Afslöppuð stemning á Stúdentakjallaranum

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Stúdentakjallarann þarf vart að kynna fyrir nemendum Háskóla Íslands. Hann er staðsettur í kjallara Háskólatorgs og hefur síðastliðin sjö ár verið helsti samkomustaður stúdenta. Í kjallaranum fær hinn akademíski andi að víkja fyrir afslappaðri stemningu og dagskrá hvers skólaárs er full af fjölbreyttum viðburðum. Stúdentar geta fengið fastar og fljótandi veitingar á lágu verði og matseðillinn er í stöðugri þróun. 

Fjölbreytt dagskrá

Yfir skólaárið eru ýmsir viðburðir á dagskrá í Stúdentakjallaranum. Af föstu liðunum má nefna Skítblankan föstudag í lok hvers mánaðar með útsöluverði á drykkjum og bíósýningar á sunnudögum þar sem boðið er upp á frítt popp. Þá hafa Pop Quiz prinsarnir Jón Már og Árni Freyr stýrt vinsælu pop quiz í kjallaranum í nokkur ár, en það er spurningakeppni með tónlistarívafi og tilheyrandi tóndæmum. Þegar mikið liggur við er landsleikjum og öðrum íþróttaviðburðum varpað á stóra tjaldið, til dæmis þegar EM og HM fara fram.

Stúdentakjallarinn stendur einnig fyrir stærri viðburðum og hefur undanfarin ár verið með Off venue dagskrá á Iceland Airwaves í samstarfi við Landsbankann. Þar hefur áhersla verið lögð á að koma ungu tónlistarfólki á framfæri. Á þessu skólaári hafa meðal annars Une Misère, Bjartar sveiflur, Högni Egilsson og Hipsumhaps verið með tónleika í Stúdentakjallaranum í samstarfi við Landsbankann og Ölgerðina. Þá stóð til að hljómsveitin Vök kæmi fram 14. mars síðastliðinn en viðburðinum var frestað þar til opnar aftur vegna samkomubanns. Að jafnaði eru einir stórir tónleikar haldnir í kjallaranum á mánuði og þess má geta að Stúdentakjallarinn rukkar aldrei aðgangseyri á viðburði.

Nemendafélög fá afnot af staðnum

Þrátt fyrir að Stúdentakjallarinn sé með viðburði á sínum vegum eru það fyrst og fremst stúdentar sem móta dagskrána hverju sinni. Í HÍ eru starfandi um 80 nemendafélög og þau hafa öll aðgang að kjallaranum sér að kostnaðarlausu. Félögin geta bókað staðinn og fengið afnot af sviðinu og hljóðkerfinu, en kerfið var endurbætt í haust, meðal annars með styrk sem staðurinn hlaut úr Úrbótasjóði tónleikastaða á vegum Reykjavíkurborgar. Yfir skólaárið halda nemendafélögin til dæmis fjáraflanir, bingó, bíókvöld og barsvör (e. pub quiz) og nemendur í viðburðastjórnun við HÍ hafa skipulagt ýmsa viðburði. 

Matseðillinn í stöðugri þróun

Nokkrir réttir hafa verið fastir á matseðlinum frá því að Stúdentakjallarinn opnaði árið 2013 en aðrir hafa komið og farið. Seðillinn er tekinn til endurskoðunar einu sinni til tvisvar á ári og honum er breytt eftir þörfum. Eitt af því sem gerir kjallarann frábrugðinn öðrum veitingastöðum er að hann hefur mjög stóran fastakúnnahóp. Sumir fara þangað nokkrum sinnum í viku og því þarf að hrista oftar upp í hlutunum en á öðrum stöðum. Þá eru stúdentar ekki bara fjölmennur heldur líka fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir. Eftirspurn eftir vegan valkostum hefur til að mynda aukist verulega undanfarið og Félagsstofnun stúdenta hefur orðið við því bæði í Hámu og í Stúdentakjallaranum. 

Plöntuveggur á öðru tímabelti

Gróðurveggurinn er eitt helsta einkennistákn Stúdentakjallarans og mörgum er jafnvel farið að þykja svolítið vænt um hann. Hann var hannaður með það í huga að glæða niðurgrafinn og steyptan kjallarann lífi, en plöntur eru allra meina bót fyrir sálarlíf bugaðra stúdenta. Veggurinn er hollensk hönnun og býr yfir sérstöku úðunarkerfi sem sér til þess að gróðurinn fái jafna vökvun. Í haust var farið í viðhald á kerfinu og veggurinn blómstrar nú sem aldrei fyrr. Þrátt fyrir að allar plönturnar séu íslenskar má segja að þær lifi á öðru tímabelti, en á nóttunni fá þær alla þá dagsbirtu sem þær þurfa. Um er að ræða tímastillta kastara sem fara í gang eftir að opnunartíma lýkur. Það má því segja að dagurinn hefjist hjá plöntuveggnum þegar síðustu gestir kjallarans yfirgefa staðinn á kvöldin.

„Happy hour“ alla daga

Í Stúdentakjallaranum er mikil áhersla lögð á að halda verðlagningu í lágmarki. Þar er happy hour alla daga frá klukkan 16 til 19, um helgar til klukkan 21 og þegar íþróttaviðburðir eru sýndir á skjánum. Auk þess eru önnur tilboð í gangi alla daga og kvöld. Í raun má segja að verðlagningin sé almennt svo lág í Stúdentakjallaranum að hún jafngildi happy hour á öðrum veitingastöðum. Þá fá stúdentar alltaf afslátt af bjór á krana gegn framvísun stúdentakorts, en sem dæmi má nefna að Tuborg Green kostar 590 krónur á venjulegum degi gegn framvísun kortsins.

Opið allt árið um kring

Ólíkt flestum stúdentum og starfsfólki háskólans fer Stúdentakjallarinn ekki í sumarfrí. Meðan kennsla stendur yfir er opið alla daga vikunnar frá 11 til 23 en á fimmtudögum, föstudögum og laugardögum er opið til eitt. Yfir sumartímann er hefðbundinn afgreiðslutími nema þá er ekki opið jafnlengi um helgar. Aðsókn í Stúdentakjallarann á sumrin fer svolítið eftir hvað er í gangi hverju sinni. Þegar stórmót á borð við HM og EM eru í gangi er töluverður fjöldi stúdenta (og annarra) sem mætir og fylgist með landsleikjunum. Margir taka börnin sín með í kjallarann, bæði til að borða og fylgjast með íþróttaviðburðum, enda staðurinn vinsæll hjá fólki á öllum aldri. Í ljósi aðstæðna hefur EM karla í knattspyrnu 2020 verið frestað, en í sumar verða þó aðrir fjölbreyttir viðburðir á döfinni í Stúdentakjallaranum. 

Stúdentablaðið hvetur alla til að fjölmenna í Stúdentakjallarann eftir að samkomubanni verður aflétt, enda er staðurinn í eigu stúdenta og treystir á viðskiptavini sína til að geta haldið áfram því mikilvæga starfi sem þar hefur verið unnið síðastliðin ár.

Hægt er að fylgjast með dagskrá Stúdentakjallarans á Facebook: https://www.facebook.com/Studentakjallarinn/