Nýsköpun sprottin úr tilvistarkreppu

„Ef þú ert sífellt að leita að tækifærum þá finnur þú þau á endanum,“ segir Daníel G. Daníelsson. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Ef þú ert sífellt að leita að tækifærum þá finnur þú þau á endanum,“ segir Daníel G. Daníelsson. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Það er oft sagt að A hugmynd með B teymi sé verri en B hugmynd með A teymi. Hugmyndin sjálf stendur og fellur með þeim einstakling sem hún verður til hjá,“ segir Daníel G. Daníelsson, sagnfræðinemi og verkefnastjóri hjá Icelandic Startups, fyrirtæki sem þjónustar frumkvöðla og sprotafyrirtæki.

„Minn áhugi á nýsköpun er sprottinn upp úr gríðarlegri tilvistarkreppu þegar ég var tvítugur og stóð á tímamótum um að ákveða framtíð mína. Þá fór ég aðeins að horfa á mín gildi sem ég vissi mjög lítið hver voru.“

Daníel segir að drifkraftur nýsköpunar snúist um betrumbætur. „Þetta snýst um að gera gott betra. Nýsköpun snýst einfaldlega um það að taka einhverja hugmynd og koma henni í verk. Ég tók sjálfan mig og kom sjálfum mér í verk með því að koma mér í nám í Háskólanum og í millitíðinni varð ég sömuleiðis frumkvöðull með því að reka gistiþjónustu í Skaftárhreppi í fimm sumur ásamt kærustunni minni.“

„Það er hægt að gera eitthvað upp úr engu“

Gistiþjónustuna ráku þau á gömlum bóndabæ. „Frændi kærustunnar minnar á gamlan bóndabæ sem hann var ekkert að nota og þarna var hús sem var búið að standa autt í 25 ár og ég spurði hann bara hvort það væri ekki hægt að leigja bæinn út. Þetta var áður en Airbnb varð jafn stórt og það er í dag. Þarna komum við inn á galopinn markað og áttuðum okkur á því að við vorum svolítið á undan straumnum vegna þess að Airbnb var orðið svolítið stórt erlendis. Eftir á að hyggja var ég svolítið bara eins og frumkvöðull, rannsakaði markaðinn, athugaði okkar sérstöðu, hver markhópurinn væri og það hvernig við ættum að markaðssetja okkur.“

Reksturinn kenndi Daníel margt. „Þetta bjó í raun til þann hugsunarhátt hjá mér að það er hægt að gera eitthvað upp úr engu og kenndi mér að það skiptir ekki máli hvaðan þú kemur, ef þú ert sífellt að leita að tækifærum þá finnur þú þau á endanum.“

Í umræddri tilvistarkreppu sá Daníel myndband sem hafði mikil áhrif á hann. „Það var frá David M. Kelly, upphafsmanni „design thinking“. Þar segir hann bara að maður eigi aldrei að hætta að vera leitandi, sama hvað maður sé að gera, hvort sem það sé að rölta í vinnuna, skólann eða fara út að borða, að leita sífellt að tækifærum og lausnum á einhverju sem mætti fara betur. Hvort sem það er hola í götunni eða stólauppröðun á veitingastað, og án þess að rakka það niður, að vera svolítið gagnrýninn í sínu hversdagslífi.“

Sagnfræðingur lítur til framtíðar

Daníel útskrifast frá Háskóla Íslands með B.A gráðu í sagnfræði í vor en þrátt fyrir að hafa litið til fortíðar í náminu stöðvar það hann ekki í að líta til framtíðar og hjálpa fólki að skapa eitthvað nýtt.

„Markmiðið var alltaf að ná BA-gráðunni og fara síðan í eitthvað meira djúsí í master sem er svo sem alveg ennþá á döfinni. Í sagnfræðinni var ég með ótrúlega flottar fyrirmyndir, til dæmis forsetann okkar í dag og sömuleiðis mjög sterkar kvenpersónur eins og Önnu Agnarsdóttur, Erlu Huldu Halldórsdóttur og Ragnheiði Kristjánsdóttur.

Það hefur komið mér á óvart hvað sagnfræðingar voru almennt gott fólk inn við beinið. Það er umburðarlynt og skilningsríkt sem mér finnst vera sterkur grundvöllur til að byggja á, hvað sem þú ætlar að taka þér fyrir hendur.“

Ýmislegt í sagnfræðinni hefur nýst Daníel vel í núverandi störfum. „Aðallega gagnrýnin hugsun, textagerð, innsæi á fólk, mannleg samskipti og að átta mig á því að gjörðir hafa afleiðingar, hvort sem þær eru stórar eða smáar. Það er í raun erfitt að hafa einhverja framtíðarsýn án þess að átta sig á því hvernig fortíðin liggur.“

Nýsköpun sem lausnin á loftslagsbreytingum

Daníel segir að með nýsköpun sé hægt að vinna stóra sigra. „Eftir mikla ígrundun þá er ég farinn að átta mig á því að maðurinn er ekki að fara að breytast mikið í eðli sínu. En það er hægt að breyta hegðun mannsins með nýsköpun. Nýsköpun gæti breytt heiminum og er í raun eitt af þeim fáum tólum sem við höfum t.d. til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Ef ég mætti ráða þá myndu allir gerast frumkvöðlar í dag og leita lausna vegna þess að það er augljóst að stjórnvöld eru ekki að gera nóg. Nýsköpun er bundin við einstaklingsframtakið og það gerist ekkert nema við gerum eitthvað nýtt.“

Daníel flytur erindi á Startup Tourism en hann var sjálfur frumkvöðull í ferðaþjónustu á sínum tíma.

Daníel flytur erindi á Startup Tourism en hann var sjálfur frumkvöðull í ferðaþjónustu á sínum tíma.

Í Háskólanum var Daníel mjög virkur í félagsstörfum en hann fékk vinnu hjá Icelandic Startups í gegnum Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd SHÍ. „Ástæðan fyrir því að ég fór að gera eitthvað eins og að henda mér í formann Fróða félags sagnfræðinema og í félagsstörf með Röskvu, var í raun þessi grunnhugsun að gera gott betur og leggja mitt mark á eitthvað öðrum til góðs án þess að krefjast þess að að fá eitthvað til baka. Ég set aldrei kröfu á það að fá eitthvað til baka í því sem ég geri, mín tilvera snýst svolítið mikið um að gefa.

Hingað til hefur það leitt margt gott af sér. Út frá Röskvu skráði ég mig í nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd SHÍ og þar kynnist ég starfsemi Icelandic Startups, kynnist Eddu sem er verkefnastjóri þar og þessum kúltúr sem felst í því að vera innan frumkvöðlaheimsins sem er ótrúlega skemmtilegur, mistakaglaður og áhættusækinn. Það er mikið um kjarkaða einstaklinga sem líta út fyrir að hafa ekki hugsað áður en þeir framkvæmdu en það er oft mikil hugsun og undirbúningur á bak við hverja framkvæmd þó það líti kannski ekki þannig út út á við.“

Í óþægindarammanum sprettur eitthvað magnað

Daníel segir að mikil gróska hafi orðið í frumkvöðlageiranum strax eftir hrun. „Við sáum mjög mikla upprisu í frumkvöðlaheiminum á Íslandi eftir hrun og einhver hefur sagt að það besta sem hefur komið fyrir nýsköpunarheiminn á Íslandi sé hrunið 2008. Þá misstu svo ótrúlega margir vinnuna og var sparkað út úr þeim þægindaramma sem það var í áður og út í óvissuna og það er einmitt það sem við erum að predika í Icelandic Startups, að finna þennan óþægindaramma, af því að í honum sprettur upp eitthvað magnað.“

Um starf sitt í Icelandic Startups segir Daníel: „Mitt starf er að þjónusta frumkvöðla og sprotafyrirtæki og að skapa vettvang, samfélag frumkvöðla og sprotafyrirtækja til þess að koma saman og miðla málum og reynslu. Svo rekum við verkefni þar sem við fáum óreynda eða reynda frumkvöðla inn í verkefni til okkar og vinnum mjög náið með þeim til að hjálpa þeim við að þróa hugmynd sína.“

Gulleggið er eitt af þessum verkefnum og Daníel segir að nú sé stefnt að því að fá óreyndara fólk inn í ferlið. „Undanfarið hafa langt komin verkefni sótt um og verið valin af rýnihópi í topp 10 þannig að við tókum Gulleggið í naflaskoðun. Við erum komin á það að við viljum reyna að höfða meira til Háskólanema og sömuleiðis framhaldsskólanema eins og í Verzló, Tækniskólanum eða öðrum skólum af því að framhaldsskólar í dag eru að innleiða mikið af nýsköpunartengdum kúrsum sem er frábært því frumkvöðlahugsunin þyrfti að byrja löngu fyrr en í háskóla.“

Mikilvægt að gefa börnum lausan tauminn

„Það er líka hlutverk framhaldsskólanna og sömuleiðis grunnskólanna að festa krakka ekki of mikið í sama formið og gefa þeim svolítið lausan tauminn á ákveðnum sviðum og þó það sé auðvitað krefjandi fyrir þau sem leiðbeina börnum og unglingum þá myndi það skila sér í mikið fleiri og fjölbreyttari frumkvöðlum út í samfélagið.“

Icelandic Startups.png

Gulleggið er stærsta frumkvöðlakeppni landsins. „Það er prógramm fyrir nýjar hugmyndir til að koma þeim í verk og geta allir sótt um. Þú þarft ekki að koma inn með neitt fjármagn heldur hripar þú bara einhverja hugmynd niður á blað. Keppnin sem slík sem Gulleggið er hefst ekki fyrr en valið er í topp 10. Fram að því býðst þátttakendum nokkrar vinnusmiðjur og sömuleiðis „lyftukvöld“ þar sem þátttakendum býðst að kynna hugmynd sína í eina mínútu. Þetta er alveg stórt skref fyrir marga sem eru kannski búnir að vera með hugmyndina í maganum og hafa jafnvel ekki þorað að tala um hana.“

Það kemur fyrir að frumkvöðlar hræðist það beinlínis að hugmynd þeirra verði stolið. „Við fáum stundum fólk inn á okkar borð sem vill hreinlega ekki tala um hugmyndina sína og ætlar að láta okkur skrifa undir einhverja trúnaðarsamninga. Að okkar mati er hægt að tala um hugmyndina sína án þess að uppljóstra leyniuppskriftinni. Hræðslan snýst alfarið um það að einhver muni stela hugmyndinni af þeim.

Það fyndna er samt að þau teymi sem komast t.d. í topp 10 í Gullegginu, og ná þar af leiðandi að tengjast nýsköpunarsamfélaginu á Íslandi miklu betur, sjá strax að það er enginn þarna úti að fara að stela hugmyndinni, sérstaklega ekki á Íslandi.“

Stutt í áhrifamikla frumkvöðla á Íslandi

Daníel segir auðveldara að koma hugmynd sinni á framfæri hérlendis en erlendis. „Ísland er fullkominn vettvangur til þess að deila hugmyndinni sinni því það er svo stutt í næsta stóra frumkvöðul á Íslandi. Segjum að þú komist í topp 10 í Gullegginu og þú myndir taka upp tólið og hringja, ég segi nú ekki Hilmar Veigar hjá CCP, en það þarf í raun bara eina manneskju sem þekkir aðra manneskju og þá ert þú kominn í samband við mögulegan „breakthrough“ tengilið sem gæti hjálpað þér og orðið mjög dýrmætur aðili í ferlinu sem felst í því að stofna og reka fyrirtæki.“

Það eru þá ekki einungis fjárfestar. „Það geta líka verið ráðgjafar eða einstaklingar sem hafa rekið sig á og aðrir geta lært af þeim. Við hjá Icelandic Startups erum líka að búa til þann vettvang að koma í veg fyrir hindranir fyrir byrjendur sem er svo auðvelt að koma í veg fyrir. Flestir frumkvöðlar lenda í fyrstu alltaf á ákveðnum hindrunum, eiginlega undantekningarlaust.“

Ein aðalhindrunin í vegi frumkvöðla er skortur á mannauði. „Ef þú ert bara einn þá vantar einhvern í teymið með þér vegna þess að án teymis eru mjög litlar líkur á að það verði eitthvað úr hugmyndinni þinni. Það er oft talað um að A hugmynd með B teymi er verri en B hugmynd með A teymi. Hugmyndin sjálf stendur og fellur með þeim einstakling sem hún verður til hjá,“ segir Daníel.

Þrátt fyrir að það sé einfaldara að koma sér á framfæri hérlendis en annars staðar eiga sumir frumkvöðlar auðveldara með að koma sér á framfæri en aðrir vegna stöðu sinnar í þjóðfélaginu. „Mín reynsla er sú að yngstu frumkvöðlarnir eru þeir sem hafa sterkasta baklandið og það er í raun líka eitthvað sem mætti skoða betur. Það virðist því ekki undanskilið stétt og stöðu hversu ungur þú stofnar fyrirtæki og helst það í hendur við sterkt bakland, fjármuni foreldra og þar með stuðning.“

Sprotafyrirtækin á höttunum eftir ungu fólki

Aðspurður segir Daníel að sprotafyrirtæki hafi mikla trú á ungu fólki „Sprotafyrirtæki eru í sífelldri leit að hæfileikaríku fólki og er aðgangur þeirra að þessu hæfileikaríka fólki oft ekkert það mikill. Það vantar vettvang fyrir fyrirtæki til þess að leita að mannauði annan en Tengslatorg HÍ. Sem dæmi hefur öll mín tengslamyndun orðið til á viðburðum en einhvers staðar hef ég heyrt sagt að 80% af árangri fengist með því að mæta.“

Daníel bendir á að það sé nauðsynlegt að nýta hæfileika þeirra sem einblína ekki einungis á námið. „Það eru alveg til týpurnar sem fá tíu í öllu og eru algjörar neglur en svo eru líka týpurnar sem eru ekkert endilega að pæla í einkunnunum og kannski vantar líka bara svona stefnu og að setja fingurinn á það sem þau nákvæmlega hafa áhuga á. Það er fólk sem er leitandi. Tíurnar vita nákvæmlega hvað þær vilja og þeim verður lítið haggað, sem er bara flott. En það þarf líka að þjónusta fólk sem fær sjöur og áttur og nýta þeirra hæfileika betur.

Daníel segir að hann hafi lært gríðarlega mikið í starfi sínu hjá Icelandic Startups. „Þetta er ég allt búinn að læra með því að vera þarna, ég lærði þetta ekkert í sagnfræði. Og ég er ennþá að læra. Það er kannski líka þessi ákveðna afstaða að vera alltaf hungraður, alltaf forvitinn, að vera alltaf að leitast eftir einhverju meira án þess þó að vera gráðugur. Það er munur á því að vera leitandi og að vera gráðugur, græðgi blindar þig en ef þú ert leitandi ertu að vinna út frá mikið heilbrigðari forsendum.“