Háskólanemar sem finna sér æti í ruslagámum

Ljósmynd/Þorgerður María

Ljósmynd/Þorgerður María

Sífellt aukast vinsældir þess að rusla (e. dumpster dive). Að rusla er að leita að mat eða öðrum varningi í ruslagámum stórmarkaða eða annarra verslana. Flestir gera þetta vegna þeirrar mengandi matarsóunar sem á sér stað þegar mat er hent í massavís, aðrir hugsa um ruslun sem sparnaðarráð. Fátækir og hugsjónaglaðir háskólanemendur eru því að sjálfsögðu í hópi þeirra sem rusla hérlendis.

Stúdentablaðið tók tvo þeirra tali, þær Þorgerði Maríu Bjarnadóttur jarðfræðinema, og Aðalbjörgu Egilsdóttur líffræðinema.

Aðalbjörg byrjaði að rusla í september á síðasta ári, Þorgerður er örlítið reyndari en hún hóf sinn ruslaraferil árið 2017. „Ég fór í fyrsta skiptið árið 2017. Þá þorði ég þessu eiginlega ekki og beið inni í bíl á meðan vinir mínir kíktu í gámana,“ segir Þorgerður.

Þorgerði fannst tilhugsunin um að rusla spennandi áður en hún byrjaði, ástæðurnar voru blanda af umhverfissjónarmiðum og sparnaði. „Mér fannst þetta eitthvað spennandi. Hafði heyrt talað um matarsóun og skaðsemi hennar og að fólk stundaði þetta og átti vin sem var sérstaklega duglegur. Það spilaði líka inn í að á þeim tíma var ég að leigja og átti ekkert svakalega mikinn pening. Mér finnst samt oft þegar ég rusla eins og ég sé í fjársjóðsleit og er spennt að sjá hvað ég finn.“

Ljósmynd/Aðalbjörg

Ljósmynd/Aðalbjörg

Kíkir í gáminn fyrir búðarferð

Aðalbjörg er forseti umhverfis- og samgöngunefndar Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Það ætti því ekki að koma á óvart að hún var sérstaklega með umhverfismálin í huga þegar hún byrjaði að rusla. „Ég á nokkra vini sem rusla og töluðu mikið um það og mig langaði að prófa. Ég hef líka mikla ástríðu fyrir umhverfismálum og verð miður mín þegar ég hugsa um matarsóun. Það er svo sorglegt að mat, sem búið er að nota mikið af verðmætum hráefnum í og hafa oft stórt kolefnisfótspor, sé hent þar sem hann rotnar.“

Þorgerður og Aðalbjörg eru sammála um að það sé lítið mál að rusla á Íslandi. „Starfsfólki finnst þetta allt í lagi og það eru margar búðir með ólæsta gáma sem auðvelt er að nálgast,“ segir Þorgerður.

Maturinn í gámunum er oftar en ekki meiri en þær geta borið og af ýmsum tegundum. „Grænmeti og ávextir (jarðarber, bananar og laukur til dæmis) er lang algengast. Svo brauð og þar á eftir bara alls konar tilfallandi eins og sælgæti. Hef líka fundið fatnað sem var í góðu lagi!“ segir Þorgerður.

Hvað varðar sparnað þá sparar Þorgerður meira en Aðalbjörg. Hún kíkir í gáma verslana áður en hún fer að versla og stundum er svo mikið af mat þar að hún endar á að þurfa ekkert að kaupa í þeirri búðarferð. Aðalbjörg segir að sparnaðurinn sé einhver en væri meiri ef hún væri duglegri að rusla. „Ég geri þetta ekki fyrir fjárhagslegan sparnað heldur umhverfisins vegna.“

Ljósmynd/Aðalbjörg

Ljósmynd/Aðalbjörg

Ferðalag bláberjanna

Um það hvort löglegt sé að rusla segir Þorgerður: „Skilst að það sé ekki löglegt, að rusl verslana sé í raun í þeirra eigu og því tæknilega séð flokkist þetta sem þjófnaður sem er klárlega fáránlegt. Held samt að þessum lögum sé álíka mikið framfylgt eins og lögunum að það sé ólöglegt að vera drukkinn á almannafæri.“

Báðar telja þær matarsóun raunverulegan vanda hérlendis. „Allt of miklum mat er hent í búðunum og þá er þegar búið að henda fullt af mat hjá heildsölum auk þess sem veitingastaðir og heimili henda líka mat. Margir hafa tekið sig á heima hjá sér og sumar verslanir en það er ekki nóg. Það þarf að breyta framleiðsluferlinu, gera matarsóun ólöglega eða eitthvað svoleiðis og skikka fólk til að hugsa meira út í sögu matarins,“ segir Aðalbjörg.

Þorgerður bendir á öll áhrifin sem matvælaframleiðsla hefur á umhverfið, til þess eins að maturinn endi í ruslagámi heildverslunar. „Ímyndaðu þér ferðalagið sem bláberin fara frá því þau eru týnd í annarri heimsálfu, flogin til landsins og enda svo í verslun til þess eins að vera hent í ruslið!! Hrikalegt kolefnisfótspor á öllu ferlinu!.“