Skandali sameinar skúffuskáld

„Það er fínt að segja fólki að vera tilbúið að gera skandala. Þó það sé kannski ekki yfirlýst markmið að hneyksla þá ætlum við ekki að reyna að komast hjá því heldur.“  Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

„Það er fínt að segja fólki að vera tilbúið að gera skandala. Þó það sé kannski ekki yfirlýst markmið að hneyksla þá ætlum við ekki að reyna að komast hjá því heldur.“ Stúdentablaðið/Eydís María Ólafsdóttir

Ritstjórn hins nýja (and)menningartímarits Skandala samanstendur af sjö skapandi eintaklingum. Fjögur þeirra settust niður með blaðamanni Stúdentablaðsins á dögunum. Það voru þau Karitas M. Bjarkardóttir, Oddný Þorvaldsdóttir, Tanja Rasmussen og Ægir Þór. Auk þeirra stýra Skandala Aldís Dagmar Erlingsdóttir, Anton Sturla Antonsson og Jón Magnús Arnarsson. Stefnt er að því að tímaritið verði gefið út tvisvar á ári. Fyrsta tölublaðið verður gefið út í lok maí. Það næsta í október eða nóvember.

Gerlegt með smá heppni og smá bjartsýni

Hugmyndin að því að gefa út menningartímarit segja þau vera komin frá Antoni, sem situr í ritstjórninni. „Hann stakk upp á þessu einhvern tímann yfir bjór á Kjallaranum. Ég hraunaði eiginlega yfir hugmyndina,“ segir Ægir.

„Ég var þá nýbúinn að gefa út bók og vissi þess vegna hversu mikið vesen svona útgáfa er og hversu dýrt það er. Ég skaut hugmyndina niður og eyddi þessu samtali. En svo fór ég að pæla í því betur, gerði fjárhagsáætlun og sá hvernig þetta leit allt saman út. Ég fékk það út að þetta væri gerlegt með smá heppni og smá bjartsýni. Svo lítur þetta allt mjög vel út núna.“

Þeim gengur vel að fjármagna verkefnið en ritstjórnin hefur staðið fyrir söfnun á Karolinafund. Þegar viðtalið var tekið var ekki langt í land en nú hefur þeim tekist að safna upphæðinni allri og ríflega það. „Svo erum við komin með auglýsingatekjur líka. Þannig að við erum komin með ágætis fjármagn,“ segir Ægir. Skandala var einnig úthlutað styrk frá Reykjavík, Bókmenntaborg UNESCO. Þannig að þrátt fyrir að margt hafi enn verið óákveðið þegar blaðamaður hitti hópinn er ljóst að undirbúningurinn gengur vel.

Best þegar það er mest að gera

Meðlimir ritstjórnarinnar stunda öll nám við Háskóla Íslands, að Aldísi undanskilinni, ýmist í íslensku og ritlist, heimspeki eða almennri bókmenntafræði. Þau segja það fara ágætlega saman að vinna að útgáfu Skandala og stunda námið „Gengur ekki alltaf best þegar það er mest að gera?“ segir Tanja. Karitas nefnir að þau séu einnig í fleiri verkefnum. „Við erum öll í einhverju öðru líka. Við erum öll að vinna. Tanja er til dæmis með eigið útgáfufyrirtæki og Ægir er að gefa út bók og með sína eigin útgáfu líka.“

Sjömenningarnir hafa í nógu að snúast og ætla því ekki að sitja í ritstjórn Skandala alla tíð. „Þetta verður flæðandi ritstjórn,“ segir Karítas og Tanja bætir við: „Ef einhverjir hafa áhuga alla vega.“

Oddný bendir þó á að vanda þurfi til verka þegar kemur að ritstjórnarskiptum. „Við viljum náttúrulega hafa góð skipti. Ekki bara fara og skilja menn eftir alveg í lausu lofti.“ Ægir tekur undir: „Já, það væri náttúrulega synd að skilja blaðið eftir í slæmum höndum. Við höfum haft mikið fyrir því að koma þessu af stað.“ Tanja bætir þó við: „Svo verður maður náttúrulega líka að treysta“.

Verkefni opið öllum

Í þetta sinn hefur Ægir tekið að sér starf ritstjóra og Aldís, sem er menntuð sem grafískur hönnuður, mun sjá um umbrot og grafíska hönnun. Að öðru leyti er ekki búið að úthluta formlega verkefnum í stjórninni. „Ritstjórnin samanstendur af fólki sem ég dró að úr hinum og þessum áttum. Oddný er kærastan mín, Anton og Aldís eru vinir mínir, Jón Magnús kunningi minn en þær tvær hérna,“ segir hann og bendir á Karitas og Tönju, „þekkti ég eiginlega ekkert fyrir fram. Hugmyndin var að þetta verkefni væri opið fyrir öllum. Ég vildi ekki setja saman einhvern lokaðan hóp sem tæki ekki við nýliðum.“

Oddný nefnir þó að þau séu í nokkuð góðri stöðu til að sinna verkefninu. „Við erum á þannig stað í lífinu að við getum verið að sinna þessu. Við eigum ekki börn eða eitthvað.“ „Að Jóni undanskildum,“ skýtur Ægir inn.

Skandalar og andmenning

Heiti tímaritsins, Skandali, segir Ægir vera komið frá Antoni. „Hann hefur ekki útskýrt það nákvæmlega þannig að ég er búinn að búa til sögu um nafnið sem ég segi þegar ég er spurður að þessu. Það er eitthvað á þá leið að þetta sé samsett úr ‚skandall‘ og ‘kastali’ eða ‘sandali’ og fær mig til þess að hugsa um sandkastala, eitthvað flott en hverfult.“

„Það er fínt að segja fólki að vera tilbúið að gera skandala,“ bætir hann við. „Þó það sé kannski ekki yfirlýst markmið að hneyksla þá ætlum við ekki að reyna að komast hjá því heldur.“ „Það gæti mjög auðveldlega gerst,“ segir Karitas.

Oddný bætir við að sér þyki „skandall“ að svona tímarit sé ekki til. „Stúdentablaðið er fyrir stúdenta, síðan er Tímarit Máls og menningar fyrir menningarvita og svo framvegis. Svo eru flest tímarit á netinu.“ Ægir tekur undir að það vanti sárlega fleiri prentuð tímarit á Íslandi „Það eru bara tvö önnur prentuð bókmennta- og menningartímarit á Íslandi. Það er ekki nóg, sérstaklega ekki þegar Tímarit Máls og menningar hleypir engum að nema hann hafi gefið út nokkrar bækur fyrst.“

Ægir segir það að kalla tímaritið „(and)menningarlegt“ sé frá honum komið. „Ég vil ekki tala fyrir hönd allra hérna. Þetta er auðvitað opið öllum og það er ekkert skýrt þema en það að kalla þetta (and)menningarlegt tímarit endurspeglar minn metnað í þessum efnum. Ég vil hafa þetta sem vettvang fyrir mig að halda úti einhverju öðruvísi.

Þetta er ekki bara fyrir unga höfunda, heldur líka eldri höfunda sem eru að gera eitthvað öðruvísi sem passar ekki inn í þeirra höfundarverk og þeim vantar smá outlet á. Jafnvel menn sem eru með samning hjá stóru forlögunum en eru að skrifa eitthvað sem forlögin myndu ekki líta við. Þetta er alla vega minn vinkill og ég mun reyna að púsla því aðeins í fyrsta tölublaði. Síðan tekur vonandi einhver við ritstjórn næsta tölublaðs og þá ætla ég ekkert of mikið að vera með puttana í því hvað gerist þá.“

Vilja mynda samfélag

Þau eru sammála um að Skandali eigi að bæta einhverju við menningarlífið á Íslandi. Ægir segir Skandala eiga að vera vettvang fyrir óreynda höfunda. Tanja bætir við: „Það er svo ótrúlega erfitt að koma út þegar maður hefur ekki sýnt neinum ljóðin sín nema kannski sínum nánustu. Ég held að engum myndi detta í hug að fara að senda ljóð á Mál og menningu í þeirri trú að þau myndu birta það í tímaritinu. Það er mjög háleitt markmið. Það vantar þennan vettvang fyrir óreynda höfunda til þess að stíga þetta fyrsta skref að birta efni.“

Markmiðið er að skapa samfélag í kringum Skandala. „Það er svo mikið af fólki að gera eitthvað skapandi hvert í sínu horni en ekki að tala saman,“ segir Ægir. Oddný tekur undir: „Við göngum svolítið út frá því að það séu fleiri að skrifa en fólk gerir sér grein fyrir og það séu líka fleiri sem geta skrifað.“

Hún telur að fólk þurfi að geta gert ráð fyrir að geta sýnt einhverjum verkin sín til þess að það byrji að skrifa eða haldi áfram. Skandali á að vera slíkur vettvangur. Ægir bætir við að hann þekki marga sem hafa einhvern tímann haft áhuga á að skrifa en gefist upp á því þar sem það sé enginn vettvangur til fyrir skrifin. „Þú gefur ekki bara út bók án þess að hafa nokkurn tímann birt eitthvað. Sumir náttúrulega gera það en það verða tiltölulega lélegar bækur. Þeir hefðu gott af því að hafa eitthvað samfélag og fá eitthvað feedback fyrst.“  

Skandali hefur staðið fyrir upplestrarkvöldum undanfarnar vikur á hinum ýmsu stöðum. Tanja segir það hafa gengið nokkuð vel. „Þetta er ekkert mjög stórt en það var alla vega ekki tómt. Það var ekki einu sinni tómlegt. Mjög notalegt andrúmsloft.“

Karitas bætir við að þetta hafi verið þægilegur fjöldi til þess að lesa fyrir. „Það voru ekki það fáir að manni hafi liðið óþægilega og ekki það margir að þetta hafi ekki lengur verið persónulegt. Fyrir mér var þetta bara príma fjöldi.“ Tanja nefnir að nokkrir hafi lesið upp í „open mic“, sem ekki hafi verið partur af skipulagðri dagskrá. „Ef tími gefst þá viljum við endilega gefa fólki tækifæri á að troða upp,“ segir Ægir.

Þau segja viss tengsl vera á milli upplestrarkvölda og útgáfu tímarits. „Á svona upplestrarkvöldi þá safnar maður saman hóp af fólki sem fær að lesa upp. Það er eiginlega það sama að gerast í tímaritinu, við erum að safna saman fólki til þess að koma því á framfæri,“ útskýrir Tanja.

Oddný segir það hvetja fólk til þess að hlusta á hvort annað, lesa upp fyrir hvort annað, skrifa meira, og sýna skrifin sín. „Það hvetur fólk til þess að draga ljóðin upp úr skúffunni,“ bætir Karitas við. Oddný bætir því við að verk í vinnslu séu alveg jafn velkomin og eitthvað sem er alveg tilbúið.

Ægir segir það oft vera mjög erfitt að opna skúffuna og senda eitthvað blint á eitthvert netfang. „En um leið og maður er búinn að sjá fólkið í eigin persónu og tengja nöfn við andlit þá verður þetta vonandi auðveldara.“ Tanja segir viðburðina mikilvæga vegna þess að ef Skandali væri bara tímarit þá myndi ekkert samfélag myndast.

Sameina ólík listform

Þau segjast öll hafa einhverja reynslu af skrifum, þó hún sé mismikil. Oddný segist hafa skrifað minnst, að minnsta kosti af ljóðum og sögum. „Ef ég skrifa þá er það bara fyrir mig. Það efni sem ég mun birta mun frekar vera viðtöl, menningarrýni og eitthvað svoleiðis.“ Hún bætir svo við: „Það þarf að senda nóg af tölvupóstum, maður þarf ekki að vera skáld til þess. Hæfileikar okkar liggja á mismunandi sviðum.“

Að Aldísi undanskilinni hafa meðlimir ritstjórnarinnar hins vegar ekki mikla reynslu af annars konar list en textatengdri. Karítas segir þó að blaðið muni ekki einskorðast við texta. „Þetta verður svolítið blandað, það þarf ekki endilega allt að vera skrifaður texti, það má líka senda inn ljósmyndir eða innskannaðar teikningar eða eitthvað. Skrifaður texti getur svo verið hvað sem er í rauninni; prósi, ljóð, smásaga, örsaga, menningarrýni, viðtöl, umfjöllun, pistill, leikrit.“

Ægir segir frá því að nokkrir meðlimir hafi heimsótt hönnunarbraut MH. „Það opnaði augu mín fyrir því að það eru margir sem eru að gera annars konar list en texta sem vantar líka vettvang. Þess vegna viljum við líka bjóða þessu fólki að senda inn.“

Slík verk gætu ef til vill prýtt forsíðu tímaritsins. Oddný bætir við að þau hafi líka talað við formann Félags íslenskra ljósmyndara. „Hún hafði mikinn áhuga á samstarfi þar sem henni fannst þurfa að auðvelda samskipti milli skálda og ljósmyndara. Bæði til þess að halda sýningar en líka til þess að birta ljósmyndir á prenti. Það er ekki stór vettvangur fyrir ljósmyndara að birta sínar myndir.“ Ægir nefnir að sig langi að halda ljósmyndasýningu í tengslum við upplestur, jafnvel á einu af upplestrarkvöldum Skandala.

Ritstjórn Skandala hvetur öll skúffuskáld til þess að hafa samband við þau, senda tölvupóst eða skilaboð á facebook. „En það er auðvitað langbest að koma í eigin persónu á kynningarkvöldin og spjalla,“ segir Ægir. „Þá verðum við mjög glöð,“ bætir Tanja við. Fyrsta tölublað Skandala kemur út í lok maí og hvetur ritstjórnin alla til þess að mæta í útgáfuhófið og næla sér í eintak.