Aðgengi innflytjenda að íslenskukennslu

Fjölgun einstaklinga með annað móðurmál en íslensku hefur stóraukist hér á landi á seinustu árum. Fjöldi íbúa af erlendum uppruna nálgast 20% allra landsmanna. Fólk flykkist frekar að ensku, sérstaklega í ljósi þess að enska er samskiptamál milli Íslendinga og mismunandi þjóðerna á vinnustað. Auk þess er enskunám aðgengilegra fleirum, enska er víða kennd og umsvif hennar á internetinu gera það að verkum að hún er að verða eins konar alheimstunga. 

Það eru margar ástæður fyrir því að líta mætti á þetta sem neikvæða þróun. Bæði hvað varðar varðveitingu íslenskunnar sem og áhrif þessa á fólkið sjálft. Hætta er á því að fólk sem ekki talar íslensku sem annað mál sé ómeðvitað um réttindi sín og að atvinnuveitendur nýti sér það. Þá myndast stéttaskipting innan íslensks málsamfélags þar sem litið er niður á þau sem ekki tala málið og þeim er haldið frá atvinnu, menntun og samfélagsumræðu. Íslenskumælendur hafa þá valdið. Það skapar aðskilnað og misskiptingu í íslensku samfélagi. Annars vegar missa Íslendingar af tækifærunum til að læra um nýjar menningar, viðhorf og siði. Hins vegar myndast einangruð samfélög þar sem aðaltungumálið er eitthvað annað en íslenska, en þá er alvarleg hætta á því að þeir hópar fari á mis við tækifæri og þátttöku í samfélaginu. En virk samfélagsþátttaka snýst einmitt um það að vita hvað er í gangi í stjórnmálum, fjölmiðlum og þjóðfélaginu almennt til að geta tekið virkan þátt í lýðræðinu.

Það ógnar auðvitað íslenskunni líka ef önnur tungumál eru meira notuð, og við sem fámenn þjóð höfum ekki efni á því að halda svona stórum hópi utan málsamfélags okkar. Það er kaldhæðnislegt að fólkið sem oft hefur mestar áhyggjur af íslenskunni er gjarnan fyrst í að gagnrýna útlendinga og innflytjendur fyrir „ófullkomna“ íslensku hvað varðar hreim, orðanotkun og ófullkomnar beygingar. Enda er viðhorf Íslendinga gagnvart „ófullkominni“ íslensku stór hluti vandamálsins, þá sérstaklega þegar kemur að íslenskugetu fólks af erlendum uppruna.

Það er tvennt sem þarf til að takast á við þessa áskorun. Hið fyrra er að stofnanir, líkt og stjórnvöld, skólar, atvinnurekendur og verkalýðsfélög, bæti aðgengi að íslenskukennslu og úrræðum tengdum henni. Hið seinna, en ekki neinu síðra, er að breyta viðhorfum Íslendinga. Að hvetja fólk til að tala íslensku, að dæma fólk ekki fyrir málfar, leyfa fólki að tala „ófullkomna“ íslensku og sérstaklega að byrja öll samtöl á íslensku þangað til beðið er um annað. Þegar við hefjum samræðurnar á ensku gerum við það yfirleitt í góðri trú, til að einfalda samskipti og hjálpa viðmælanda okkar, en það gerir hins vegar gerir lítið úr metnaði þess sem er að reyna að tjá sig og gefur manneskju sem er að læra nýtt tungumál ekki færi á að æfa sig. Oft sendir þetta einnig ómeðvituð (eða meðvituð) skilaboð um að þau eigi ekki heima hér, að manneskjan sé ekki hluti af samfélaginu. Ekki er hægt að leysa vandamálið án þess að leysa þessa tvo þætti.

Hér spilar ýmislegt inn í aðgengi að íslenskukennslu. Svo eitthvað sé nefnt eiga efnameiri einstaklingar auðveldara með að standa undir þeim kostnaði sem íslenskukennsla felur í sér. Einnig getur tungumálakennsla verið óaðgengileg að því leytinu til að hún er tímafrek. Vinna og umsjón barna og heimilis hefur að sjálfsögðu forgang, og étur gjarnan upp mestallan þann tíma sem hefði mátt nýta í íslenskunám og það stendur oft sérstaklega í vegi fyrir konum af erlendum uppruna. 

Réttindi allra hópa innan samfélagsins og jafnt aðgengi að lýðræðislegri umræðu er nátengt framtíð íslenskunnar. Af núverandi þróun að dæma er ljóst að ráðast verður í viðamiklar betrumbætur og stórauka umsvif íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Framtíð íslenskunnar og hraðar breytingar samfélagsins haldast í hendur og það er undir okkur komið að standa vörð um hvort tveggja í senn; jafnrétti og tungumálið okkar.