Leiðarvísir að umhverfislega ábyrgu sumri

Þýðing: Karitas M. Bjarkadóttir

Grafík: Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir

Grafík: Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir

Það er sumar. Það er frí. Aumingja þreyttu og kvíðnu heimsfaraldurssálirnar okkar þrá ekkert heitar en „venjulegt“ og afslappandi sumar. En það er víst ekki hægt að flýja skerið til að drekka í sig Miðjarðarhafssólina þetta árið. Jafnvel þó við minnkum kolefnissporið okkar sjálfvirkt með því að fljúga ekki, þýðir það ekki að við getum setið með hendur í skauti!

Þar sem við viljum öll moða það besta sem hægt er úr þessu heima-sumarfríi langar mig að deila með ykkur þessum leiðarvísi að umhverfislega ábyrgu sumri. Nokkur góð ráð og hugmyndir að hlutum til að gera sem svala sumarstemningarþörfinni sem sækir að okkur þegar við erum einhvers staðar þar sem er allt of heitt á allt of troðinni strönd.

Heimafrí fyrir heimsfrí: Nauthólsvík

Farðu á hjóli eða tveimur jafnfljótum í smá ferð til Nauthólsvíkur, gullstrandarinnar í norðri, og njóttu heitu pottanna, sjávarins, upphitaða lónsins og gufubaðsins (ég get fullvissað þig um að þetta úrval er ekki að finna á hinni almennu Spánarströnd). Til að fullkomna sólarfrísfílinginn er upplagt að sólbrenna aðeins! Ég mæli eindregið með: 10/10

Ísferð á sumarkvöldi

Farðu í uppáhaldsísbúðina þína að kvöldlagi, alveg eins og í gamla daga. Fáðu þér allt besta nammið og þyrlaðu því upp í dásamlega kaloríubombu. Það er öllum sama um „bikinílíkama“ í heimsfaraldri. (ATH: auðvitað eru allir líkamar „bikinílíkamar“.) Ef þú vilt vera extra umhverfisvænt er tilvalið að koma með fjölnota mál að heiman eða fá þér ís í brauði. Fuglar, fiskar og skjaldbökur sjávarins munu þakka þér fyrir það. 

Hvíldu þurrkarann

Á praktísku nótunum: Þurrkaðu fötin þín úti og leyfðu þurrkaranum, og rafmagnsreikningnum þínum, að hvílast aðeins. Ég get lofað þér því að fötin muni ilma eins og sumardagur! 

Fjallaævintýri

Ertu meiri fjallafrítýpa? Ekki málið. Það er úr nógu að velja þegar kemur að gönguleiðum á höfuðborgarsvæðinu til að svala flakkaraþorstanum. Esjan, Úlfarsfell, Helgafell - þarf að segja eitthvað fleira? Ef þú hefur áhuga á þeim gönguleiðum er um að gera að finna til fyrsta tölublað Stúdentablaðsins þetta skólaárið og lesa meira um þær þar!

Er gott útsýni ekki alveg nóg til að koma þér af stað? Gakktu þá að heitu ánni í Reykjadal í Hveragerði og baðaðu þig í henni eins og vatnadís. Enn betra ef það er bjór með í ferðinni! (Mundu samt að taka allt ruslið þitt, við viljum ekki ergja álfana!). Strætó númer 51 og 52 geta ferjað þig að svæðinu!

Grillsumarið mikla!

Grilllyktin: Þessi eina sanna sumarlykt sem loðir við hverfið og smeygir sér inn um opna glugga. Það eru til ógrynnin öll af umhverfisvænum kostum til að skipta kjöti út fyrir. Grillað grænmeti með hvítlauksbrauði og bulsum eða grænmetisborgurum er alltaf góð hugmynd! Áttu ekki grill? Ekki málið. Það eru mörg útigrillsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Hljómskálagarðurinn, Heiðmörk og Klambratún eru fáein þeirra! Taktu með þér kol og gómsætan mat og sparaðu þannig óþarfa sóun sem fylgir einnota grillum!

Glímt við þjóðveginn

Það gefur auga leið að bílferðir og útilegur eru hin einu sönnu sumarplön á Íslandi. Að keyra um eyjuna og skoða eins mikla náttúru og mögulegt er og eyða svo nóttinni í tjaldi undir miðnætursólinni - þetta er hið sanna, íslenska sumar! Það er alvitað að bílar eru ekki umhverfisvænasta uppfinning veraldar. Þess vegna er upplagt að vera í bílasamfloti við vini sína til að spara að minnsta kosti smá CO2! Heyrðu í vinum þínu, troddu fólkinu í einn bíl og njóttu í botn!

Baðaðu þig í sumarvíbrunum niðri í bæ

Farðu niður í bæ og svelgdu í þig svölum bjór á björtu kvöldi. Láttu það eftir þér að njóta hamingjunnar og sumarsorgarinnar sem umlykur allt fólkið í kringum þig sem voru, rétt eins og þú, föst í myrkri í næstum hálft ár. Þú átt það skilið!

D-vítamínið bætir og kætir

Blástu lífi í kroppinn með smá D-vítamíni, hinu eina sanna sumarþarfaþingi! Það er gott fyrir hvort tveggja hugann og sálina. Mundu samt að setja á þig sólarvörn, þá helst umhverfisvæna sólarvörn með steinefnavörn - afþakkaðu míkróplast!

Bless, bless, míkróplast

Talandi um míkróplast, slepptu plastflöskunni þinni og finndu þér frekar umhverfisvænni málm- eða glerflösku fyrir vatnið þitt. Þú forðar ekki einungis líkamanum þínum frá því að innbyrða míkróplast heldur minnkarðu líka plastið í þágu Jarðarinnar og allra lífvera hennar!