eru forsendur hans í aðdragandanum einfaldlega allt of hæpnar á köflum. Þetta kristallast hvað helst í orðum hans um mögulega framtíðarsýn „nýíslenskunnar“ þar sem hann segir: „Ekki er auðvelt að spá fyrir um þá þróun sem þessu fylgdi en hugsanlegt er að fljótlega þyrfti að fara að þýða 20. aldar texta, a.m.k. þá frá fyrri hluta aldarinnar, yfir á þetta nýja mál.“[7]

Þótt Kristján leyfi sér ekki gildishlaðnara orð en hugsanlegt er meining hans engu að síður augljós. Hér beitir Kristján fótfesturökum, þ.e. hann gefur sér að eitt leiði óhjákvæmilega af öðru. Leyfum minnstu breytingar á íslenskunni og áður en við vitum af skiljum við ekki orðið einu sinni 100 ára gamla texta, svo ekki sé minnst á fornsögurnar. Við þetta er ýmislegt að athuga. Það er tilfellið að ungt fólk í dag skilur illa jafnvel mun nýrri texta en frá fyrripart síðustu aldar. Þetta er ekki gott, en ósýnt hvernig áframhaldandi íhaldssemi í málstýringu breyti því nokkuð nema þá til verri vegar. Væri ekki nær að gera textana þeim læsilegri? Þá þykir mér skorta umræðu um möguleikana sem felast í framþróun málsins, ekki hvað síst fyrir einmitt bókmenntirnar. Lítum t.d. til þýðingar Seamus Heaney á Bjólfskviðu, getum við sagt að málheimur enskunnar væri betur settur ef íbúar Bretlandseyja læsu einfaldlega textann enn í sinni frumgerð? Hví þessi þrákelni gegn úrvinnslu á okkar bókmenntaarfi?

Staðreyndin er sú að tungumál breytast. Þau gera það sjálfviljug og virða gjarnan að vettugi tilmæli valdhafa og sérfræðinga. Þetta slík þróun felur líka í sér vaxtartækifæri og opnar málnotendum nýjar víddir. Metnaðarleysi gagnvart málinu þarf ekki að felast eingöngu í því að beita ensku og enskuskotnum stíl, það getur rétt eins falist í því að neita að leita frumlegra aðferða til að finna íslenskunni nýjar leiðir að vaxa í samvinnu við alþjóðamálið til jafns við sögumálið. Ég hef þegar nefnt þýðingar í þessu samhengi. Og meðan mörgum kann að þykja miður að hugsa til þess að „nýíslensku“ þýðingar Njálu verði kenndar í grunnskólum framtíðarinnar þarf alls ekki að vera að þannig sé sagnaarfinum skaði ger. Er ekki rétt eins hægt að færa fyrir því rök að þannig mætti mun frekar vekja áhuga nemenda á innihaldi textans? Og hvað með nýbúa og börn þeirra? Mætti ekki þannig auðvelda þeim til muna að tileinka sér eitthvað af sögulegum arfi landsins?

Kallið mig bjartsýnismann en ég sé frekar felast möguleika í að eigna okkur óhjákvæmilegar breytingar en að berja hausnum endalaust við sama steininn. Raunar geng ég svo langt að telja það einn helsta vanda íslenskunnar í dag og eina helstu ástæðu þess að ung fólk les og skilur sífellt minna. Lakur lesskilningur er vitaskuld vel þekkt vandamál og eitthvað sem þarf að sinna betur, væri ekki ein leið til að takast á við þetta vandamál að freista þess að gera textana nemendum læsilegri og frekar í takt við þeirra veruleika? Þetta kann að hljóma einsog stór fórn að færa, en ég á ekki við að fórna allri hefðbundinni setningagerð, orðaforða, greinarmerkjasetningu, o.s.frv. Hér líktog víðar er hægt að feta þennan margumrædda gullna meðalveg og e.t.v. brúa að nokkru breikkandi gjána milli talmáls og ritmáls.  

Enn er íslenskan (vonandi!) ekki í bráðri hættu, en lífslíkur hennar til langtíma litið hljóta alltaf að velta á því að málið sé í beinum og gagnvirkum tengslum við veruleika málnotendanna. Mig langar síður að þurfa að horfa upp á fyrirsagnir einsog þá hér að framan en þegar upp er staðið gæti það engu að síður reynst skárri kostur. Í það minnsta býður sá veruleiki enn upp á úrvinnslumöguleika og aldrei að vita nema úr yrði nýtt og dýnamískt tungumál sem opnaði okkur áður lokaðar dyr í völundarhúsi mannlegrar tjáningar.


Heimildir

[1]    Vísir, 17. febrúar 2016. http://www.visir.is/g/2016160219046/umferdarljos-uti-a-hafnarfjardarvegi – sótt 10/02/2019

[2]    Vísir, 11. mars 2019, http://www.visir.is/g/2019190319893/ottast-ad-leikmadur-verdi-stunginn-a-vellinum – sótt 11/03_2019. Mínar leturbreytingar

[3]    Mbl, 1. desember 2018, https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/12/01/metnadarleysi_fyrir_tungumalinu/ – sótt 10/02/2019

[4]    Íslensk málnefnd, Ályktun um stöðu íslenskrar tungu 2018 (birt 15. nóvember 2018)

[5]    Eiríkur Rögnvaldsson, „Er hrakspá Rasks að rætast?“ Hugrás (birt 6. nóvember 2015)

[6]    Kristján Árnason, „Málstefna 21. aldar,“ Málfregnir (2001): 3–9.

[7]    Kristján Árnason, „Málstefna 21. aldar,“ Málfregnir (2001): 3–9.

SjónarmiðRitstjórn