Hvernig forréttindi drepa fjölbreytni

Þýðing: Þórunn Halldórsdóttir

Ég vil nálgast efni þessarar greinar út frá tveimur hliðum: innviðaþættinum og einstaklingshyggjunni. Innviðaþátturinn er sá sem er byggður upp innan kerfisins og umlykur oft líf okkar án þess að við hugsum um það. Einstaklingsþátturinn er þar sem allir koma með eitthvað að borðinu, jafnvel þó þeir geri það ómeðvitað. Að þessu sögðu kynni ég hér hvernig forréttindi eyðileggja hugsanlegan fjölbreytileikann.

Forréttindi innviða

Forréttindi innviða byggjast á félagslegum viðmiðum hvers menningarkerfis. Fólk innan umrædds kerfis hefur meira menningarlegt auðmagn („virði“) en aðrir, en það fer eftir hvaða eiginleikum kerfið aðhyllist. Í stærra samhengi nútímasamfélags okkar veitir kapítalismi (sem er kerfið sem við rekum í miklum mæli) meira félagslegt vald og „virði“ til fólks sem er ríkt. Þetta þýðir sjálfkrafa að talið er að ríkt fólk hafi meira menningarlegt auðmagn og þess vegna fleiri skoðanir á því hvernig heimurinn virkar.

Þetta getur sjálfkrafa af sér minni fjölbreytni. Ef ríkt fólk hefur meira að segja um hvernig samfélagið starfar, leiðir það sjálfkrafa til þess að ákveðin viðhorf og aðstæður eru teknar fram yfir aðrar. Venjulega eru áðurnefnd „önnur“ viðhorf og aðstæður (sem eru þau sem almenningur sér ekki eða heyrir) raunveruleiki og óskir fátækari íbúa eða íbúa með minni völd.

Man þarf ekki að leita mikið lengra en í fataiðnaðinn eða svipaðan iðnað. Ég held að margir geri sér grein fyrir þeim ómannúðlegu aðferðum sem vörurnar þeirra eru framleiddar með (sem er í löndum með minni skattlagningu, þar sem mannréttindi hafa ekki enn verið tryggð eins mikið og hér og þar af leiðandi eru starfsmenn oft misnotaðir andstyggilega) og er það annar þáttur í eyðileggingu fjölbreytni. Á þessum tímapunkti, vil ég hins vegar, beina athyglinni að því hvernig þessar atvinnugreinar eyða fjölbreytni í daglegu lífi okkar með því að gefa fordæmi um það sem á að vera „gott“ eða „fallegt“ og hvernig meirihluti þjóðarinnar fylgir þeim án þess að skilja hvernig þetta hefur áhrif á þau.

Til að einfalda efnið enn frekar langar mig að taka dæmi um Victoria's Secret og hvernig „englar“ þess höfðu áhrif á skoðanir okkar á því sem þykir fallegt í mörg ár. Þetta er óhugnalegt út af fyrir sig; en ég held samt að lítil athygli hafi verið vakin á því hvernig þessir „englar” voru valdir, af hverjum og hvers vegna. Tvær af aðalpersónum innan rekstraráætlunar þess, Edward Razek og Leslie Wexner, voru dregnar fram í sviðsljósið fyrir kvenfyrirlitningu í garð fyrirsæta sinna[1]. Persónulega finnst mér mikilvægara að við einbeitum okkur að því hvernig þeir og aðrir í þeirra stöðu höfðu nægt vald og peninga til að ákvarða hver væri „nógu fallegur til að selja fantasíuna“ og þess vegna ákveða hver ætti að vera fulltrúi þess eftirsóknarverða.

Það verður enn átakanlegra þegar maður áttar sig á því að þessir fullorðnu karlmenn litu oft á líkama 17 ára barna og létu þær ganga niður tískupallinn sem kynferðislega einstaklinga. Margar fyrirsætur Victoria's Secret kvörtuðu yfir því að þær gætu ekki haldið í við þyngdartakmarkanir og aðrar mælingar sem krafist var af þeim þegar líkamar þeirra byrjuðu að vaxa í þroskað form, jafnvel með öfgafullum megrunarkúrum. Hér höfum við því fimmtuga karlmenn sem ákveða að fegurðarímynd kvenna séu þessar sérstaklega útvöldu 17-20 ára stelpur (sem þykja ekki lengur fallegar þegar þær eru fullvaxnar) og engar aðrar. Auðvitað eru grannar konur og konur með færri línur fallegar, en hvar er fjölbreytnin? Ég vil ekki einu sinni fara út í skort á fulltrúum annarra þjóðerna og kynþátta vegna þess að ég held að það sé heil umræða út af fyrir sig, en málið er að þetta gerist hjá milljónum fyrirtækja alls staðar að og almenningur hefur ekki val um annað en að fylgja með.

Forréttindi einstaklinga

Ef við förum yfir í persónulegar ákvarðanir hefur oft hvert og eitt okkar forréttindi umfram einhvern annan. Fólk frá norðurhluta Evrópu hefur að meðaltali meiri forréttindi en fólk í suðurhluta Evrópu. Fólk í suðurhluta Evrópu hefur meiri forréttindi en fólk annars staðar í heiminum, og svo framvegis. Auðvitað eru hlutirnir oft ekki eins einfaldir og ég set þá fram og margt sem þarf að taka til greina, en málið er að við sem einstaklingar drepum oft fjölbreytileikann með því að velja það sem okkur finnst þægilegra. Ef við erum í þeim aðstæðum að við höfum meira menningarlegt auðmagn en annað fólk, gætum við ómeðvitað skorið á fjölbreytileika vegna þess að við skiljum hann ekki.

Hvernig við tjáum okkur, hvernig við skynjum hlutina, hugsjónir okkar og svo framvegis, veltur mikið á menningarlegum bakgrunni okkar. E einstaklingur er frá öðru landi og gerir eitthvað sem virðist óviðeigandi, gætum við gert grín að þeim eða haldið meira upp á aðra manneskju sem er nær menningu okkar. Þetta væri í fullkomnu lagi ef þetta gerðist bara á persónulegu sviði, en við verðum alltaf að muna að þetta gæti gerst á faglegu sviði, svo sem í ráðningarferli nýs einstaklings í vinnu eða í tiltekna stöðu. Ég á fleiri en eina sögu um fólk í háum stöðum sem neitar að ráða fólk af öðrum uppruna vegna þess að það skilur ekki alveg menningu þess. Þetta leiðir til jaðarsetningar fólks hvers uppruni hefur ekki nægilegt menningarlegt auðmagn og það drepur fjölbreytni.

Þess vegna held ég að það væri vel þess virði að allir færu að skoða þetta málefni betur og átta sig á hvernig þau sjálf gætu breyst aðeins til að koma meiri fjölbreytileika inn í okkar daglega líf, á markaðinn og á vinnustaðinn. Aðeins þá getum við raunverulega talað um jafnrétti.

[1] https://www.nytimes.com/2020/02/01/business/victorias-secret-razek-harassment.html