„Íslenskan er svo mikil hindrun“

Ína Dögg Eyþórsdóttir sérfræðingur í mati á erlendum prófskírteinum hjá Háskóla Íslands.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Ína Dögg Eyþórsdóttir sérfræðingur í mati á erlendum prófskírteinum hjá Háskóla Íslands. Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Það sem helst stendur í vegi fyrir því að hælisleitendur og flóttafólk geti stundað nám af krafti í Háskóla Íslands er tungumálið, segir Ína Dögg Eyþórsdóttir sérfræðingur í mati á erlendum prófskírteinum hjá Háskóla Íslands.

„Vandamálið er að það er ekkert voðalega mikið nám í boði á ensku. Flóttafólki stendur til boða allt sama nám og alþjóðlegum nemendum en vandamálið er tungumálið, svo lengi sem þau eru ekki með íslenskuna þá er lítið í boði. Það er aðallega alþjóðlegt nám í menntunarfræðum og íslenska sem annað mál sem kennt er á ensku. Nú er líka gerð krafa um TOEFL prófið til þess að komast inn í nám í Háskólanum sem er á ensku.“

En það er ekki bara íslenskan sem er hindrandi tungumál því stór hluti flóttafólks og hælisleitenda hefur ekki heldur góð tök á ensku. „Enskan getur verið mjög mikil hindrun fyrir marga. Margir flóttamenn á Íslandi koma frá spænsku- eða frönskumælandi bakgrunni og eru þar af leiðandi oft ekki með grunn í ensku.“

Engin úrræði án tungumálakunnáttu

Þeim nemendum sem hvorki kunna íslensku né ensku stendur þá ekkert til boða, ekki einu sinni íslenska sem annað mál þar sem sú námsgrein er kennd á ensku. „Þau þurfa eiginlega að fara fyrst að læra ensku til þess að læra svo íslensku en að sjálfssögðu geta þau lært íslensku annars staðar en í Háskólanum.“

Ína segir engar tölulegar upplýsingar fyrir hendi um það hversu margir flóttamenn stundi nám við HÍ. „Það er erfitt að segja því fólk er auðvitað ekkert alltaf að stimpla sig sem flóttamenn. Það er erfitt fyrir mig að gera greinarmun á því hver er innflytjandi, hver er flóttamaður og hver er hælisleitandi ef þeir segja mér það ekki.“

Vandi að nálgast prófskírteini

Flóttafólk fær því ekki sérstakan stuðning í háskólanum. „Það fá allir sömu afgreiðslu og við skiptum okkur ekkert af stöðu fólks í landinu. Við afgreiðum alla eins, eini munurinn er sá að ef fólk er komið með stöðu flóttamanns, er komið með vernd, þá getum við veitt því aðeins öðruvísi þjónustu. Til dæmis ef þeir geta ekki nálgast prófskírteinin sín vegna stöðu sinnar.

Við vorum með einn sem var pólitískur flóttamaður og vildi ekki láta ríkisstjórnina í sínu landi, og þar af leiðandi háskólann, vita hvar hann var staddur. Þessi einstaklingur var bara með ljósritaðan hluta af námsferilnum sínum. Þannig að við skrifuðum fyrir hann bakgrunnsskýrslu þar sem við tókum hann í viðtal, fengum hann til að lýsa náminu sínu ítarlega, í hvaða áföngum hann var, hver kenndi honum, um hvað hann skrifaði í ritgerðum og svo framvegis.“

Slíkt ferli er mikil vinna og því er einungis lagt í það fyrir fólk sem hefur öðlast stöðu flóttamanns á Íslandi. „Þetta er alveg rosa ferli sem þau fara í gegnum og út frá þessu og samtölum við umsækjandann þá getum við fengið mynd af því hver bakgrunnur hans er. Svo notum við gagnagrunnana sem við höfum aðgang að og sendum þetta út, athugum hvort samstarfsaðilum okkar finnst þetta líklegt, hvort það sé ástæða til þess að taka viðkomandi trúanlegan. Þá getum við skrifað skýrslu sem segir til um hvers konar bakgrunn viðkomandi er með og þetta getur veitt honum aðgang inn í Háskólann. Við höfum tekið nokkra aðila inn í Háskólann á þessum forsendum.“

Misjafnt mat eftir deildum

Aðspurð segir Ína að misjafnt sé hvernig deildir innan Háskóla Íslands kjósi að meta menntun flóttafólks og hælisleitenda. „Þetta er eitthvað sem þær taka ákvarðanir um og þær eru bara eins mismunandi og þær eru margar. Þetta fer eftir því hvernig námið passar inn í viðkomandi nám og því hversu miklar upplýsingar viðkomandi getur nálgast.

Það er ekkert alltaf í boði að sækja námskeiðslýsingar eða annað slíkt með góðu móti en það er ekkert því til fyrirstöðu að meta námið yfir ef viðkomandi skóli er viðurkenndur háskóli. Ég held að flóttafólk sé ekki að lenda í frekari vandræðum en aðrir aðilar ef þau geta lagt fram einhver gögn.“

Eins og áður segir er flóttafólk og hælisleitendur ekki sérstaklega merkt við inngöngu í skólann en þó er unnið að því að halda betur utan um fólk sem er í þeirri stöðu.  „Við höfum í raun og veru enga leið til þess að flagga þau, það eru tveir námsráðgjafar sem eru meðvitaðir um stöðu þessa fólks og hafa tileinkað sér það sem þarf að huga að.

Ef við vitum að við erum að fá flóttamann eða hælisleitanda að tala við okkur þá reynum við að bóka tíma þar sem ég get verið á staðnum og annar af þessum námsráðgjöfum til þess að veita betri upplýsingar.

Við erum að vinna að stefnumótun sem er langt komin þar sem við reynum að móta sérstaka stefnu fyrir flóttamenn í Háskóla Íslands, þetta er allt það sem við gerum í dag en þá verður þetta fest niður. Þetta er í raun alltaf sama vandamálið, við vitum ekki hverjir eru í þessari stöðu nema fólk vilji láta vita af því.“

Hin Norðurlöndin með sérstakar tungumálaáætlanir

Ína segir að í nágrannalöndum Íslands sé flóttamönnum stundum veittur sérstakur stuðningur innan menntakerfisins. „Þar sem þau hafa fengið mikið af flóttamönnum hafa verið sett upp sér kerfi, þau eru jafn mismunandi og þau eru mörg. Þetta hefur verið allt frá því að koma flóttafólki inn í svona opna háskóla þar sem eru engar einingar og þau þurfa varla að sýna fram á inntökuskilyrði.

Opnu háskólarnir eru til þess gerðir að koma flóttafólkinu inn í menntakerfið svo þau hafi eitthvað að gera, læri tungumálið og læri á menntakerfið. Þjóðverjar hafa verið að gera þetta og á meðan flóttafólk er í þessu kerfi sem er tvö ár þá hefur það tíma til þess að ná í sín gögn sem sanna að þau uppfylli inntökuskilyrði.

Ef þau geta gert það þá geta þau fengið einingarnar sem þau eru að taka metnar inn í aðra háskóla. Það eru alls konar svona kerfi í gangi. Norðurlöndin eru sum með sérstök tungumálaprógrömm sérstaklega fyrir flóttamenn sem þá koma þeim áfram inn í háskólakerfið. Við erum ekki með það marga hér að við séum með bolmagnið til þess að búa til svona sérstök prógrömm. Í staðinn getum við sérsniðið fyrir hvern og einn þegar þeir koma.“

Gátu ekki framfleitt sér í námi

Ína segir að mikil vitundarvakning hafi orðið á síðustu tveimur árum eða svo um menntun flóttafólks og hælisleitenda. Í lok síðasta árs var flóttafólk til dæmis tekið inn í lánasjóðskerfið. „Það var áður mjög mikil hindrun, ég hef verið með fólk sem hefur verið komið inn í nám hérna en það gat ekki hafið nám vegna þess að það gat ekki framfleitt sér.“

Aðspurð segir Ína að Háskólinn hafi svo sannarlega tök á því að taka á móti fleira flóttafólki. „Það er ekkert því til fyrirstöðu þar sem þetta eru einfaldlega erlendir nemendur. Þetta eru bara nemendur, við erum ekki að draga fólk í dilka.“

Samt sem áður séu kostir þess að gera sér grein fyrir stöðu flóttafólks og hælisleitenda miklir. „Okkur langar að geta veitt þeim sem það þurfa og það vilja aðeins aukinn stuðning. Til dæmis með því að námsráðgjafar geri sér grein fyrir viðkvæmri stöðu fólksins. Nú er verið að efla geðheilbrigði hjá nemendum, við viljum stuðla að því að þeir sem sinna því séu líka meðvitaðir. Það er bara þessi fræðsla og meðvitund. Við erum aldrei að fara að fá einhverjar þúsundir hérna inn af flóttamönnum.

Missa framfærslu við að setjast á skólabekk

Ína segir ástæður þess að flóttafólk sleppi því að fara í nám hérlendis margvíslegar. „Meðvitundin er að aukast og það er svona meiri jákvæðni en það eru fjölbreyttar ástæður fyrir því að fólk er ekki að koma. Bæði er þetta vegna þess að þau koma frá öðru menntakerfi og uppfylla ekki inntökuskilyrðin, þau hafa ekki tungumálakunnáttuna og svo eru þau fjárhagslega mjög illa stödd og geta ekki hætt að vinna. Svo geta þau sem eru á framfærslu sveitarfélaganna ekki farið í nám. Þá missa þau framfærsluna.“

Ína hefur sinnt starfi sérfræðings í mati á erlendum prófskírteinum í tíu ár. Starfið hefur stækkað mikið á þeim tíma. Aðspurð segir hún að mikilvægast af öllu fyrir flóttafólk og hælisleitendur sem vilja stunda nám á háskólastigi hérlendis sé að tungumálakennsla sé efld.

„Númer eitt tvö og þrjú þá er þetta tungumálið. Maður sér það alveg að þeir innflytjendur sem ná tungumálinu pluma sig mun betur. Við þurfum einfaldlega að vera betri í að kenna íslensku. Um leið og þú ert kominn með íslenskuna þá opnar það á miklu fleira.

Ef þú ert með menntun sem er ekki metin til fulls, segjum til dæmis bakkalárpróf sem ekki er metið sambærilegt bakkalárprófi á Íslandi og þig vantar í raun eitt ár upp á þá kemstu ekki áfram. Jafnvel þó að deildin meti námið þitt inn þá geturðu ekki lokið því sem upp á vantar vegna þess að þig vantar íslenskuna. Íslenskan er svo mikil hindrun, þú þarft bara að ná henni en þá þarf íslenska kerfið líka að vera betra í að kenna hana og veita fólki tækifæri til þess að læra hana.