Sókrates var fyrsti áhrifavaldurinn

Við erum almennt frekar týnd í lífinu. Sem betur fer er til fólk sem líta má upp til, sjá hve miklu betur því gengur og svo herma eftir því. Þetta getur verið hver sem er ef aðilinn heldur úti frábærri Instagram-síðu. Þetta fólk kallast áhrifavaldar. Við sem meðalmanneskjur höfum ekki áhrif á nema stöku hræðu í okkar nærumhverfi en svo er til fólk sem hefur híft upp um sig buxurnar og sinnir lífstíl áhrifavaldsins af einskærri fagmennsku. Til þessarar elítu má, meðal annarra, telja Patrek Jaime, Sunnevu Einars og Kardashian fjölskylduna en í fylgjendahópum þeirra má finna aragrúa alþýðulýðs úr öllum heimshornum. Maður nokkur sem mörg gleyma ef til vill, hvers áhrifavald var svo mikið meðal almennings að yfirvöldum stóð stuggur af, var Sókrates, fyrsti áhrifavaldurinn, sem var svo langt á undan sínum samtíma að hann var næstum því á morgun.

Í samræðum Platóns birtist Sókrates okkur sem geðprúður sérvitringur. Það þýðir þó ekki að hann hafi ekki „beef-að“ við mann og annan. Í Gorgíasi segir Platón okkur frá rifrildi Sókratesar við hóp sófista. Fremstur þeirra var Pólos, nemandi Gorgíasar, en hann var á vissan hátt Kim K síns tíma. Sókrates var þá auðvitað Taylor Swift í þessu samhengi en á milli þeirra var gríðarmikið „beef“ þó báðir væru á ketó. Umfjöllunarefni þessa rifrildis var eðli ræðumennskunnar, hvort hún væri iðn eða kúnst, en það var einungis liður í löngum deilum Sókratesar og sófistanna. Síðari tíma fræðimenn og leikskáld (Aristófanes þeirra á meðal) töldu að Sókrates hefði sjálfur þegið laun fyrir fræðakennslu, þrátt fyrir að hann hefði reglulega gagnrýnt Sófistana fyrir það. Það væri þá náttúrulega ekkert nema hræsni, sambærileg því að áhrifavaldur nútímans auglýsti „sponsoreraðar“ vörur en upplýsti ekki um það. 

Sjálfur mælti Sókrates gegn duldum auglýsingum í Lakesi þar sem hann færði rök gegn því að herþjónusta yrði gerð að hluta framhaldsnáms. Andmælendur hans voru herforingjarnir Níkías og Lakes auk annarra. Sókrates staðsetur sig þar skýrt sem miðstóran áhrifavald, þ.e. hann hefur ekki sama áhrifavald og stórfyrirtæki á borð við Marvel Studios (sem hefur starfað náið með bandaríska hernum síðustu áratugi) en hann er vissulega á þeim stað að hann getur andmælt hernaðaryfirvöldum fullum hálsi. Svo fór þó að Sókrates var tekinn af lífi fyrir að andmæla herforingjastjórn hinna 30 einráða og lýðræðisstjórninni sem fylgdi og má bera það saman við hvernig John Cena var eitt sinn neyddur til að birta langa afsökunarbeiðni til kínversku þjóðarinnar eftir að hann ýjaði að því að Taívan væri sjálfstætt ríki.

Einn þessara 30 einráða var Krítías sem er einmitt viðmælandi Sókratesar í samnefndu verki. Í Krítíasi rekur Platón söguna af tilurð, viðgangi og endalokum hinnar goðasagnakenndu borgar Atlantis. Sú saga er önnur útgáfa af hamfaraflóðssögunni sem rekin er í Biblíunni, Þeógóníu Hesíódosar og fleiri ritum en orsökin er alltaf sú sama: spilling mannkyns. Þetta er auðvitað ekkert annað en þegar áhrifavaldar tala fyrir heilbrigðari lífsstíl, náttúruvernd og því að vera góður við dýrin. 

Sókrates var í raun það sem væri nú til dags kallað lífsstílsgúrú. Hann var hlynntur ákveðnum lífsstíl og líkt og margar TikTok-stjörnur var hann óhræddur við að dreifa hugmyndum sínum. Hann trúði á alheimsbylgjurnar sem ráða lífi okkar allra, líkt og stjörnuspekingar nútímans, og má segja að birtingarmynd þessa sé helst í Lýsis þar sem hann færir rök fyrir því að tveir menn geti einungis verið vinir, séu sálir þeirra sambærilegar. Samstarf tveggja áhrifavalda geti sömuleiðis aðeins borið árangur ef báðir hafa lík vörumerki, líkt og áhrifavaldasamstarfið Áttan. Sömuleiðis sagði hann að við mannkynið værum bara mismunandi, ófullkomnar birtingarmyndir hinnar fullkomnu frummyndar mannsins. Sálin sé millivegur þessara tveggja forma en líkaminn geymsluhólkur sem líkja má við ryðgaðan gám. Fyrir Sókratesi var þó ekki hugsanlegt að leyfa líkamanum að grotna niður heldur skyldi rækta dauðlegan líkamann og eilífa sálina til jafns. Um það má finna fjölda dæma: 

  1. Í Karmídesi talar Sókrates um sjálfstjórn (σωφροσύνη, sofrosyne) sem er á margan hátt sambærileg sjálfstjórninni sem er nauðsynleg á ketó.

  2. Fátt var Sókratesi mikilvægara en núvitund, eins og kemur skýrt fram í Þeætetosi þar sem Sókrates veltir fyrir sér þekkingu og skynjun. Í þessu samhengi má nefna að hann lætur það sig varða hvernig hugmyndum hans er tekið (brandið skiptir öllu máli) og að rökfærslu þurfi að fylgja stuðningur (pic or it didn’t happen).

  3. Hann var að auki talsmaður mínímalísks lífstíls eins og vel sést í Fílebusi. Þar er hann greinilega orðinn eldri og farinn að minnka við sig eins og Pewdiepie.


Áhrifa Sókratesar gætti mjög á hans eigin tíma. Í Menóni færir Sókrates rök fyrir því að viskan sé meðfædd en það gerir hann með því að beita ræðumennskubragði sem jafnan er kallað sókratíska aðferðin eða hnekking (ἔλεγχος, elenkos). Hún felst í því að leiða andstæðinginn í rökleysu þar sem eina leiðin út er að viðurkenna gildi raka andstæðingsins. Þessari aðferð er enn beitt af stjórnmálafólki, viðskiptafólki og öðrum áhrifavöldum en hvað kallar maður áhrifavald sem hafði áhrif á alla áhrifavalda sem á eftir komu? Jú, fyrsta áhrifavaldinn.

Öll gerum við mistök, en þegar áhrifavaldar gera mistök hafa öll og amma þeirra skoðanir á því og áhrifavaldurinn þarf að koma með afsökun. Þegar Sókrates var dæmdur fyrir guðlast og spillingu á aþenskum ungmennum flutti hann ræðu sér til varnar. Sú ræða, sem hlotið hefur hið mjög svo viðeigandi nafn Varnarræða Sókratesar, er mjög svo sambærileg afsökunarbeiðnum sem YouTube-arar nútímans senda reglulega frá sér, s.s. Logan Paul eftir að hann birti myndband af sér í spássitúr í japönskum skógi fullum af líkum eða Pewdiepie eftir að hann greiddi indverskum skemmtikrafti fimm dollara fyrir að endurtaka orðflutning nasista um fjöldamorð gegn gyðingum. En líkt og margir áhrifavaldar nútímans baðst Sókrates ekki afsökunar heldur hélt hann því fram að hann ætti þakkir skilið fyrir þjónustu sína við samfélagið og að hann hefði ekki gert neitt rangt.

SjónarmiðGuest User