Ný tækni = Nýr veruleiki

Stúdentablaðið/Elín Edda

Stúdentablaðið/Elín Edda

Miklar tækniframfarir hafa átt sér stað á síðastliðnum áratugum og þá sér í lagi síðustu árum. Fjórða iðnbyltingin er gengin í garð og við þurfum að fylgja henni svo við drögumst ekki aftur úr. Hér er átt við gervigreind, róbótatækni, sjálfkeyrandi bíla, Internet hlutanna (Internet of Things, IoT), sjálfvirknivæðingu og fleira sem mun líklega valda víðtækum samfélagsbreytingum á næstu árum og áratugum

Störf eins og samfélagsmiðlastjóri, forritshönnuður og drónaflugmaður eru allt störf sem hafa orðið til með tilkomu nýrrar tækni en símastúlkan og lyftuvörðurinn eru týnd og tröllum gefin. Störf í tæknigeiranum eru að verða eftirsóttari með hverju árinu sem líður. Tölvugúrúar og tæknisnillingar eru starfskraftar sem allir vinnustaðir þurfa á að halda. Mörg störf sem áður voru unnin af fólki eru nú komin undir verkahring tölvunnar líkt og upplýsinga- og gagnavinnsla. Tæknin er smám saman að taka yfir og verður atvinnumarkaðurinn að vera undirbúinn undir það.

Ýmis störf munu breytast, önnur hverfa og ný verða til. Störf sem eru einhæf rútínustörf hverfa og önnur arðbærari koma í staðinn. Þannig verður mikil framleiðniaukning. Mörg óttast að mörg störf hverfi of hratt og fólki gæti átt erfitt með að aðlagast breyttu umhverfi. Miklar tækniframfarir á skömmum tíma geta orðið til þess að einhverjir hópar verði skildir eftir og misskipting aukist. Það er því full ástæða til að átta sig á eðli fjórðu iðnbyltingarinnar og horfa bæði á tækifærin sem og hætturnar sem skapast.

Öðrum störfum hefur þurft að fórna fyrir nýja tækni. Nú hafa glöggir neytendur eflaust tekið eftir því að sjálfvirkir afgreiðslukassar eru nú hluti af helstu verslunum landsins. Þessa breytingu má rekja til aukinnar sjálfvirknivæðingar sem er eitt af einkennum fjórðu iðnbyltingarinnar. Það er eitt dæmi um að tækni sé að taka yfir störf, en með þessu áframhaldi verður afgreiðslufólk óþarft en aftur á móti skapast ný störf sem fela meðal annars í sér að viðhalda afgreiðslukössunum.

Tæknin hefur sína kosti og galla og við megum ekki leika okkur of mikið að eldinum, annars getum við brennt okkur allrækilega.

Með breyttri tækni þarf hugsunin um vinnuna og samfélagið að breytast. Samkvæmt skýrslu Stjórnarráðsins um fjórðu iðnbyltinguna er gert ráð fyrir að á komandi árum muni um 28% af vinnumarkaðnum taka verulegum breytingum, 58% talsverðum breytingum en einungis 14% breytist lítið. Hér áður fyrr snerist tæknin frekar um það að leysa verkefni sem einkenndust af endurtekningu en með tilkomu gervigreindar gætu tölvur smám saman leyst fleiri verkefni sem mennirnir sáu áður um. Tæknin getur þó ekki tekið fram úr manninum alveg strax.

Mennirnir hafa þó nokkra eiginleika líkt og rökhugsun sem tölvan býr ekki yfir, eða að minnsta kosti ekki á óaðfinnanlegan hátt. Með tilkomu gervigreindar standa vonir til um að tölvur geti leyst flest störf en er það í raun það sem við viljum? Það eru nógu margar vísindaskáldsögur sem hafa varað okkur við uppreisn vélmennanna, mun gervigreindin kannski ýta því af stað?

Tæknin er mergjuð og við eigum að nýta hana eins og við getum án þess þó að fara út í öfgar. Það er mikilvægt að fylgjast með þróuninni til þess að dragast ekki aftur úr en þá er voðinn vís.