„Sameinuð rödd stúdenta, það er það sem LÍS eru“

Elsa María Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Elsa María Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Landssamtök íslenskra stúdenta, LÍS, eru regnhlífarsamtök stúdentahreyfinga sem starfa innan innlendra háskóla og félags námsmanna erlendis, samtals átta aðildarfélög, en samtökin eru í forsvari fyrir alla íslenska stúdenta. Formaður samtakanna er Elsa María Guðlaugs Drífudóttir og var hún tekin tali um starfsemi og hlutverk samtakanna.

Tilkoma LÍS mikið framfaraskref

LÍS voru stofnuð 3. nóvember 2013 og fögnuðu því fimm ára afmæli síðastliðið haust. „Samtökin hafa vaxið alveg ótrúlega hratt á þessum tíma, við höfum í raun farið frá því að sinna þessu í algjöru sjálfboðaliðastarfi með enga aðstöðu fyrir starfsemina og yfir í það að hafa skrifstofuhúsnæði hjá Bandalagi háskólamanna og vera með eitt og hálft stöðugildi á skrifstofunni, sem hefur verið mikil lyftistöng fyrir starfsemina.“

Elsa segir samtökin sinna mjög fjölbreyttu starfi en frá upphafi hafa stærstu viðfangsefni samtakanna verið gæðastarf hér á Íslandi, þ.e. að þjóna sem talsmaður íslenskra stúdenta í gæðastarfi, sem heyrir yfir alla háskólana. „Á Íslandi er gæðarammi sem nær yfir alla háskólastarfsemi á Íslandi og við sitjum í ráðgjafanefnd íslenskra háskóla, þar sem við tölum máli stúdenta og við skipum fulltrúa stúdenta í Gæðaráð íslenskra háskóla.“

Þá eru LÍS einnig virk í alþjóðastarfi, þar sem þau tala fyrir hönd íslenskra stúdenta á alþjóðlegri grundu. Samtökin eru hluti af samstarfsneti landssamtaka stúdenta á Norðurlöndunum og svo eru þau einnig hluti af evrópskum stúdentasamtökum, European Students’ Union. „Þar í gegn komum við að ákvarðanatöku og stefnumótun stúdenta á alþjóðavettvangi og tryggjum að rödd íslenskra stúdenta heyrist á þeim vettvangi.“

„Einstakur samráðsvettvangur fyrir stúdenta“

Elsa segir að grunnhlutverk LÍS sé að skapa samstarfsvettvang fyrir alla íslenska stúdenta. „Það er ótrúlegt að slíkt hafi ekki verið til staðar fyrir stofnun LÍS, en það hefur verið mikið framfaraskref í hagsmunabaráttu stúdenta þegar LÍS varð til.“

Elsa telur eitt af þeim framfaraskrefum sem stigin hafa verið með tilkomu LÍS er að árlega halda samtökin landsþing þar sem sitja fulltrúar frá öllum stúdentafélögunum og Sambandi íslenskra námsmanna erlendis, en á þinginu hittast um sextíu manns sem öll sinna hagsmunabaráttu stúdenta. „Bara þessi vettvangur, sem er æðsta ákvörðunarvald samtakanna, er einstakur samráðsvettvangur fyrir stúdenta til þess að kynnast því hvernig stúdentastarfið á sér stað við mismunandi aðstæður, í mismunandi háskólum.“

Á þinginu vinna fulltrúar saman að sameiginlegri stefnumótun allra stúdenta, en úr þeirri vinnu hafa orðið til tvær stefnur sem Elsa telur gegna veigamiklu hlutverki. Önnur snýr að alþjóðavæðingu í íslensku háskólasamfélagi og hin að gæðum í íslensku háskólasamfélagi.

„Þetta eru fyrstu pólitísku stefnurnar sem allir íslenskir stúdentar eiga hlut í, sem er út af fyrir sig mjög merkilegt því það þýðir að við getum notað þessar stefnur til þess að þrýsta á stjórnvöld, háskóla og í raun alla hagaðila og sagt að allir stúdentar standi á bak við þessar stefnur, sem er magnað. Sameinuð rödd stúdenta, það er það sem LÍS eru, það er okkar slagorð.“

Hagsmunabaráttan orðin hnitmiðaðri

Innan LÍS starfar einnig fulltrúaráð, en í því sitja fulltrúar allra aðildarfélaga samtakanna. „Með tilkomu þessa ráðs hefur hagsmunabaráttan orðið hnitmiðaðri. Sem dæmi stóðum við í ár fyrir LÍN-herferð, en það hefur í raun aldrei verið jafnmikill þrýstingur á umbætur um úthlutunarreglur lánasjóðsins eins og í ár. Eins má nefna að fyrir síðustu alþingiskosningar stóðum við fyrir „Kjóstu menntun“-herferðinni og héldum pallborðsumræður bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri.

Þar svöruðu frambjóðendur spurningum um menntakerfið og þá sérstaklega háskólakerfið. Þetta varð til þess að menntamál voru mikið í umræðunni í þessum kosningum og ég ætla að þora að segja að þau hefðu ekki verið svona mikið í umræðunni ef ekki hefði verið fyrir herferðina.“

Elsa telur að þrýstingurinn sem LÍS nær að koma fram í krafti sameinaðrar raddar stúdenta sé að skila sér. „Það sést á stjórnvöldum sjálfum, þau viðurkenna LÍS sem málsvara stúdenta og þau leita til okkar til að fá innlegg stúdenta í málefni sem skipta okkur máli og það hefur bara aukist síðustu ár.

Við erum í stöðugum samskiptum við mennta- og menningarmálaráðuneytið til þess að koma rödd stúdenta á framfæri og ráðuneytið sjálft leitar til okkar til að fá tilnefningar á stúdentum til setu í alls kyns nefndum og í stefnumótun. Þannig að þetta er að virka og við erum að fá viðbrögð frá stjórnvöldum.“

Samstöðufundur vegna LÍN

LÍS stóð fyrir samstöðufundi þann 26. febrúar síðastliðinn fyrir utan húsnæði Lánasjóðs íslenskra námsmanna, eða LÍN, þar sem á sama tíma stóð yfir stjórnarfundur LÍN sem laut að samkomulagi um úthlutunarreglur sjóðsins, en með samstöðunni átti að þrýsta á að umbætur yrðu gerðar á úthlutunarreglunum.

„Þetta var í kjölfarið á herferð sem farið var í í janúar undir yfirskriftinni „stúdentar mega ekki hafa það betra“. Þetta var einskonar smiðshögg á þessa herferð og var mjög öflugt framtak, en við fengum stuðningsyfirlýsingu frá öllum rektorum háskólanna og einnig frá Bandalagi háskólamanna. Einnig sendum við út áskorun á alla þingflokka ásamt ungliðahreyfingum flokka til þess að fá þau til að senda þingfólk á staðinn til að sýna stuðning og þingfólk lét sjá sig.“

Tekið er fram að þegar þetta er ritað liggur ekki fyrir niðurstaða um endanlegt samþykki á nýjum úthlutunarreglum, en Elsa bendir á að með þessari herferð hafi þó tekist að vekja mikla athygli á málinu og komu meðal annars fram fyrirspurnir inn á Alþingi til mennta- og menningarmálaráðherra um stöðuna í málinu.

„Krakkar frá 6. bekk og upp í fólk í doktorsnámi“

Undir lok febrúar var efnt til loftslagsverkfalls á Austurvelli í miðborg Reykjavíkur og krafist aðgerða stjórnvalda þegar í stað til að takast á við loftslagsbreytingavandann sem blasir við jörðinni og hefur því verið haldið áfram vikulega á föstudögum síðan. Að verkföllunum standa LÍS ásamt Ungum umhverfissinnum, Stúdentaráði Háskóla Íslands og Sambandi íslenskra framhaldsskólanema.

„Þetta gerðist ótrúlega hratt hjá okkur. Við vorum að vinna með SHÍ að því að skipuleggja landsþingið okkar í vor en þema þess var sjálfbærni og samfélagsábyrgð, sem varð til þess að við vorum að ræða við allskonar fólk og sérfræðinga um málefnið, og í því ferli þá gerðist það eiginlega að allt í einu fórum við að skipuleggja loftslagsverkfall.

Þetta er innblásið af Gretu Thunberg, sænska loftslagsaktivistanum en hún hefur staðið fyrir sambærilegum verkföllum síðan í haust og þetta hefur farið út um allan heim, þar sem ungt fólk og námsmenn fara í verkfall á föstudögum. Það var bara tímaspursmál hvenær við myndum slást í hópinn.“

Föstudaginn 15. mars var svo gengið fylktu liði frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll í tilefni af því að sá dagur var samræmdur í loftslagsverkföllum á alþjóðavísu þar sem fjöldi fólks fór í verkfall á sama tíma til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsaðgerðum. Elsa segir að farið hafi verið fram á fundi með ráðherrum ríkisstjórnarinnar til að ræða aðgerðaleysið.

„Við fórum á fund með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra í mars og það var ótrúlega gott spjall sem við áttum þar. Við vorum sammála um að ábyrgðin liggur víða, hún liggur ekki einungis hjá stjórnvöldum, en það er samt eðlileg krafa ungs fólks að stjórnvöld dragi vagninn, enda með löggjafarvald.

Við teljum að þörf sé á auknum aðgerðum strax. Það er flott að til sé aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, en hún þarf að vera metnaðarfyllri og hún þarf að gera meira núna.“

Elsa segir einnig fyrirhugað að funda með forsætisráðherra og fjármálaráðherra um stöðuna í aðgerðunum. „Það er jákvætt að sjá að við höfum fengið mjög jákvæða fjölmiðlaumfjöllun í þessu máli og mjög góðar viðtökur.“

Elsa tekur fram að loftslagsverkfallið sé opið öllum sem hafa áhuga á loftslagsmálum og krefjist tafarlausra aðgerða, ekki bara framhalds- og háskólanemum. „Í raun hefur einn öflugasti hópurinn sem mætir á loftslagsverkfallið verið grunnskólanemar sem er ótrúlega skemmtilegt. Það er mjög gaman að sjá kraftinn í grunnskólanemunum og að sjá krakka frá 6. bekk og upp í fólk í doktorsnámi koma saman og berjast fyrir auknum aðgerðum er ótrúlega einstakt.“

Elsa telur grunnskólanemana vera mjög öflugan þrýstihóp þar sem þau muni svo á endanum þurfa að glíma við afleiðingar loftslagsbreytinganna, en þau sýni það að þau geri sér fulla grein fyrir því að verið er að gera þeim óleik með aðgerðaleysi dagsins í dag. „Það er orðin mjög mikil samfélagsleg meðvitund um loftslagsmál.“

„Stjórnvöld vaski upp eftir sig“

Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040, en Elsa telur að tækifærin séu til staðar til að þetta geti gerst mun fyrr. „Það veldur vonbrigðum að stjórnvöld séu ekki tilbúin að gera þetta hraðar og tryggja að í valdatíð þeirra sem eru við völd í dag að þá muni þetta lagast, frekar en þetta sé í rauninni tímasett þannig að þetta hætti að vera þeirra ábyrgðarmál þegar að því kemur.“

Ótal ríkisstjórnir eiga eftir að sitja við völd þangað til að þessu kemur og því er hættan á stefnubreytingu ávallt til staðar. „Ég hef borið þetta saman við að ef þú ert að elda í eldhúsinu að þá gengur þú frá og vaskar upp eftir þig áður en næsti maður fer að elda. Þannig að kannski viljum við að stjórnvöld vaski upp eftir sig áður en við tökum við.“

Þarft bara að hafa áhuga og brenna fyrir málefnunum

Elsa mælir sterklega með því að stúdentar taki þátt í því öfluga starfi sem fram fer innan LÍS. „Það er ótrúlega skemmtilegt að taka þátt í starfi LÍS og það er mjög gefandi. Mér hefði ekki dottið það í hug fyrir þremur árum að þetta myndi í raun þróast yfir í það sem þetta hefur orðið fyrir mig og þetta hefur gefið mér ótrúlega mikið á svo marga vegu og ég get ekki mælt nógu mikið með því að taka þátt í þessu og skoða það sem starf LÍS inniheldur.“

Ýmislegt sé í boði til að taka þátt í starfi LÍS. „Það eru 6 fastanefndir innan LÍS, sem sinna alls konar daglegu starfi og ef stúdentar vilja taka þátt í starfi nefndanna þá er opnað fyrir umsóknir á haustin, undir lok ágúst. Svo er líka hægt að sækja um í framkvæmdastjórn, en verkefnaálagið er meira þar og þá er maður að sjá um daglegan rekstur samtakanna og það eru 8 embætti sem hægt er að bjóða sig fram í.“

Elsa segir að allir stúdentar geti tekið þátt og hvað nefndarstarfið varðar þá þarf ekki að vera sérfræðingur í félagsstarfi eða reynslumikill í stúdentamálum til að taka þátt. „Það gildir sérstaklega ef maður tekur þátt í nefndarstarfinu að þá þarf bara að hafa áhuga og brenna fyrir málefnunum, þá er pottþétt hægt að finna eitthvað fyrir þig að gera.“

Framboðsfrestur til framkvæmdastjórnar rann út 15. mars síðastliðinn og kosið var á landsþingi LÍS sem stóð yfir 29.-30. mars, en opnað verður fyrir umsóknir í fastanefndir LÍS í ágúst.