Sex skref í átt að atvinnu

Finnst þér atvinnumarkaðurinn vera sannkölluð eyðimörk? Hvað með að lesa greinina hér að neðan og öðlast þau tæki og tól sem þú þarft til að gera eyðimörkina að gróskumiklum jarðvegi?  Stúdentablaðið/Unsplash

Finnst þér atvinnumarkaðurinn vera sannkölluð eyðimörk? Hvað með að lesa greinina hér að neðan og öðlast þau tæki og tól sem þú þarft til að gera eyðimörkina að gróskumiklum jarðvegi? Stúdentablaðið/Unsplash

Grein: Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands

Þegar sótt er um atvinnu er mikilvægt að vinna starfsumsóknina vel. Einn af lykilþáttunum í því ferli er góð sjálfsþekking þar sem markmið umsækjenda er væntanlega að fá starf við hæfi. Fyrst þarf að ná athygli atvinnurekanda og komast því næst í viðtal. Sagt er að atvinnurekendur eða ráðningaraðilar eyði ekki löngum tíma í hverja umsókn, því er mikilvægt að bæði ferilskrá og kynningarbréf séu vönduð þannig að hún veki athygli. Í þessari grein verður fjallað um 6 mikilvæg skref fyrir fólk í atvinnuleit.  

  1. Sjálfsskoðun. Nauðsynlegt er að þú áttir þig á því hvaða þekkingu, færni og reynslu þú hefur fram að færa, bæði úr námi og starfi. Gott er að spyrja sig eftirfarandi spurninga: Á hverju hef ég áhuga? Hvaða styrkleikum bý ég yfir? Hvaða reynslu hef ég öðlast í fyrri störfum? Hvaða reynslu, þekkingu og hæfni hef ég öðlast í náminu sem getur nýst í mismunandi störfum? Vertu opin fyrir því að yfirfæra þekkingu, færni og reynslu yfir á mismunandi störf. Það er líka mikilvægt að gera upp við sig  hverskonar starfi maður er að leita að, hvernig starfsumhverfi þú vilt vinna í og í hvaða starfsgrein þú vilt starfa.

  2. Rannsaka tækifæri á vinnumarkaði. Í þessu skrefi er mikilvægt að kynna sér hvaða atvinna er í boði þar sem reynsla þín, þekking og hæfni á við. Í þessu skrefi þarf að hafa í huga hvaða hæfnikröfum sóst er eftir í atvinnuauglýsingum. Þá er oft verið að leita eftir fólki með „menntun sem nýtist í starfi“. Gott er að staldra við og meta hvað það þýðir og á hvern hátt þín menntun nýtist. Það skiptir máli að vera opin fyrir tækifærum og virkja tengslanetið sitt. Hafa ber í huga að aðeins lítill hluti af störfum eru auglýstur, því getur verið gott að skrá sig hjá atvinnumiðlunum og setja inn almennar umsóknir hjá fyrirtækjum eða stofnunum.

  3. Gerð ferilskrár. Það skiptir höfuðmáli að vanda gerð ferilskrár því hún er stór þáttur í markaðssetningu þinni. Góð ferilskrá kemur umsækjanda ofar í bunkann hjá atvinnurekanda. Mikilvægt er að taka fram fyrri störf sem skipta máli. Ferilskráin er lifandi plagg sem tekur breytingum eftir því hvaða störf sótt er um. Þess vegna er ekki rétt að segja: „Ég á tilbúna ferilskrá“, því það þarf að sníða hana að því starfi sem sótt er um. Á Íslandi setur fólk oftast mynd í ferilskrá. Best er að hafa andlitsmynd með hlutlausum bakgrunni. Hæfileg lengd ferilskrár er 1-3 blaðsíður. Í ferilskrám koma fram persónuupplýsingar, námsferill, starfsferill, félagsstörf, tungumálakunnátta og önnur kunnátta, t.d. tölvukunnátta. Einnig má minnast á stutt eða löng námskeið sem hafa verið sótt, sérstaklega ef þau nýtast í starfinu sem sótt er um. Gott er að setja stutta skýringu undir fyrri störf, t.d. um helstu verkefni. Leggðu meiri áherslu á menntun þína ef þú ert í námi og láttu koma fram sérstakar áherslur í náminu. Ef þú hefur litla starfsreynslu getur verið sérstaklega mikilvægt að leggja áherslu á námið og námskeið sem þú hefur tekið, að sama skapi leggurðu meiri áherslu á starfsreynsluna ef hún er mikil. Einnig er nauðsynlegt að hafa einn til tvo meðmælendur. Vert að taka fram að það er ekki endilega ein rétt leið til að gera ferilskrá, en gott er að hafa í huga hvort hún sé við hæfi fyrir það starf sem sótt er um.

  4. Kynningarbréf. Tilgangur kynningarbréfs er að gera grein fyrir ástæðu umsóknar í tiltekið starf og hvað þú hefur fram að færa í starfinu. Kynningarbréf er stuttur og hnitmiðaður texti, ekki meira en ein blaðsíða eða þrjár til fjórar efnisgreinar. Í kynningarbréfinu er persónueiginleikum gerð góð skil ásamt færni og þekkingu sem gagnleg er fyrir fyrirtækið/stofnunina sem sótt er um hjá. Í kynningarbréfi gefst umsækjanda tækifæri til að útskýra ákveðin atriði í ferilskrá betur eða bæta við upplýsingum sem ekki hafa komið fram í ferilskrá. Gerðu grein fyrir því hvernig þú uppfyllir þær hæfnikröfur sem settar voru fram í starfsauglýsingu, hafi starfið verið auglýst. Kynningarbréfið byggir mikið á sjálfsskoðuninni sem þú gerðir í upphafi. Að lokum er mikilvægt að segja í kynningarbréfinu að þú viljir gjarnan koma í viðtal.

  5. Undirbúningur fyrir atvinnuviðtalið. Tilgangur atvinnuviðtals er m.a. að gefa þér tækifæri til að koma því á framfæri hvað þú hefur upp á að bjóða fyrir þetta tiltekna starf. Einnig fær umsækjandi tækifæri til að koma á framfæri hvernig hæfileikar hans, reynsla, nám og fyrri störf gagnist í starfinu. Mikilvægt er að umsækjandi sé undir það búinn að svara ýmsum spurningum bæði óvæntum og hefðbundnum. Umsækjandi ætti líka sjálfur að undirbúa sig og hafa á takteinum spurningar er varða starfið og fyrirtækið. Það skiptir miklu máli að vera búinn að kynna sér fyrirtækið vel með því að skoða heimasíðu fyrirtækisins, til dæmis. Vertu búinn að hugsa hvernig þú getur gert grein fyrir því að þú uppfyllir þær hæfnikröfur sem settar eru fram í auglýsingu, komdu með dæmi úr námi eða fyrra starfi til að sýna fram á ákveðna hæfni. Gott er að æfa sig upphátt, spyrja spurninga og svara. Spurningar atvinnurekanda snúa gjarnan að menntun, starfsreynslu og persónu þinni.

  6. Atvinnuviðtalið. Það að komast í atvinnuviðtal er ákveðinn sigur og því er um að gera að vanda sig. Mikilvægt er að vera stundvís. Það er óþarfa álag að vera á síðustu stundu og það eru ekki góð fyrstu kynni að mæta of seint. Góð regla er að mæta 5-10 mín fyrir atvinnuviðtalið. Mættu í viðeigandi klæðnaði í viðtalið, hafðu t.d. í huga hvernig klæðnaður hæfir starfsumhverfinu og því starfi sem þú sækist eftir. Í viðtalinu sjálfu er gott að vera meðvitaður um eigin líkamstjáningu, beint bak, mynda augnsamband, vera ekki með takta eins og að fikta í hári eða penna, eða krossalagðar hendur. En þó er mikilvægt að taka sig ekki of hátíðlega og leyfa sér að vera maður sjálf/-ur/-t og vera heiðarleg/-ur/-t. Auk þess getur jákvætt hugarfar skipt sköpum. Vertu þakklát/-ut/-t fyrir að hafa komist alla leið í atvinnuviðtal, það komast ekki allir svo langt.

Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands taka vel á móti nemendum HÍ sem vantar aðstoð við starfsumsóknir. Á heimasíðu NSHÍ má finna dæmi um ferilskrá og á síðum ráðningarfyrirtækja.

www.hi.is/nshi

www.facebook.com/nshiradgjof/

instagram/namsradgjofhi

Greinin er unnin upp úr efni og fyrirlestrum NSHÍ og bókinni:

Jón Birgir Guðmundsson og Jónína Guðmundsdóttir. (2012). Frá umsókn til atvinnu: Sjálfsskoðun, að markaðssetja sjálfan sig, ráðningarferlið, ferilskrár, kynningarbréf, atvinnuviðtöl, ráðningarsamningar. (2. útgáfa).