Við erum innlendingar: Upplifun nemanda íslensku sem annars máls

Ég flutti til Íslands árið 2017 og ætlaði ekki að vera hér lengur en í 10 mánuði. En eins og svo margir aðrir varð ég ástfangin af þessu landi. Ég ákvað að vera lengur og læra tungumálið þar sem mér fannst þetta vera lykilatriði í því að aðlagast samfélaginu. Ég komst fljótt að því að tungumálið er erfitt. Hvað ég sat oft í málfræðifyrirlestrum og var örvæntingafull að ég mundi aldrei ná að læra þetta tungumál.

En verra en málfræðin voru viðbrögð Íslendinga við mér sem útlendingi þar sem enginn ætlaði að leyfa mér að tala íslensku. Þetta er ekki bara eitthvað sem ég lenti í heldur fyrirbæri sem allir sem læra íslensku kannast við. Þegar maður er búinn að safna kjarki til að loksins panta á íslensku á veitingastað eða þegar maður fer í búðina og spyr starfsmann um hvar hægt sé að finna tiltekna vöru bara til að fá svar á ensku. Mig langar ekki til að vera reið út í fólk fyrir að tala ensku við mig, ég veit að það meinar ekkert illt. En það sem ég skil ekki er af hverju fólk sem greinilega skildi hvað ég sagði á íslensku, þarf að svara á ensku. Af hverju það heldur að ég kunni að tala ensku en ekki íslensku. Vegna þess að ég tala með hreim?


Svo verð ég alltaf að brosa þegar Íslendingur vill spyrja mig að einhverju og er kannski ekki alveg viss hvort ég tali íslensku eða ekki. Þá er spurningin: „Ertu íslensk?“ en ekki „Talarðu íslensku?“ og ég svara þá: „Nei, ég er ekki íslensk“. En jafnvel þótt að ég svari þeim á íslensku heldur samtalið okkar áfram á ensku. Þetta dæmi sýnir mjög vel hversu tengd þjóðerni og tungumál eru í hugum Íslendinga. Ég tek þessu með húmor og spyr fólk þegar þetta gerist til baka: „Ertu Englendingur?“. Það er alltaf jafn hissa og fattar svo að það er hægt að læra annað tungumál án þess að tilheyra nýju þjóðerni, líka þeirra eigið.


Hverjum er þetta að kenna? Fjölmenni ferðamanna sem tala bara ensku? Útlendingahatri? Mér finnst engum. En mér finnst mikilvægt að breyta málfarinu til að fá tungumálið án aðgreiningar, til að breyta því hvernig fólk hugsar um innflytjendur. Sem tillögu langar mig að útrýma orðinu „útlendingur“. Þetta orð segir okkur allt um þetta tiltekna vandamál og mótar því heimsmynd okkar. Einhver sem er úti er ekki hluti af samfélaginu og getur það aldrei orðið, allavega í hugum fólks. Þær Kelechi Hastað og Sonja Steinunn eru með hlaðvarp sem er kallað „Innlendingar“ og segja þær frá upplifun fólks af erlendum uppruna sem flytur til Íslands. Og það er akkúrat þetta orð „innlendingar“ sem ætti að koma í stað fyrir „útlendingar“. Tungumálið getur haft áhrif á skynjun okkar. Breytum því til hins betra. Við erum innlendingar.