„Þetta er bókstaflega banvæn brottvísun“

„Það kom mér á óvart í verkefninu sjálfu og eftir verkefnið hvað þetta hafði mikil andleg áhrif á mig,” segir Karítas.

„Það kom mér á óvart í verkefninu sjálfu og eftir verkefnið hvað þetta hafði mikil andleg áhrif á mig,” segir Karítas.

„Ég einhvern veginn áttaði mig ekki á því hvað þetta er alvarlegt, fólk er virkilega að berjast fyrir lífi sínu, ekki bara aðeins betri lífskjörum. Vegna þess fór ég rosalega djúpt ofan í þetta og viðtölin urðu mjög intense,“ segir Karítas Sigvaldadóttir, mannfræðingur og ljósmyndari sem vann lokaverkefni í Ljósmyndaskólanum þar sem hún ræddi við og myndaði hælisleitendur sem búa á Ásbrú. Hún vill með myndunum vekja fólk til umhugsunar.

„Til að draga það saman þá er þarna vitundarvakning um réttindi hælisleitenda. Aðallega að við tökum mark á þeim sem manneskjum, það er alltaf verið að afmennska hælisleitendur. Það er svo mikill falinn rasismi á Íslandi að það er alveg ótrúlegt. Það er líka mikilvægt að bjóða þau velkomin til Íslands, tala við þau og taka þátt í þeirra störfum,“ segir Karítas.

Karítas vill sömuleiðis skapa umræðu um Dyflinnarreglugerðina, sem gengur út á það að ef flóttafólk hefur sótt um hæli annars staðar áður en það sækir um hæli hérlendis þá má vísa þeim úr landi á þeim grundvelli. „Það virðast fáir átta sig á því hversu stórhættuleg þessi reglugerð er. Svo er það líka að horfa svolítið á þetta með þeirra augum. Það eru svo margir sem halda að hælisleitendur komi hingað og steli frá okkur. Það er alls ekki málið. Þau voru alltaf að tala um hvað þau langaði mikið að leggja samfélaginu lið.“

Stökum karlmönnum sýnd tortryggni

Hælisleitendur hafa mótmælt kjörum sínum á Íslandi um tíma. Í kröfum sem þeir vilja að ríkisstjórnin gangist við setja þeir meðal annars fram kröfu um að aðstöðu hælisleitenda á Ásbrú verði lokað. Einhverjir hafa slegið því fram að ástandið á Ásbrú sé prýðilegt og yfir engu að kvarta. Karítas eyddi talsverðum tíma þar og segir að það sé ekki húsið sjálft sem sé vandamálið.

„Fólk er mjög þakklát fyrir að fá þak yfir höfuðið og aðstöðu til þess að elda, en sum þeirra eru að koma úr tjaldbúðum. Vandamálið er hvað þau eru rosalega einangruð, þau hafa engin tök á því að komast í bæinn og eru þarna í marga mánuði að gera ekki neitt. Krakkarnir geta ekki fengið að fara í skóla á meðan þessu stendur.“

Karítas segir að þeir karlmenn sem koma einir til landsins séu hvað verst settir á Ásbrú. „Stakir karlmenn eru í einu húsnæði og það er bannað að fara þangað inn, sem þeim finnst hræðilegt. Ég er til dæmis og orðin mjög góð vinkona margra þeirra en þeir geta ekki boðið mér inn í kaffi þegar ég fer að heimsækja þá. Ég verð að standa fyrir utan og spjalla við þá en þá langar bara að bjóða mér inn og spjalla þar en öryggisverðirnir stöðva það. Fjölskyldurnar eru hins vegar í stóru húsi, hver með sína íbúð og það mátti fara inn í þær.“

Aðspurð segir Karítas að karlmönnunum finnist þetta sýna mikla tortryggni í þeirra garð. „Þeim finnst eins og þeir séu í fangelsi. Þeir fá 7-8 þúsund krónur frá ríkinu á viku og það kostar þúsund krónur fyrir þá með strætó aðra leiðina til Reykjavíkur. Þeim finnst þeir vera alveg einir á báti.“

Hluti myndanna sem Karítas sýndi á sýningu Ljósmyndaskólans. Hún hyggst birta myndirnar með viðtölunum einn daginn. Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Hluti myndanna sem Karítas sýndi á sýningu Ljósmyndaskólans. Hún hyggst birta myndirnar með viðtölunum einn daginn. Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Öll að flýja lífshættu

Það reyndist Karítas erfitt til að byrja með að fá hælisleitendur til að tala við sig. „Ég fékk mjög mikið af neitunum. Svo fór ég líka og tók myndir af fólki og tók viðtöl en svo sagði fólk síðar meir að ég mætti ekki nota myndirnar eða viðtölin. Fólk átti erfitt með að treysta, sem er skiljanlegt vegna þess hve mörgum áföllum það hefur lent í.

Ég var oft spurð hvort ég væri blaðamaður, en það vildi alls ekki taka þátt ef svo væri, um leið og ég greindi frá því að ég væri að vinna skólaverkefni og væri ljósmyndari þá mýktist fólk upp og varð jákvæðara.“

Það fór að ganga betur þegar Karítas kynntist aðgerðarsinnanum Ali sem er frá Írak og gat túlkað fyrir hana.  „Boltinn fór ekki að rúlla fyrir alvöru fyrr en Ali hjálpaði mér. Hann gat útskýrt þetta betur á sínu tungumáli og þá fann ég hvað tungumál og menningarmunur skiptir miklu máli. Hann hefur verið mikið í þessari umræðu og verið að mótmæla mikið. Hann talar góða ensku og er alveg yndislegur. Með því að komast í samband við hann komst ég í samband við svo marga.“

Öll þau sem Karítas myndaði eru að flýja lífshættulegar aðstæður. „Þau eru öll annað hvort að bíða eftir því að verða vísað úr landi eða að bíða eftir að fá svar við umsókninni sinni. Þau koma til landsins og sækja um hæli, en það tekur mjög langan tíma að fá svar. Svo fá þau oftast neitun og svo neitun númer tvö eftir að þau áfrýja. Þegar þau fá neitun númer tvö þá verða þau send úr landi. Þau sem vissu ekki hvort þau yrðu send úr landi voru samt býsna viss um að það myndi gerast þar sem þau höfðu sótt um hæli annars staðar áður. Þau voru öll að koma frá öðrum Evrópulöndum.“

Tilfellið í öllum þessum málum var því að þau yrðu líklega send úr landi vegna Dyflinarreglugerðarinnar „sem er fáránlegt,“ segir Karítas.

„Maðurinn sem er með blörrað andlit og situr með börnunum sínum er frá Írak. Hann flúði vegna þess að eldri sonur hans var myrtur af Talíbönum sem hótuðu síðan að myrða alla fjölskylduna.” Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

„Maðurinn sem er með blörrað andlit og situr með börnunum sínum er frá Írak. Hann flúði vegna þess að eldri sonur hans var myrtur af Talíbönum sem hótuðu síðan að myrða alla fjölskylduna.” Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Hótuðu að myrða alla fjölskylduna

Verkefnið ber titilinn Banvæn brottvísun?.  „Mig langaði að slá þessu í augun á fólki þar sem þetta er bókstaflega banvæn brottvísun. Hælisleitendurnir eru búnir að setja fram sínar kröfur sem þeir vilja að stjórnvöld komi til móts við. Fyrsta krafan er að hætta brottvísunum vegna þess að þær séu bókstaflega banvænar, stjórnvöld eru að senda fólk út í dauðann, það er bókstaflega þannig,“ segir Karítas og tekur dæmi:

„Maðurinn sem er með blörrað andlit og situr með börnunum sínum er frá Írak. Hann flúði vegna þess að  eldri sonur hans var myrtur af Talíbönum sem hótuðu síðan að myrða alla fjölskylduna. Þess vegna var hann með blörrað andlit, hann vildi ekki að einhver gæti séð að þau væru á Íslandi.

Rosalegasta viðtalið sem ég lenti í var við hjón með lítinn strák. Ég var örugglega hjá þeim í fimm tíma. Við vorum bara grátandi saman í sófanum því sagan þeirra var svo átakanleg. Eftir viðtalið þá leyfðu þau mér ekki að deila myndinni né viðtalinu vegna þess að þau voru búin að opna sig svo mikið.

Maðurinn er ofsóttur af hryðjuverkafólki í sínu heimalandi sem hótuðu að drepa alla fjölskylduna og beita konuna ofbeldi, en hún hafði lent í hrikalegu ofbeldi. Það sem var svo ótrúlegt var að það eina sem hún vildi var gott líf fyrir son hennar. Hún sagði að hún vildi að hún gæti skilið hann eftir á Íslandi svo hann fengi gott líf.

Þegar ég talaði við þau áttu þau von á því að vera send úr landi eftir nokkra daga. Hann hafði ekki sofið í viku vegna þess að hann vissi ekki hvenær hann ætti von á að vera sóttur. Örvæntingin var svo mikil og vonleysið. Hann sýndi mér frétt af manni sem var í sömu stöðu og hann. Sá maður hafði verið hálshöggvinn fyrir framan fjölskylduna. Hún sagði að hún gæti ekki lifað við meira ofbeldi.“

Verkefnið hafði mikil andleg áhrif á Karítas

Fleiri viðtöl tengjast líflátshótunum vegna þess að einstaklingar höfðu tengst hópum á einhvern hátt sem unnu gegn hryðjuverkum, sama hversu lítil tengslin voru. Einn einstaklingurinn sem Karítas hitti var samkynhneigður og þurfti þess vegna að flýja heimalandið, annar hafði ákveðið að hætta að vera múslimi og gerast kristinn og bróðir hans hótaði honum lífláti af þeim sökum.

Eins og gefur að skilja var verkefnið átakanlegt. „Það kom mér á óvart í verkefninu sjálfu og eftir verkefnið hvað þetta hafði mikil andleg áhrif á mig. Ég fór rosalega djúpt ofan í þetta. Þetta er svo miklu meira og víðtækara en ég hefði nokkurn tímann búist við. Vandamálin eru miklu stærri, þetta snýst ekki bara um að börnin þín fái að fara í skóla og að þú getir búið í húsi en ekki tjaldi, þetta snýst bókstaflega um að lifa af,“ segir Karítas.

Aðspurð segir Karítas að hún hafi áhuga á að fara lengra með verkefnið. „Ég birti ekki viðtölin sem fylgja myndunum, birti bara einn samfelldan texta sem fjallaði um þær allar því ég vildi bara að fólk myndi ímynda sér þá sögu sem átti við hverja mynd. En ég held að það væri líka möguleiki að birta viðtölin, sama hvort það sé á bókaformi eða sýningu með myndunum.“

„Ég verð að standa fyrir utan og spjalla við þá en þá langar bara að bjóða mér inn og spjalla þar en öryggisverðirnir stöðva það,” segir Karítas sem er orðin góð vinkona margra á Ásbrú. Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

„Ég verð að standa fyrir utan og spjalla við þá en þá langar bara að bjóða mér inn og spjalla þar en öryggisverðirnir stöðva það,” segir Karítas sem er orðin góð vinkona margra á Ásbrú. Ljósmynd/Karítas Sigvaldadóttir

Skörun mannfræði og ljósmyndunar

Karítas útskrifaðist með bakkalárgráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands í fyrra. Hún hefur mikinn áhuga á að vinna með jaðarsettum hópum í framtíðinni „Ég myndi algjörlega vilja halda áfram að standa fyrir málefnum minnihlutahópa. Það væri draumurinn að ná að tvinna saman mannfræðinni og ljósmynduninni í eitthvað framtíðarstarf.“

Mannfræðibakgrunnurinn kom sér vel við vinnslu verkefnisins. „Ég finn alveg hvað mannfræðigrunnurinn hefur hjálpað mér í þessu. Ég horfði á þetta með mannfræðigleraugunum. Það er oft talað um „við“ og „þau“ í mannfræðinni sem fékk mig til að horfa á málefnið út frá þeim og heyra hvað þau höfðu að segja.“

„Á meðan unnið er í vandanum þá er fólk að deyja“

Viðbrögðin við Banvænni brottvísun? hafa ekki látið á sér standa. „Þau í skólanum voru virkilega ánægð með verkið. Öll sem töluðu eitthvað við mig eftir að hafa séð verkið sögðu að þau hefðu kannski ekki áttað sig á því hversu alvarleg staðan væri. Svo var ég að tala um þetta við mömmu um daginn og við ræddum það að fólkið er bara þarna í Ásbrú og það tekur enginn eftir þeim. Þegar eitthvað gerist úti í heimi þá erum við enga stund að deila á samfélagsmiðlum en þegar það er einhver bókstaflega í bakgarðinum okkar viljum við ekkert gera, þá kjósum við bara að loka augunum.“

Að lokum spyr blaðamaður Karítas hvað henni finnist um þá skoðun að Íslendingar ættu frekar að setja fé í að laga aðstæður í þeim löndum sem hælisleitendur koma frá en í móttöku hælisleitenda. „Það þarf líka að aðstoða fólkið sem þarf að flýja heimlönd sín. Á meðan unnið er í vandanum þá er fólk að deyja. Vinnum endilega í þeim vandamálum sem eru á staðnum en við þurfum líka að veita fólki sem neyðist til að flýja öruggt skjól.”