„Kynhneigð er ekki það sem þú gerir heldur hvernig þér líður“

Viðtal við Reyn Alpha

Reyn Alpha er tölvunarfræði- og kynjafræðinemi við Háskóla Íslands. Hán er einnig ritari Q-félagsins og situr í stjórn Trans Íslands. Stúdentablaðið ræddi við hán um hvað það þýðir að vera eikynhneigt, mýtur tengdar hugtakinu og þau úrræði og samtök sem eru til staðar fyrir fólk sem skilgreinir sig sem eikynhneigt.

Hvernig myndir þú útskýra eikynhneigð fyrir þeim sem ekki þekkja hugtakið?

Eikynhneigt fólk er fólk sem laðast lítið eða ekkert kynferðislega að öðru fólki. Þetta er líka regnhlífarhugtak yfir minni hópa, t.d. demisexual og það sem er kallað graysexual yfir fólk sem er þarna einhversstaðar á milli. Í grunninn, ef manneskja skilgreinir sig sem eikynhneigða án annarra undirskilgreininga þá laðast viðkomandi ekki kynferðislega að neinum. 

Hvað er demi? 

Demisexual eða demi fólk er fólk sem laðast bara kynferðislega að öðrum ef það hefur einhver tilfinningaleg tengsl við það nú þegar eða er búið að kynnast því. Þau geta verið vinir eða tengst á einhvern annan hátt. 

Er hægt að laðast að einhverjum á rómantískan hátt en ekki kynferðislegan hátt?

Fólk sem laðast lítið eða ekkert að öðru fólki á rómantískan hátt fellur undir það að vera eirómantískt. Því er oft hópað saman með eikynhneigð þó það sé sitthvor hluturinn. Þessir hópar eiga oft mikið sameiginlegt og nota sambærilegar skilgreiningar á mismunandi útfærslum af sinni kynhneigð. Alls ekki allt eikynhneigt fólk er eirómantískt en það er nokkur skörun, margt fólk er bæði. 

Hefurðu alltaf vitað að þú værir eikynhneigt? 

Það tók ansi langan tíma miðað við fólkið í kringum mig. Ég komst að því þegar ég var að verða átján ára. Það var vegna þess að ég heyrði þá í fyrsta skipti um hugtakið „kynferðisleg aðlöðun“ því ég vissi ekki að það væri til. Það er aldrei talað beinlínis um það frá grunni eða útskýrt hvað það er, það er einfaldlega alltaf gengið út frá því að fólk hafi upplifað það. Það er auðvitað erfitt að útskýra tilfinningar en það er hægt að lýsa því þannig að fólk hafi einhverja hugmynd um hvað kynferðisleg aðlöðun felur í sér. 

Vissirðu þá af hugtakinu eikynhneigð?

Ég vissi af hugtakinu og sá það fyrst þegar ég var tólf ára. Það meikaði bara ekki sens fyrir mér af því að ég skildi ekki hvað það þýddi. Í raun og veru skildi ég ekki heldur hvernig fólk bara vissi kynhneigðina sína almennt, hvernig það vissi að það væri samkynhneigt, gagnkynhneigt, tvíkynhneigt eða hvað sem er. Ég skildi ekki hvað kynhneigð var eða hvað hún þýddi. 

Fólk á erfitt með að gera greinarmun á kynhneigð og kynhvöt. Þetta er sitthvor hluturinn en því er oft blandað saman í allri umræðu. Það er gjarnan ekki tekið tillit til þess að fólk geti haft kynhvöt án þess að laðast að neinum. 

Finnst þér eikynhneigð vera oft misskilin í umræðunni?

Já, mjög. Fólk heldur gjarnan að þetta sé læknisfræðilegt, t.d. einhver hormónavandi sem þurfi að laga. Þá tengir það við óeðlilega lága kynhvöt eða eitthvað svoleiðis sem það vill meina að sé vandamál. Þetta þarf alltaf að vera vandamál. Við eigum svo rosalega bágt. 

Hvaða mýtur eru í gangi um eikynhneigð? Hlutir sem fólk heldur fram sem er ekki raunin?

Ég hef fengið að heyra það að þetta sé ekki til, að þetta sé ekki hægt. Hreinlega verið gefið í skyn að ég sé að ljúga um þetta. Fólk heldur því fram að það sé ónáttúrulegt og heldur frammi einhverjum eðlishyggjuskýringum. Hefur áhyggjur af fjölgun mannkyns eða eitthvað. Sumt fólk getur ekki ímyndað sér að það sé hægt að lifa án þess að laðast kynferðislega að öðrum. Þrátt fyrir að viðkomandi fólk sé gagnkynhneigt og viti það vel hvernig það er að laðast ekki að fólki af eigin kyni en það sama fólk getur ekki yfirfært það á allt saman eða öll kyn. Önnur mýta er að eikynhneigt fólk sé alveg tilfinningalaust og geti ekki átt í nánum samböndum við annað fólk. Sum halda að eikynhneigð sé skírlífi en það tengist því ekki neitt, eikynhneigt fólk þarf alls ekki að lifa neinu skírlífi, langt því frá. 

Það er til eikynhneigt fólk sem stundar kynlíf, það er engin líkamleg ástæða fyrir því að það gæti það ekki. Auðvitað er það misjafnt, ekki allt eikynhneigt fólk hefur kynhvöt, en stór hluti þess hefur hana. Það getur gert það fyrir makann sinn eða bara af því að þeim líkar við tilfinninguna. Það er líka alveg hægt að gera hluti án þess að hafa sérstaka eðlislæga hvöt til þess. Það dregur ekki úr eikynhneigð fólks að hafa stundað kynlíf með öðrum. Kynhneigð er ekki það sem þú gerir heldur hvernig þér líður. Til dæmis þá hættir hommi ekki að vera hommi þó hann sé giftur konu. 

Hvaða samtök eru til fyrir eikynhneigt fólk? Hvar er hægt að fræðast um eikynhneigð?

Ég vil benda á félagið Ásar á Íslandi. Þau eru með eitthvað starf og halda stundum opið hús hjá Samtökunum ‘78. Ég hef sjálft ekki verið virkt í því en það stendur fólki til boða og það er gott að geta fundið sér samfélag. Samtökin ‘78 eru svo með einstaklingsráðgjöf hjá fagaðilum sem vita hvað þau eru að tala um og taka hinseginleika fólks sem sjálfsögðum hlut. Svo er hægt að lesa sér til um alla króka og kima hinsegin samfélagsins á vefnum Hinsegin frá Ö til A.