Háskólafélag Amnesty International

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Stúdentablaðið/Stefanía Stefánsdóttir

Blaðamenn Stúdentablaðsins hittu Þórhildi Elísabetu Þórsdóttur, stofnanda Háskólafélags Amnesty International, og Dórótheu Magnúsdóttur, oddvita félagsins. 

Stofnun háskólafélagsins

Þórhildur greindi frá því hvernig hugmyndin að stofnun Háskólafélags Amnesty kom til. „Það hafði verið tiltölulega virkur kjarni í ungliðahreyfingu Amnesty til margra ára, sem þótti ótrúlega vænt um starfið. Það voru aðallega grunn- og menntaskólanemendur og því náttúruleg þróun að sá kjarni væri að færast yfir í Háskólann. Sá kjarni ákvað því að stofna Háskólafélag Amnesty.“ 

Umræðan mikilvægasti þátturinn 

Samkvæmt Dórótheu er sérstaða háskólafélagsins fólgin í upplýsingamiðlun til nemenda Háskólans um mannréttindi. „Starfsemi Háskólafélagsins snýst um að fræða almenning og háskólanema um mannréttindi sín þannig að fólk geti verið upplýst um stöðu mannréttinda í heiminum. Þar að auki erum við að vekja athygli á alls konar málum, þá sérstaklega hinsegin- og transmálum og safna undirskriftum.“ Þórhildur tekur undir með Dórótheu og bætir við: „Þetta eru grundvallarréttindi og fólk er ekki meðvitað um hvernig ástandið getur verið annars staðar.“ Þá bendir Þórhildur á hlutverk umræðunnar í þeirri vitundarvakningu sem er að eiga sér stað. „Mér finnst umræðan vera mikilvægasti þátturinn og við höfum verið að leggja áherslu á mikilvægi hennar.“

Tanngreiningar og fólk á flótta

Þann 11. mars gaf Háskóli Íslands út yfirlýsingu þess efnis að hætt yrði að stunda aldursgreiningar á fylgdarlausum ungmennum og börnum á flótta. Íslandsdeild Amnesty International hefur ekki tekið skýra afstöðu gegn tanngreiningum eins og er. Dóróthea greindi frá því hvernig Amnesty rannsakar slík mál og tekur afstöðu. „Amnesty er alþjóðleg hreyfing og öll mál sem koma á borð Amnesty þarf að rannsaka gífurlega vel áður en afstaða er tekin. Þetta tiltekna mál hefur ekki verið rannsakað hjá Íslandsdeildinni þar sem þetta er mjög nýlegt.“ Þórhildur bætir við að styrkur Amnesty felist í því að „koma á framfæri upplýsingum um þá þætti sem gætu tryggt flóttafólki vernd. Það er ekki beint í verkahring Amnesty að segja til um hvernig eitthvað eigi að vera gert.“ 

Íslandsdeild Amnesty International hefur verið að þrýsta á íslensk stjórnvöld til að taka upp framtak sem kallast „community sponsorship“, en það er verkefni sem gerir almennum borgurum kleift að hjálpa flóttafólki að koma sér fyrir í nýju samfélagi. Til dæmis hafa lönd á borð við Kanada, Bretland og Írland tekið upp slík verkefni með góðum árangri. Þórhildur segir að nú sé Amnesty á Íslandi að leggja til þessa leið með því að sýna stjórnvöldum og félagssamtökum hvernig þetta hefur tekist til annars staðar og hvetja þau til að skoða þennan möguleika. „Framtakið hefur það að leiðarljósi að efla samfélagið til að taka á móti flóttafólki. Í stað þess að einungis ríkið eða stofnanir eins og Rauði Krossinn komi að aðlögun flóttafólks er verið að reyna að fjölga úrræðum.“

Alþjóðlegra Háskólafélag

Talið barst að stöðu erlendra nemenda innan Háskólans en Háskólafélag Amnesty er ekki með skýra stefnu í þeim efnum fyrir utan það að gera félagið aðgengilegt öllum. Aðsókn erlendra nema á fundi hefur aukist í vetur og hefur félagið brugðist við með því að halda viðburði á ensku. „Það sem er svo frábært við Háskólafélag Amnesty er að við erum að fá til okkar erlenda nemendur sem voru virkir í háskólafélögum í sínum skólum, þannig að þau eru í umhverfi sem þau þekkja. Það væri ótrúlega gaman að efla þessa nemendur enn frekar. Þrátt fyrir að margir sýni áhuga er einhvern veginn ekki jafn mikil virkni og maður hefði viljað.“ Þá eru þær með einhverjar hugmyndir um hvernig efla megi starf Háskólafélagsins og gera það alþjóðlegra. „Það eru til dæmis ótrúlega flottir möguleikar til að tengja betur saman háskóla á alþjóðavísu,“ segir Þórhildur. 

Kyn- og frjósemisréttindi

Að sögn Þórhildar hafa mál tengd kyn- og frjósemisréttindum spilað mjög stórt hlutverk hjá Amnesty International síðastliðin sex ár og Dóróthea tekur undir. „Á síðasta ári kom út skýrsla sem var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og fjallaði um aðgerðir innan heilbrigðiskerfisins sem varða fólk sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni (e. intersex).“ Háskólafélagið vakti athygli á umfjöllunarefni skýrslunnar í mannréttindavikunni í fyrra. „Við kynntum skýrsluna í mannréttindavikunni í fyrra og vorum með borð á Háskólatorgi. Þannig gátum við vakið athygli á umfjöllunarefni skýrslunnar og frætt fólk um stöðu mála. Við viljum endilega halda áfram að vekja athygli á málum sem þessum og stefnum á að kynna fyrir fólki annað mikilvægt mál sem gengur út á að fá transteymið aftur inn á BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landsspítalans).“

Á döfinni hjá Háskólafélaginu

Í lok mars verður kosið í stjórn Háskólafélags Amnesty. Hún mun taka við verkefnum núverandi stjórnar og skipuleggja viðburði á komandi skólaári. Á seinasta ári skipulagði þáverandi stjórn fyrstu mannréttindaviku Háskólafélagsins. „Mannréttindavikan var skemmtilegur viðburður sem heppnaðist gríðarlega vel og viljum við gera hana að árlegum viðburði,“ segir Dóróthea. Nú á dögunum stóð til að halda mannréttindaviku en þurfti því miður að blása hana af vegna samkomubanns. 

Í sumar fara fram nokkrar ráðstefnur tengdar mannréttindum sem háskólanemar geta sótt. „Á ráðstefnum sem þessum kynnist maður öðrum aðgerðasinnum og myndar tengslanet. Maður lærir líka að skipuleggja aðgerðir og hlusta á fyrirlestra. Þessi þekking nýtist svo í aðgerðum hérna heima,“ segir Dóróthea. Þórhildur bætir við að aldursviðmiðið sé í flestum tilfellum í kringum 16 til 25 ára. „Fyrri reynsla úr Amnesty er ekki nauðsynleg en maður skuldbindur sig til að nýta það sem maður lærði úti í starfinu hér heima.“

Opnara, skemmtilegra og lýðræðislegra háskólasamfélag

Talið barst að háskólasamfélaginu og eru þær sammála um að miklar framfarir hafi átt sér stað á seinustu árum hvað varðar þátttöku stúdenta í félagsstörfum. „Hugmyndin um að nemendur geti stigið fram og myndað sín eigin félög út frá áhugaefnum sínum finnst mér svo ótrúlega mikil bót fyrir íslenskt háskólasamfélag. Þessi kynslóð er að rísa upp og einstaklingar eru að berjast fyrir málefnum sem þeim er annt um og krefjast úrbóta, hvort sem það eru loftslagsmál, mannréttindamál eða eitthvað annað. Til dæmis stofnuðu asískir nemendur við háskólann nú á dögunum háskólafélagið Asian Student Union. Þetta er svo frábær þróun. Að gera háskólasamfélagið opnara, skemmtilegra og lýðræðislegra er bara minn draumur,“ segir Þórhildur.