Nýsköpunar- og frumkvöðlastarf innan Háskóla Íslands

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd er ein af þeim nefndum sem starfar undir Stúdentaráði og hefur það hlutverk að efla nýsköpunar- og frumkvöðlastarf meðal nemenda Háskóla Íslands. Nefndin vinnur náið með Icelandic Startups og kemur verkefnum þeirra á framfæri meðal háskólanema. Forseti nefndarinnar er Katrín Björk Gunnarsdóttir, viðskiptafræðinemi, og segir hún okkur frá störfum og verkefnum nefndarinnar og mikilvægi hennar fyrir nemendur Háskóla Íslands.

Markmið og verkefni nefndarinnar

„Markmið nefndarinnar er í rauninni bara að vekja áhuga á nýsköpunar- og frumkvöðlastarfi innan háskólans og hvetja nemendur til að taka þátt og skapa vettvang fyrir þau til að geta tekið þátt í svona starfi. Líka bara frábært tækifæri fyrir nefndarmeðlimina til að öðlast reynslu og betri þekkingu á þessu sviði,“ segir Katrín. Nefndin samanstendur af sex einstaklingum þar sem einn er tilnefndur frá hvorri stúdentahreyfingunni og svo eru fjórir teknir inn í viðtölum. Viðtölin taka fulltrúar stúdentahreyfinganna, Vöku og Röskvu, ásamt tengiliði nefndarinnar hjá Icelandic Startups, Eddu Konráðsdóttur.

Tvö verkefni eru hvað stærst hjá nefndinni en það eru Gulleggið og Student Talks. „Í haust þá var það Gulleggið en þá sat nefndin í verkefnastjórn Gulleggsins ásamt sömu nefnd í HR, Nýsköpunarnefnd Háskóla Reykjavíkur. Það tók eiginlega bara allt haustið, þetta var svolítið stórt verkefni. Og þá var í raun og veru verkefnastjórninni skipt niður í minni teymi þannig að við vorum ekki öll að gera það sama,“ segir Katrín en í verkefnastjórninni sitja tólf einstaklingar og eru þau í samstarfi við Icelandic Startup sem stendur fyrir keppninni.

Gulleggið

Katrín sagði okkur ítarlega frá Gullegginu sem er frumkvöðlakeppni sem var stofnuð árið 2007 af þrem nemendum við Háskóla Íslands og hefur verið haldin árlega síðan. „Þetta er í raun svona viðskiptaáætlunarkeppni í sinni einföldustu mynd. Fólk getur bæði skráð sig inn í teymum eða bara sem einstaklingar og myndað teymi. Þetta snýst í raun bara um að koma með einhverja viðskiptahugmynd og að búa til viðskiptaáætlun. Sá sem vinnur keppnina er þá sá sem hefur skilað inn bestu og áreiðanlegustu viðskiptaáætluninni.“ Sigurvegarinn í ár var Flow VR sem býður upp á hugleiðslu í sýndarveruleika þar sem einstaklingar geta verið inni í slakandi íslensku umhverfi.

„Ég hef ekki tekið þátt sjálf en ef ég væri með einhverja góða hugmynd þá væri þetta frábært tækifæri. Það eru svona vinnusmiðjur sem eru nokkrum sinnum yfir tímabilið og þar koma reyndir frumkvöðlar sem eru að kenna, þjálfa og leiðbeina þátttakendum. Það er mjög stórt tækifæri fyrir fólk sem er að taka þátt að geta leitað til þeirra og fengið ráð og svoleiðis,” segir Katrín. Gulleggið er kjörið tækifæri fyrir frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri og reyna að láta þær verða að veruleika.


„Þetta eru margir viðburðir yfir ferlið í rauninni en þú byrjar á að sækja um og senda inn. Ferlið hefst á því að allir þáttakendur koma saman í fyrstu vinnusmiðjunni. Annað hvort ertu að mynda teymi þar eða ert í teymi fyrir. Svo í kjölfarið af fyrstu vinnusmiðjunum senda teymin inn drög að viðskiptaáætlun og síðan eru valin topp 10 teymi. Svo halda vinnusmiðjurnar áfram með þessum topp 10 og þá fá þau aðeins meira svona extra sem hinir hafa þá ekki aðgang að, meira utanumhald.

Í ferlinu er t.d. pitch kvöld þar sem teymin þurfa að pitch-a hugmyndina sína fyrir dómurum og fá svo einkunn og endurgjöf, og þessir viðburðir eru opnir fyrir almenning. Við vorum líka með svokallað lyftukvöld fyrr á ferlinu og var það í samstarfi við Nova, þar sem þátttakendur kynna hugmyndirnar sínar og er þeim svo veitt verðlaun fyrir besta pitch-ið. Þátttakendur höfðu þá bara 60 sekúndur til að pitch-a hugmyndina sína. Gullegginu lýkur svo með verðlaunagjöf en það eru svo verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin í Gullegginu, ásamt öðrum verðlaunum.“

Student Talks

Katrín sagði okkur frá öðrum viðburði á vegum nefndarinnar, Student Talks, sem var haldinn 21. mars síðastliðinn. „Student Talks eru samtök nemenda sem halda hvetjandi og áhugaverða fyrirlestra um allan heim og eru með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn. Þetta er svipað concept og TED talks, þetta eru bara svona hvetjandi fyrirlestrar sem nemendur eða nýútskrifaðir flytja og það er yfirleitt alltaf eitthvað þema hverju sinni. Í fyrra vorum við með „Women Take the Lead“, og í ár erum við með „Averting the Global Warming Crisis“. Og svo er hægt að fylgjast með þessu í beinu og allt sett inn á Youtube þar sem þú getur nálgast alla fyrirlestrana. Ég get til dæmis séð líka hvað einhver í Ástralíu var að gera.”

Nefndin auglýsir eftir fyrirlesurum og velur svo úr þeim en einnig leita þau til nemenda sem þeim dettur í hug að gætu verið áhugasamir og eru búnir að vera áberandi í samfélagslegri umræðu tengdum málstaðnum sem er tekinn fyrir. Í ár voru fjórir fyrirlesarar sem eru allir nemendur við Háskóla Íslands, Rebekka Karlsdóttir, Rakel Guðmundsdóttir, Enar Kornelius Leferink og Stuart Daniel James.

Student Talks var haldið í fyrsta skipti í fyrra og þá komu Icelandic Startups aðeins meira að ferlinu, en í ár hefur þetta verið unnið að mestu leyti af Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd SHÍ. „Af því að það er búið að gera þetta áður þá erum við búin að vera að vinna frekar sjálfstætt með það og kannski ekki í miklu samstarfi við þau hvað það varðar. Bara af því að við höfðum upplýsingar um hvernig ferlarnir virkuðu en þau voru alltaf til staðar ef við vildum leita til þeirra eða fá einhverja aðstoð,“ svaraði Katrín aðspurð um aðkomu Icelandic Startup að störfum nefndarinnar utan Gulleggsins.

Nýsköpunaráfangi við Háskóla Íslands

Katrín segir að henni finnist nefndin gegna mikilvægu hlutverki og vonast eftir að hún verði stærri í framtíðinni og hafi tök á að gera meira. „Mér finnst alltaf frumkvöðla- og nýsköpunarstarfsemi mikilvæg og ég vil ýta undir það á sem flestum sviðum. Mér finnst mjög mikilvægt að vekja ungt fólk á þessu sviði.“ Spurð að því hvort það vanti vettvang fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi í Háskólanum segir Katrín: „Já, það er alla vega ekkert mikið annað að gerast og vonandi hefur nefndin tök á að gera ennþá meira í framtíðinni. Við erum náttúrulega enn frekar fámenn og eins og ég segi þá tók Gulleggið alveg alla haustönnina. En mér finnst þessi störf mjög mikilvæg. “

„Það var alltaf planið að vera í samstarfi við Halldór Jónsson og Einar Mäntylä hjá vísinda- og nýsköpunarsviði háskólans. Þeir eru búnir að reyna að koma því í kring að stofna nýsköpunaráfanga hjá viðskiptafræðideildinni, eins og er í HR. Þar er svona þriggja vikna kúrs þar sem þú stofnar þitt eigið fyrirtæki eða kemur með einhverja hugmynd.“

Katrín segir vöntun á slíkum áfanga í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands „Ég held að hugmyndin sé að koma á fót einhvers konar nýsköpunaráfanga sem gæfi nemendum tækifæri á að koma með hugmyndir og átta sig á því hvernig sé hægt að framkvæma þær. Það er í raun mjög mikilvægur áfangi fyrir viðskiptafræðinema. Margir sem fara í viðskiptafræði stefna að því að koma sínum eigin hugmyndum í framkvæmd og ég held að það sé líka bara alltaf góð reynsla að fara í gegnum þetta ferli þó það sé ekki nema til þess að átta sig á því að þetta sé flókið mál.“

„Það hefði verið gaman að halda fleiri viðburði“

Katrín sagði að þau í nefndinni hafi íhugað að halda einhverja minni viðburði en að það hafi ekki náð að gera allt sem þau hefðu viljað gera. „Það hefði auðvitað verið gaman að reyna það og halda eitthvað pitch kvöld með litlum vinningum. Gulleggið var náttúrulega bara svo ótrúlega veigamikið og við vissum það alveg fyrirfram að við myndum ekki gera neitt annað yfir haustönnina. Student Talks er líka búið að vera frekar krefjandi og stórt. Það er búið að vera mikið að gera alveg í febrúar og mars, og við byrjuðum auðvitað að plana mikið fyrr.“

Hugmyndir voru um að halda nýsköpunarnámskeið þar sem fólk hefði getað komið með hugmyndir og fengið leiðbeiningar og ráð frá utanaðkomandi aðilum. „Eitthvað aðeins minna og styttra því Gulleggið er alveg rosalega mikil skuldbinding. Ef þú ætlar að taka þátt í þeirri keppni og demba þér í þetta þá er þetta mikil vinna, því að gera svona viðskiptaáætlun tekur alveg mikinn tíma. Það hefði verið gaman að halda eitthvað minna sem væri eins og eftirlíking af vinnusmiðjum Gulleggsins, til að fólk fái tilfinningu fyrir því hvernig þetta gengur fyrir sig.”

Nefndinni bauðst einnig að fara á Slush, frumkvöðlaráðstefnu í Helsinki. Slush er risastór frumkvöðlaráðstefna þar sem fjöldinn allur af flottum og framúrskarandi fyrirtækjum kemur saman. Tveir nefndarmeðlimir fóru en sökum óheppilegrar tímasetningar, í miðri prófatíð, komust ekki fleiri nefndarmeðlimir með. „Þau sem fóru frá okkur voru í rauninni sækja þetta sem sjálfboðaliðar og þá voru þau að sinna mismunandi verkefnum og fengu tækifæri á að sækja alls konar viðburði. Okkur bauðst öllum að fara og Háskólinn styrkti okkur um einhvern pening til að fara þangað,“ segir Katrín.