Meitlað í stein: Um jarðfræðileg sambönd og framtíð Öskjuhlíðar

Þýðing: Lísa Margrét Gunnarsdóttir

HVENÆR ERUM VIÐ HEIMA?

Er heimilið rými í raunheimum þar sem við upplifum virðingu eða hugarró? Manneskja eða hópur fólks? Er hægt að eiga heimili ef samböndin vantar? Er ein föst skilgreining til sem nær yfir fyrirbærið heimili?

Þegar ég er heima í Alaska, er mælikvarði okkar á tíma nátengdur fornum skógum. Líftími er ekki reiknaður í árum, heldur í frjósemi jarðvegarins og berggrunni sem birtist þegar jöklar hopa. Þegar ís hverfur úr fjallshlíðum sækir mosi fram og breytir grjóti í jarðveg með efnahvörfum. Þrautseigir frumkvöðlar eins og lúpína og elri festa rætur og binda nitur í nýjum jarðvegi til að stuðla að frjósömu umhverfi fyrir aðrar tegundir. Aspir byrja að skjóta upp kollinum innan hundrað ára; harðgerar tegundir eins og greni fylgja á eftir. Þöll þrífst vel í fjölbreyttu og rótgrónu umhverfi. Að sama skapi þrífumst við sjálf gjarnan best í samfélagi. 

Við berum nöfn svo við getum lifað í samneyti við annað fólk. Nöfn - yfir hvort annað, yfir aðra hluti - eru einungis nauðsynleg vegna tengsla okkar við hvort annað, og þörfina til þess að lifa í sameiningu. Tungumál eru verkfæri til að tjá þörfina fyrir líf sem nær lengra en einstaklingurinn.

„Eco“ þýðir „heimili“, og því rannsakar vistfræði (e. ecology) allt það sem hefur að gera með heimili - umhverfið okkar. Þar á meðal eru sambönd allra lifandi og dauðra hluta og heimilis þeirra, auk sambands okkar við hvort annað. Vistfræði á sér djúpar rætur í samböndum okkar og tengslum. Til þess að skilja hugtakið heimili betur, skulum við skoða vistfræði plöntusamfélaga. 

Gróðursamfélög - það hvernig gróður vex í vistkerfi sem byggist á þörfum hverrar tegundar - er áþreifanlegt sönnunargagn um náttúrufræðilega og félagsfræðilega sögu okkar. Með því að rannsaka gróður getum við séð hvaðan við komum og spáð fyrir um hvert för okkar er heitið. 

Samböndin sem ég lýsi í þessari grein lýsa minni persónulegu upplifun, en mín upplifun er ekki bundin við mig eða nærumhverfi mitt. Frumbyggjar víðsvegar um heiminn tengjast náttúru sinni - heimili sínu - traustum böndum og hafa gert í þúsundir ára. Rætur þessara tengsla liggja djúpt; ættartré eru samofin vistkerfum svo langt aftur í tímann að það er ómögulegt að aðgreina manneskjur frá náttúrunni. Við erum hönnuð til þess að vera á jörðinni; þróun mannkyns hefur séð vandlega til þess að við eigum djúpt samband við heimili okkar. 

Þar með er ekki sagt að öll eigum við einsleitt og keimlíkt samband við umhverfi okkar. Upplifanir okkar eru nátengdar landinu sem við erum stödd á, og á jörðinni er að finna ótal mismunandi umhverfi: óendanleg líffræðileg fjölbreytni, margbreytilegar félagslegar aðstæður og víðfeðm menningarleg þekking. Við gætum öll setið fyrir framan sama tréð í skógi og samt átt einstaka upplifun. Samband okkar við náttúruna getur líka litast af heimsmynd nýlendustefnu og félagslegum kerfum sem rjúfa tengsl okkar við umhverfið og hvort annað á kerfisbundinn hátt.

Ég mun ekki halda því fram að ég þekki samband Íslendinga við trén og jörðina; sérstök náttúrusaga, einstakt umhverfi og ríkuleg menning sem byggðist upp í takt við útsjónarsamt samfélag í krefjandi umhverfi. Þessar aðstæður eru kjörin uppskrift að flóknu sambandi við umhverfið. 

Eitt táknrænt dæmi um samband Íslendinga við tré er núverandi umræða um furutrén í Öskjuhlíð. Ef vistfræði (e. ecology) fæst við tengslin innan heimilis, þá er að sama skapi hægt að skilgreina efnahagskerfi (e. economy) sem umsjón og stjórn heimilisins - og samkomulag Reykjavíkurborgar, innanlandsflugvallarins og almennings leiða í ljós umbreytinguna sem er að eiga sér stað hvað varðar sambandið þar á milli. Isavia, sem stýrir starfsemi Reykjavíkurflugvallar, hefur óskað eftir að 2.900 tré verði felld eins fljótt og hægt er til að tryggja aukið flugöryggi. Þessi umræða á sér margar hliðar: hvaða gildi hefur þetta gróna svæði, og vegur það þyngra en óskir flugvallarins? Er flugöryggi nægilega góð ástæða til þess að höggva niður tré? Hvaða áhrif hafa innflutt tré sem voru gróðursett fyrir 50 árum á aðrar, innlendar tegundir? Hvernig ákvörðum við hvaða tegundir eigi heima hér, á jarðfræðilega ungri eyju sem varð til í kjölfar eldfjallavirkni og var eitt sinn gróðursnautt eyðiland? 

Ole Martin Sandberg, prófessor í siðfræði náttúrunnar við Háskóla Íslands, skrifaði um samskipti manns og náttúru í Heimildinni á síðasta ári:

„Þetta snýst allt um sjónarhorn. Upplifanir allra eru mismunandi. Við erum ekki bara mótuð af menningu og félagslegum tengslum, heldur einnig af því landslagi sem við ölumst upp í. Annars konar tilfinningar hvað varðar tré eru ekki minna virði – og ekki minna mannlegar – en mínar eigin… Auðvitað erum við ekki öll á sama máli, og ekki allir Íslendingar heldur. Velmegun fólks í ólíku umhverfi er mikilvægt málefni, hvort sem um er að ræða borgarskipulag (eins og hverfandi græn svæði Reykjavíkur) eða villta náttúru (sem verður alltaf fyrir einhvers konar áhrifum af hálfu mannkyns).“

Ole er ekki fylgjandi því að fella trén í Öskjuhlíð, en rökstyður mismunandi hliðar málsins á skýran hátt. Hann lýsir því einnig afleiðingum þess að flytja inn nýjar tegundir gróðurs:

„IPCC (Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar) hefur ítrekað varað við því að rækta tré í skógsnauðum vistkerfum. Þetta á sérstaklega við um tegundir sem eiga uppruna sinn í gjörólíku umhverfi, eins og barrtré á Íslandi, þar sem slíkt getur haft skaðleg áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika án þess að hafa endilega jákvæð áhrif á loftslagið (IPBS-IPCC: Biodiversity and climate change, 2021). Nýlegar rannsóknir sem varða skógrækt á norðurslóðum hafa raunar sýnt að skógrækt, til dæmis á Íslandi, gæti haft skaðleg áhrif á loftslagið. Nýlega gróðursett tré gera takmarkað gagn í að binda kolefni (og í því skyni ætti að leggja áherslu á endurheimt votlendis, sem bindur mun meira kolefni). Ef við þekjum íslenska grundu með sígrænum trjám, á stað þar sem jörð er gjarnan hulin snjóbreiðu að vetrarlagi, minnkum við endurskinshæfni landslagsins og völdum þar með frekari hlýnun (Portmann et al: „Global forestry and deforestation affect remote climate via adjusted atmosphere and ocean circulation“, Nature Communications, 4. október 2022).“

Öskjuhlíð er kjörinn staður til þess að taka fyrir í þessari umræðu. Stýrt umhverfi, íðilfagur og fjölfarinn staður, og ágreiningur sem er táknrænn fyrir stærra vandamál; varðveisla umhverfisins þarf að taka mið af tilgangi, ekki einfaldlega fegurð. En hvað ef lausn á þessum réttmæta ágreiningi greiðir leiðina fyrir flugvöll sem þjónustar fyrst og fremst einkaþotur? Hvaða tilgangi erum við þá að þjóna? Það er hægt að réttlæta ýmsar röksemdafærslur; Ísland hefur gengið í gegnum margar aldir af rýrnun skógar - þýðir það að í sögulegum skilningi séum við skógsnautt vistkerfi? Kannski er hægt að skýra málið með því að greina kosti og galla skógræktar í þágu kolefnisbindingar annars vegar, og varðveislu endurskinshæfni Íslands hins vegar. Á landsvísu eru lausnir við svo flóknu verkefni óskýrar, en í þessu tilfelli væri þó hægt að fullyrða að ákvarðanir flugvallar eigi ekki að vega þyngra en ástkært útivistarsvæði.

Ef við notum gróðursamfélög til að mæla sögulega tengingu okkar við náttúruna, hvar passa þá innfluttar tegundir inn í myndina? Getum við myndað jafn djúp tengsl við umhverfið í einsleitum, gróðursettum skógi samanborið við náttúrulegan og fjölbreyttan skóg? Ef ekki, á það eitthvað skylt við aftenginguna sem við gætum fundið fyrir þegar við erum fjarri heimili okkar? Erum við ennþá sama fólkið ef við erum ekki heima? 

Hvort sem við köllum okkur umhverfisverndarsinna eða ekki, erum við samt hluti af öllum vistkerfum. Við verðum að líta inn á við og átta okkur á eigin fordómum og áformum. Það er ekki nóg að tala um að „vernda umhverfið“. Það er holur hljómur í slíkri staðhæfingu þegar okkar þáttur í loftslagsáhrifum er tekinn til greina. Hvernig getum við einsett okkur að tengja líkama okkar við rýmið sem þeir eru staðsettir í, og frekar en að „sættast við náttúruna“ eða byggja upp „nýtt“ samband, virkilega átta okkur á hlutverki okkar í flóknu kerfi og rifja upp ævaforn, þróuð tengsl? Við erum samsett ur endurunnu efni í lokuðu kerfi.


Öskjuhlíð er lítið dæmi um stærri og flóknari áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Við erum eirðarlaus og viljum að eitthvað gerist; við viljum laga umhverfistengdu og félagslegu krísurnar sem blasa við okkur. Við lærum um áhrif mannkyns á jörðina og afleiðingar þeirra, og förum í hringi í leit að lausninni. Nánast öll menningarleg og umhverfisleg straumhvörf í mannkynssögunni, til hins betra eða verra, hafa orðið til vegna staðbundinna aðgerða í krafti sameiningar, ekki vegna aðgerða stjórnvalda. Og jafnvel þó margþættar félagslegar og umhverfistengdar áskoranir geti oft á tíðum virst yfirþyrmandi, fylgja þeim tækifæri til að gera upp og bregðast við þeim skaða sem er skeður, en við verðum að skilja að þróun í rétta átt mun spanna margar kynslóðir og við munum ekki endilega sjá afraksturinn á okkar líftíma. Við getum gert okkar besta með því að einbeita okkur að því sem okkur er annt um, finna samfélagið sem samræmist þeim gildum sem við tileinkum okkur, og berjast fyrir því sem við trúum á. Öll svörin sem við þurfum á að halda eru nú þegar til staðar í líkömum okkar, í samfélaginu og í landinu.