Hvað veldur því að samfélag glatar menningu sinni?

,,Það sem ég rak mig snemma á í ritgerðinni var að Grænlendingar vilja bara skrifa um sig á grænlensku, þar sem þau eru svo brennd af erlendum rannsakendum. En það er erfitt að breyta því þar sem svo margt í umhverfi þeirra er á dönsku, sérstaklega í Háskólanum í Nuuk,“ segir Herdís.  Stúdentablaðið/Eydís María Ólads

,,Það sem ég rak mig snemma á í ritgerðinni var að Grænlendingar vilja bara skrifa um sig á grænlensku, þar sem þau eru svo brennd af erlendum rannsakendum. En það er erfitt að breyta því þar sem svo margt í umhverfi þeirra er á dönsku, sérstaklega í Háskólanum í Nuuk,“ segir Herdís. Stúdentablaðið/Eydís María Ólads

„Í ritgerðinni fer ég í marga þætti og það vöknuðu ýmsar spurningar hjá mér, eins og hvernig Grænland kemur fyrir í fjölmiðlum, og fordómar hjá okkur Íslendingum. Þegar ég sagði fólki að ég væri að skrifa um Grænland í lokaverkefni mínu fékk ég týpísk svör um hvernig þeirra  þjóðfélag er, hvað þau væru drykkfelld og þess háttar. Mitt markmið með ritgerðinni var að útskýra þennan mun á því sem við höldum um Grænland og það sem er raunverulegt,“ segir Herdís Birna Heiðarsdóttir, sem skilaði lokaritgerð sinni í mannfræði, „Grænland í fortíð og nútíð: Hvað veldur því að samfélag glatar menningu sinni?“ í júní 2018.

Það sem vakti áhuga Herdísar á viðfangsefninu voru meðal annars samskipti Íslendinga og Grænlendinga „Mér finnst svo magnað hvernig við tölum um Dani og Norðmenn sem bræður okkar en við viljum ekki vera sett í sama flokk og Grænlendingar, þótt þeir séu mikið nær okkur, en Grænlendingarnir horfa á okkur sem bræður og systur. Þegar mál Birnu Brjánsdóttur var áberandi árið 2017 og í ljós kom að Grænlendingur hefði myrt hana, brugðust Íslendingar við með því að henda Grænlendingum út úr búð og nokkrir Grænlendingar fluttu úr landi vegna fordóma.

Í því máli talaði grænlenska þjóðin um hvað þeim fannst særandi hvernig við komum fram við þau í kjölfarið. Öll þjóðin tók Birnumálið mjög nærri sér og fannst þetta hræðilegt. Þau kveiktu á kertum og syrgðu mikið með okkur en við yfirfærðum hatrið yfir á heila þjóð út af tveimur mönnum sem er ekki rökrétt. Í svona tilvikum koma fordómarnir upp á yfirborðið og við erum ekki langt frá fordómum þótt við teljum okkur vera það.“

Grænland og Danmörk

Þegar Danaveldi tók við stjórn Grænlands hafði það mikil áhrif á Grænlendinga, Danir álitu að þetta væri þjóð sem þau þurftu að bjarga. Grænlendingar voru teknir til Danmerkur og sýndir sem sýningargripir í Kaupmannahöfn en það var algengt að Grænlendingar stykkju frá borði í stað þess að fara til Kaupmannahafnar. Herdís segir að Danir hafi bannað Grænlendingum að viðhalda sínum hefðum og siðum „Trúarbrögð þeirra voru talin óvenjuleg. Gyðjan sem beðið er til er á hafsbotninum og illu öflin eru á himni. Þetta er í samræmi við hvernig þau lifa, vonda veðrið kemur að ofan og aðalfæðan þeirra er fiskur.“

Baráttan fyrir viðurkenningu     

,,Það sem ég rak mig snemma á í ritgerðinni var að Grænlendingar vilja bara skrifa um sig á grænlensku, þar sem þau eru svo brennd af erlendum rannsakendum. En það er erfitt að breyta því þar sem svo margt í umhverfi þeirra er á dönsku, sérstaklega í Háskólanum í Nuuk. Þau eru á fullu að reyna að ná sjálfsmynd sinni aftur en það gengur ekkert sérlega vel. Einungis Danska var kennd í grænlenskum skólum en Grænlendingar náðu því fram að grænlenska yrði einnig kennd svo tungumálið þeirra gleymist ekki.

Þau eru 56 þúsund manns og eru ekki að fara að yfirgnæfa dönskuna en þetta er spurning um að tungumálið þeirra deyi ekki út og að þjóðin gleymi ekki fullt af fallegum hefðum sem hafa gengið milli kynslóða, eins og að nefna börnin eftir látnum ættingja því annars festist sá einstaklingur í svokölluðu tómarúmi. Grænlendingar tala líka mikið um Sila sitt og hvað þau eru hrædd um að fólk missi það en það er tenging við umhverfi sitt,“ segir Herdís. Einnig er praktísk færni sem hafði gengið milli kynslóða í þúsundir ára að deyja út en líka má nefna breytt veðurfar sem áhrifavald.

Lítið um heimildir

Við vinnslu á ritgerðinni reyndist erfitt fyrir Herdísi að afla sér heimilda þar sem stór partur af þeim upplýsingum sem eru fyrir hendi um Grænlendinga er annað hvort á grænlensku eða dönsku. Eftir mikla leit á Þjóðarbókhlöðunni eða á netinu fór hún aðrar leiðir. ,,Ég byrjaði að ræða við Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing sem hafði kennt í Háskólanum í Nuuk, Svein Eggertsson leiðbeinanda minn og einnig var kennari í mannfræðinni sem komin var á eftirlaun sem hjálpaði mér mikið líka. Ég fór líka í Kolaportið og fann þar tvær bækur,“ Segir Herdís og bætir við að í fortíðarkaflanum í ritgerð sinni hafi hún nýtt sér klassískt mannfræðirit.

Nútími Grænlendinga

„Grænlendingar vita alveg hvað er best fyrir þá sjálfa og þetta er eina ríkið sem hefur náð sjálfsstjórn af öllum Inúítaþjóðum. Þau eru með heimastjórn og eru að reyna að berjast fyrir sínum réttindum og að fá heildræna sýn á sig aftur. Þau eru ekki Grænlendingar og ekki Danir, þau eru þarna einhver staðar á milli,“ segir Herdís. Þessi skekkja hefur valdið þeim mikilli vanlíðan og það er mikið um þunglyndi hjá Grænlendingum en þess má geta að á Grænlandi er mjög há tíðni sjálfsvíga.

„Það var grænlenskt rapplag sem var á Youtube sem fjallaði um símtal við lögregluna í landinu. Í símtalinu var sagt að það væri dauðadrukkinn maður fyrir utan hús í nístingskulda og þá spyr lögreglan strax hvort þetta sé Grænlendingur eða Dani. Ef þetta hefði verið Grænlendingur þá átti að skilja hann eftir og spá ekkert frekar í honum en ef þetta hefði verið Dani þá hefði lögreglan komið og bjargað manninum,“ nefnir Herdís sem dæmi um mismunun Grænlendinga og Dana.

„Þau lifa í allt öðruvísi samfélagi en við. Í níu mánuði á ári er svartamyrkur hjá þeim og þau geta ekki verið með fastan tíma eins og við. Þau eru sjálfstæð þjóð, geta bjargað sér og þeir hlutir sem þau gera hafa vægi í þeirra samfélagi,“ segir Herdís og bætir við að lokum:

„Það sem við getum gert er að vera meðvituð um að það sem við höldum sé ekki alltaf satt og vera meðvituð um fordóma okkar gagnvart fólki, sérstaklega ef okkur finnst þau öðruvísi. Þau eru á samfélagsmiðlum eins og við en lifa öðruvísi lífi, lengri nætur og harðari vetrar. Þetta er bara spurning um að vera góður við náungann.“