Jafnrétti í kennsluskránni

Í tilefni af þema Stúdentablaðsins, jafnrétti, gerði blaðið stutta og óformlega könnun á samfélagsmiðlum sínum í byrjun mars. Könnuð voru tvö atriði: í fyrsta lagi vilji nemenda til þess að læra meira um konur í námi sínu og í öðru lagi vilji til þess að lesa meira eftir konur, hvort sem það væru fræðigreinar eða skáldsögur og ljóð. Gert var ráð fyrir því fyrir fram að meirihluti vildi læra meira um konur og lesa meira eftir konur. Sú forspá gekk eftir og voru niðurstöðurnar mjög afgerandi.

Þar sem kannanirnar voru óformlegar eru þær vitanlega líka nokkuð ónákvæmar en tölurnar tala samt sínu máli. Nær allir sem kusu vildu að efni um eða eftir konur væri stærri hluti af námi sínu.

Jafnrétti í kennsluskránni er vitanlega margþætt. Í fyrsta lagi má velta fyrir sér kynjum kennara. Ef nær allir kennarar námskeiða væru karlkyns fælist lítið jafnrétti í því. Í öðru lagi má velta námsefninu fyrir sér. Annars vegar hvort þau bókmenntaverk, þær kenningar og stefnur og sögulegu umfjallanir sem lesnar eru og stúderaðar, séu eftir konur eða fjalli um konur. Hins vegar hvort fræðileg umfjöllun um það efni sé eftir konur.

Námsgreinar eru vitanlega misjafnar og það má ímynda sér að skortur á nærveru kvenna innan þeirra birtist á ólíkan hátt. Kannski er það ekki svo í sumum greinum að það halli á konur. Sem nemandi á hugvísindasviði þekki ég þó einungis birtingarmyndir þaðan. Námsgreinin mín, fornfræði (latína og gríska) hefur verið gagnrýnd í áraraðir fyrir að snúast einungis um gamla hvíta, dána karla enda lítið jafnrétti í því.

Þegar ég var í menntaskóla skrifaði ég stutta grein í eitt af skólablöðunum þar sem ég hafði skoðað helstu greinarnar þar sem lesin voru bókmenntaverk og tekið saman hversu mörg prósent lesinna verka voru eftir konur. Hversu margar af smásögunum í smásöguheftinu voru eftir konur? Hversu mörg ljóð? Fögin komu misvel, eða raunar frekar mis illa, út. Sérstaklega er mér minnisstætt hvað enska var með fá verk eftir konur,  mig minnir um einn tíunda. Fornfræði kom þó alverst út en hlutfall verka eftir konur þar var 0%. Þegar ég nefndi þetta við einhvern kennarann þá var hann allur af vilja gerður en sagði jafnframt að það væru ákveðin vandkvæði, nefnilega kanónan en hana þyrfti að dekka.

Sums staðar má taka sérstaka kúrsa sem er ætlað að vega upp á móti karlaslagsíðu kennsluskrárinnar. Það má velta því fyrir sér hvort sú lausn sé æskileg. Kanónan er svo innprentuð í mann að ef ég persónulega ætti að velja á milli tveggja kúrsa þar sem annar væri einungis um konur, sem kannski væru lítt þekktar, og hinn um fræga höfunda sem mér fyndist ég verða að þekkja, er ég ekki viss hvorn kúrsinn ég myndi velja. Það gæti vel verið að ég myndi sjálf frekar velja kúrsinn um kanónuna. Kannski myndu margir aðrir hugsa eins. Ég veit ekki hvort lausn á þessum vanda felist í því að búa til kanónu númer tvö þar sem konur ráða ríkjum. Ég ímynda mér að betri langtímalausn gæti verið að gera breytingar á þeirri kanónu sem er þegar til staðar - en slíkar breytingar hafa auðvitað þegar gengið yfir að einhverju leyti. Það má hins vegar ekki vera þannig að „kvótinn“ sé uppfylltur þegar búið er að velja nokkrar konur sem þykja nógu frægar til þess að fá pláss í kanónunni. Öllu heldur mætti líta svo á að með því að draga fram lykilkonur sé verið að skila þeim sínu réttmæta plássi þar.

Ráðning á línuletri B byggði að miklu leyti á vinnu bandarísku fræðikonunnar Alice Kober.

Ráðning á línuletri B byggði að miklu leyti á vinnu bandarísku fræðikonunnar Alice Kober.

Grein eins og fornfræði gæti virst nokkuð dauðadæmd hvað þetta varðar. Því miður eru nær öll varðveitt skrif frá fornöld eftir karla (Saffó er helsta undantekningin) og það sem hefur varðveist eftir konur er í litlu magni. Í Róm á til dæmis að hafa verið uppi kona sem hét Sulpicia og eftir hana liggja örfá ljóð. Fyrst þau eru svona fá, er þá ekki enn minna mál að bæta þeim við „kanónuna,“ sem við sjálf höfum vald til þess að móta?

Hvað varðar fræðimenn seinni tíma, voru það karlar sem gerðu merkilegar uppgötvanir. Enda erfitt að gera slíkt nema þú hafir aðgang að menntakerfinu. Að baki þessum uppgötvunum karla má þó oft sjá mikla vinnu kvenna. Mér dettur í hug fræg uppgötvun innan fornfræðinnar, ráðning hins breska Michael Ventris á línuletri B árið 1952. Í áratugi höfðu fræðimenn reynt að ráða letrið sem fannst á leirtöflum á Krít og Grikklandi. Allar götur síðan hefur Michael Ventris verið mjög frægur. Hins vegar hefur minna verið talað um að það var að mörgu leyti þrotlaus nákvæmnisvinna bandarísku fræðikonunnar Alice Kober sem leiddi til ráðningarinnar, en Ventris byggði á henni.

Dæmin hér eiga jafnt við um aðrar greinar. Í mörgum þeirra ætti jafnvel að vera auðveldara að draga fram mikilvægar konur og efni eftir þær, þar sem af meiru er að taka. Stúdentar hafa í sögunni oft verið það afl innan samfélagsins sem kemur breytingum af stað. Vilji þeirra í þessu máli er mjög skýr. Það er bæði gaman og áhugavert að læra um efni eftir konur - og líka nauðsynlegt. Kannski þarf aðeins að ýta við kennurunum til þess að þeir átti sig á því að það er jafnframt gaman að kenna það.