„Við eigum öll erindi í umhverfisumræðuna“: Viðtal við formann Ungra umhverfissinna, Tinnu Hallgrímsdóttur

Undanfarin ár hefur loftslagskvíða borið mikið á góma í samfélagsumræðunni en honum hefur verið lýst sem tilfinningu sem felur í sér kvíða, áhyggjur eða óvissu vegna hamfarahlýnunar. Rannsóknir sýna að loftslagskvíði hrjáir ungt fólk sérstaklega og eflaust kannast margir lesendur vel við hugtakið eða hafa jafnvel upplifað tilfinninguna á eigin skinni. Loftslagskvíði getur leitt til bjargarleysis eða ollið því að ungu fólki líði eins og ábyrgðin hvíli öll á þeirra herðum, þó að sú sé ekki raunin. En hvað er þá til bragðs að taka þegar við finnum fyrir loftslagskvíða – og hvert getum við leitað? 

Stúdentablaðið ræddi við Tinnu Hallgrímsdóttur, formann Ungra umhverfissinna, um loftslagskvíða, aktívisma og hvernig megi láta gott af sér leiða í umhverfismálum. 

Mynd: Mandana Emad

Ungt fólk óttist um framtíð sína

Umhverfismál snerta framtíð okkar allra og því er ekki að undra að þau séu meðal þeirra málefna sem eru efst á baugi hjá ungu fólki. Í gegnum starf sitt hjá Ungum umhverfissinnum hefur Tinna orðið vör við að mörg þjáist af loftslagskvíða, allt niður í börn á grunnskólaaldri. „Við sjáum að ungt fólk mætir hvern einasta föstudag á loftslagsverkfall af því að þau óttast um framtíð sína og vilja bæta hana. Þetta er málefni sem ungu fólki er mjög umhugað um.“ 

Ábyrgðin hjá stjórnvöldum, fyrirtækjum og fjármagnseigendum

Loftslagskvíða fylgir oft ráðaleysistilfinning: okkur líður eins og við séum ekki nógu umhverfisvæn eða að framlag okkar skipti ekki máli. Þegar við upplifum slíkt bjargarleysi getur verið hjálplegt að tala við aðra sem deila sömu áhyggjum eða taka þátt í skipulögðu félagsstarfi á borð við Unga umhverfissinna. Þá er líka mikilvægt að muna að ábyrgðin liggur ekki einungis hjá einstaklingnum heldur einnig hjá stjórnvöldum, fyrirtækjum og fjármagnseigendum. Tinna leggur áherslu á þetta. „Ef öll orkan fer í að hugsa um eigin neyslu þá náum við ekki að krefjast alvöru breytinga. Hagsmunagæsla skiptir miklu máli, til dæmis í gegnum pólitískar hreyfingar eða frjáls félagasamtök eins og Unga umhverfissinna. Svo er líka hægt að hafa áhrif með því að láta í sér heyra á samfélagsmiðlum, skrifa greinar eða senda inn umsagnir um frumvörp sem lögð hafa verið fram á Alþingi í gegnum Samráðsgáttina.“ Þetta er ekki síður áhrifamikið en það að breyta eigin lífsstíl. „Fólki þarf ekki að líða eins og heimurinn sé að farast ef lífsstíllinn þeirra er ekki hundrað prósent umhverfisvænn. Við þurfum ekki að dömpa allri ábyrgðinni yfir á okkur sjálf. Það sem skiptir máli er að hafa áhrif út fyrir okkur.“ 

Þarf ekki að vera doktor í umhverfisfræði til að mega hafa skoðun

Tinna hvetur öll sem hafa áhuga á umhverfismálum eða þjást af loftslagskvíða til að vera óhrædd við að láta í sér heyra. „Það sem stoppar ungt fólk – og sérstaklega ungar konur – frá því að beita sér í umhverfismálum er oft að því finnst eins og það þurfi að vera sérfræðingar í faginu til þess að mega tjá sig. En það er bara alls ekki svoleiðis. Við erum unga fólkið og eigum rétt á því að láta í ljós hvað okkur finnst um eigin framtíð. Það þarf ekki að vera doktor í umhverfisfræði til að mega hafa skoðun. Við eigum öll erindi í umhverfisumræðuna.“ 

Öll geta tekið þátt 

Starfsemi Ungra umhverfissinna er margvísleg og oft er í mörgu að snúast. Verkefnin eru fjölbreytt og þá er gott að hafa sem flestar hendur á dekki. „Það þarf auðvitað einhvern til að standa uppi á sviði og fara í viðtöl en svo þarf líka einhvern til að forrita heimasíðuna, hanna grafíkina, sjá um þýðingar og yfirlestur á texta, leita að heimildum og svo framvegis. Þannig getum við öll tekið þátt í baráttunni á okkar eigin hátt.“ Ungir umhverfissinnar leggja mikla áherslu á aðgengi og Tinna segir öll velkomin í félagið. „Við hvetjum öll sem hafa minnstan áhuga á því að taka þátt að vera óhrædd við að hafa samband. Það má alltaf leita beint til okkar með spurningar eða hverskonar pælingar.“

Á vegum Ungra umhverfissinna starfa loftslagsnefnd, náttúruverndarnefnd, hringrásarhagkerfisnefnd og kynningar- og fræðslunefnd. Starf Ungra umhverfissinna fer að mestu leyti fram í gegnum þessar nefndir. Í þær geta öll skráð sig en skráning í félagið fer fram á vefsíðu Ungra umhverfissinna. „Það er best að skrá sig til þess að taka þátt í starfinu beint en það tekur þrjár sekúndur og kostar ekki neitt. Við erum með heimasíðu þar sem hægt er að fylgjast með en starfið fer að mestu leyti fram í gegnum nefndirnar. Þú mátt taka þátt í hvaða nefnd sem þú vilt og hverju því sem er í gangi.“ 

Mikilvægt að finna jákvæðan vettvang fyrir kvíðann

Tinna situr nú í fjórða árið í röð í stjórn Ungra umhverfissinna. Hún segir mikilvægt að við finnum okkur jákvæðan vettvang fyrir þær tilfinningar sem við upplifum vegna loftslagskvíða. „Þá skiptir máli að tala við fólkið í kringum sig og byrgja þessar tilfinningar ekki inni.“ Ungum umhverfissinnum sé einmitt ætlað að vera samfélag þar sem hægt sé að ræða þennan vanda og hafa áhrif á ástandið í sameiningu. Tinna segir mikils virði að fylgjast með árangrinum og finna að man geti haft áhrif. „Þetta er bara svo magnað. Bæði það að geta haft áhrif á samfélagsumræðuna og líka að fá að tala við ungt fólk og valdefla það. Þegar þú ert byrjað og finnur að þú ert í alvörunni að hafa áhrif á marga vegu þá er bara ekki hægt að hætta, þetta er svo gaman.“