Pervertar og piparjúnkur í Háskóla Íslands

Hinsegin saga.jpg

Ásta Kristín Benediktsdóttir, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Íris Ellenberger sjá um sagnfræðiáfangann Pervertar og piparjúnkur í Háskóla Íslands. Kúrsinn er sá fyrsti sem fjallar um hinsegin sögu á háskólastigi á Íslandi. Í þessu viðtali við Stúdentablaðið ræða þær hinsegin sögu og hinsegin mál.

Ásta er íslenskufræðingur, sjálfstætt starfandi prófarkalesari og fræðimaður. Hún er í þann mund að ljúka doktorsprófi í íslenskum bókmenntum. Hafdís er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur en hún lauk meistaraprófi í kvenna- og kynjasögu frá Háskólanum í Vínarborg. Íris er doktor í sagnfræði og sjálfstætt starfandi fræðimaður.

Ágústa segir að samstarf þeirra þriggja hafi hafist árið 2015 þegar þær fóru að ræða nokkuð sem þær allar höfðu hugsað um og rekist ítrekað á, þó þær væru að vinna í ólíkum verkefnum á ólíkum sviðum: „að hinsegin saga á Íslandi var að mestu leyti óskrifuð og nánast ósýnileg í háskóla- og fræðaumhverfinu. Fljótlega varð spjallið að plani og við ákváðum að gefa út bók. Árið 2017 kom svo út greinasafnið Svo veistu að þú varst ekki hér með sex ritrýndum greinum um hinsegin sögu.

Á meðan þeirri vinnu stóð sáum við að það var mjög áberandi kynjaslagsíða í bókinni, það var nánast bara fjallað um karla en mun minna um konur. Það lá því beint við að næsta verkefni sem við ynnum saman legði áherslu á konur.“

Þremenningarnir fengu styrk úr jafnréttissjóði árið 2017 og hleyptu í kjölfarið af stað heimildarsöfnunarverkefninu Huldukonur: Hinsegin kynverund kvenna í heimildunum 1700-1960. „Heimildirnar sem við söfnum verða gerðar aðgengilegar öllum, nemendum og fræðimönnum jafnt sem almenningi, og vefsíða sem sýnir afrakstur verkefnisins opnar síðar á þessu ári. Og fyrst við vorum komnar með talsvert efni þá lá beinast við að bjóða upp námskeið, fyrst við vorum allar að kenna uppi í Háskóla Íslands.“

Pervertinn og piparjúnkan þrífast á jaðri samfélagsins

En hvað er málið með nafnið, Pervertar og piparjúnkur? „Verða ekki allir titlar á íslensku að stuðla? Þessi titill potar svolítið í hina borgaralegu siðferðiskennd þar sem þessi orð hafa yfir sér neikvæðan blæ og fáir í dag myndu tengja við hinsegin tilveru. Pervertar voru sérstaklega varasöm manntegund.

Þeir voru taldir vera hreint og beint sjúkir einstaklingar, en í refsilöggjöf var samkynja kynlíf karlmanna oft og tíðum álitið ganga í berhögg við náttúrulegt eðli og var þar með sett í sama flokk og t.d dýra- og barnaníð. Þrátt fyrir að piparjúnkan væri ekki sjúk var hún heldur ekki æskileg kvenímynd. Með því að ganga ekki í hjónaband og skapa sér sjálfstæða tilveru utan heimilis, sem var hið hefðbundna svið kvenna, ögruðu þær hinni kynjaskiptu samfélagsgerð og voru fyrir vikið talaðar niður fyrir að vera óaðlaðandi, karlmannlegar eða jafnvel lesbíur. Bæði pervertinn og piparjúnkan eiga það því sameiginlegt að þrífast á jaðri samfélagsins og vera svolítið hinsegin,“ segir Hafdís.

Kerfisbundið, samfélagslegt og lagalegt misrétti ennþá viðvarandi vandamál

Þó orðræðan um að „baráttunni sé lokið“ eða að „jafnrétti hafi verið náð“ hafi fyrir löngu skotið rótum á Íslandi er kerfisbundið misrétti og samfélagslegt misrétti ennþá viðvarandi vandamál. Það þarf mikið átak til að ráðast gegn því og slík barátta mætir harðri mótspyrnu. Hafdís segir að fyrir henni, komandi úr ranni kynjasögunnar, sé femínismi og hinsegin barátta mjög samofin fyrirbæri þar sem karlmennskuforræði er í forgrunni. ,,Þessi barátta hefur sýnt svart á hvítu hvernig gagnkynhneigt forræði er kyrfilega samofið grunngerð samfélagsins. Og slíkt kerfi, sem byggt er á valdapíramída mun alltaf á einn eða annan hátt jaðarsetja hinsegin fólk.“

Hafdís bætir einnig við að lagalegu jafnrétti hafi alls ekki verið náð. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um kynrænt sjálfstæði sem verður mikil réttarbót fyrir trans einstaklinga. Í upprunalegu útgáfu frumvarpsins var ákvæði til verndar intersex börnum gegn ónauðsynlegum líkamlegum inngripum en því var sleppt í endanlegri útgáfu frumvarpsins. Svo þrátt fyrir að frumvarpið verði samþykkt verða réttindi intersex einstaklinga til að ráða yfir eigin líkama enn ekki tryggð.

„Einnig liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á almennum hegningarlögum þar sem ákvæði um hatursorðræðu er þrengt. Ef það færi í gegn myndi það gefa þáttastjórnendum Útvarps Sögu og internetherdeild þeirra skotleyfi á hinsegin fólk, og þau eru nú þegar farin að brýna hnífana í afkimum samfélagsmiðla. Þetta frumvarp skýtur skökku við þar sem það hefur margsýnt sig að stafrænt ofbeldi er vaxandi vandamál og getur haft grafalvarlegar afleiðingar og því nauðsynlegt að tryggja vernd gegn slíku.“

Tvenns konar merking í hugtakinu hinsegin saga

Ásta, Hafdís og Íris segja að hinsegin saga geti þýtt margt en þær hafi yfirleitt lagt tvenns konar skilning í hugtakið. Annars vegar hafa þær litið svo á að um sé að ræða sögu fólks sem hefur skilgreint sig sem samkynhneigt, tvíkynhneigt, trans, intersex eða á annan hátt sem rúmast undir því sem í dag er regnhlífarhugtakið hinsegin. Sú saga er að miklu leyti tengd sögu félagasamtaka og baráttunnar fyrir lagalegu jafnrétti og er fyrst og fremst saga 20. og 21. aldar, en teygir sig þó aftur til síðustu áratuga 19. aldar og er að stærstum hluta bundin við sögu samkynhneigðra. Slík sagnaritun var framan af einnig mjög bundin við hinn vestræna heim og að miklu leyti grundvölluð á reynsluheimi karla.

Hins vegar er hægt að beita hinsegin sem greinandi hugtaki við að skoða og afbyggja valdaformgerðir. Sem slíkt er það tengt hugtakinu kynverund órjúfanlegum böndum og jafnvel má segja að í þeim skilningi sé hinsegin saga undirgrein þess sem kallað hefur verið saga kynverundar. Þannig getur hugtakið hinsegin verið gagnlegt til að útskýra hlutverk og merkingu kynverundar, varpa ljósi á valdatengsl og útskýra sögulega þróun. Sem slík öðlast hinsegin saga þá töluvert víða merkingu og einskorðast ekki við fólk sem hefur skilgreint sig sem til dæmis homma og lesbíur.“

Breiður hópur með mismunandi hagsmuni að gæta

Hafdís segir hinsegin baráttuna hafa breyst mikið í gegnum tíðina, enda rúmast afskaplega breiður hópur innan hinsegin regnhlífarinnar og þessir hópar eiga ekki alltaf sameiginlegra hagsmuna að gæta. „Til dæmis getur verið erfitt og jafnvel ómögulegt að sætta áherslur róttækra femínista og íhaldssamra karlmanna. Sumir innan hinsegin samfélagsins telja hagsmunum hópsins (eða þeirra eigin) best borgið með því að aðlagast gildum og viðmiðum ríkjandi samfélagsgerðar til dæmis með áherslum á parasambönd, hjónaband og fjölskyldur á meðan aðrir telja að baráttan eigi einmitt að gagnrýna hina gagnkynhneigðu samfélagsskipan.“

Réttindabarátta mótast af samtímanum

„Réttindabarátta mótast líka alltaf af samtímanum og þeim átakalínum sem eru í gangi hverju sinni, barátta hinsegin samfélagsins í dag er ekki háð á sama grundvelli og til dæmis á tímum HIV/alnæmisfaraldursins. Að sama skapi má ekki gleyma að réttindabarátta hinsegin fólks hefur yfir sér mjög vestrænan blæ í hugum fólks, barátta hinsegin samfélaga á svæðum með litla lýðræðishefð, eða þar sem grundvallarborgaraleg réttindi eru ótryggð er auðvitað mjög ólík því sem við þekkjum á Vesturlöndum. Auk þess sem að aðrir menningarheimar eiga ríka hefð og sögu fyrir hugmyndum sem ganga þvert á hina vestrænu homó/heteró tvíhyggju,“ segir Hafdís.

Hópar innan hinsegin samfélagsins í viðkvæmari stöðu en aðrir

Innan hinsegin samfélagsins eru hópar sem eru mjög jaðarsettir og þar af leiðandi í viðkvæmari  stöðu en aðrir hópar innan þess. „Þar má t.d. nefna trans og intersex fólk sem er í mjög erfiðri stöðu gagnvart heilbrigðiskerfinu sem ákvarðar aðgang þeirra að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og ákveður jafnvel að það sé best að gera stórt inngrip inn í líkama, t.d. intersex barna, með skurðaðgerðum.

Hinsegin flóttafólk er einnig í mjög viðkvæmri stöðu, eins og flóttafólk almennt, en einnig vegna þess að það er líklegra til að búa við ótryggar aðstæður eða fá ekki nauðsynlega þjónustu vegna hinseginleika síns. En þessi mynd sem ég dreg upp er einfölduð og fólk sem tilheyrir þessum hinsegin hópum er auðvitað ólíkt og hefur mismunandi persónueinkenni. Sum tilheyra fleiri en einum jaðarsettum hópi sem gerir stöðu þeirra enn viðkvæmari.

Trans flóttafólk þarf t.d. ekki aðeins að glíma við innflytjendabatteríið heldur einnig heilbrigðiskerfið, en bæði kerfin hafa langa sögu af því að koma ekki vel fram við jaðarsett fólk. Þannig að við þurfum líka að taka annars konar jaðarsetningar inn í dæmið, eins og fötlun, uppruna, húðlit, líkamsstærð og fleira,“ segir Íris.