Hvað ætlarðu svo að gera í haust? Hugleiðing um tímann

Senn líður að sumri og það er margt til að hlakka til. Ég er persónulega spenntust fyrir því að liggja í vaðlauginni í Sundhöllinni og safna freknum. Mig langar líka að fara hringinn kringum landið með vinum mínum, drekka bjór í sólinni á Austurvelli og sofa lengi og mikið. Svo er ég líka að útskrifast úr grunnnámi, það má víst ekki gleymast. Það verður eflaust gaman líka. Ég hef ekki áhyggjur af því að útskriftardagurinn bregðist mér í þeim málum, en það gildir annað um það sem tekur við eftir útskriftina. Flestir stúdentar kannast við kvíðann sem fylgir því að útskrifast úr námi. Spurningin: „Hvað ætlar þú svo að gera í haust?“ er jafn pirrandi og hundrað lúsmýbit í útilegu. Það er eins og fólki detti ekkert betra í hug til að fagna stórum áfanga en að hvetja þig til að hugsa um þann næsta, og þann næsta þar á eftir. Í hvert sinn sem spurninguna ber á góma þurfum við að horfast í augu við framtíðina, planaða eða óplanaða. Ég er þó svo heppin að ég hef svör á reiðum höndum við þessari spurningu. Ég er skráð í mastersnám í haust og er spennt fyrir því. Þá er eðlilegt að velta því fyrir sér af hverju í ósköpunum ég er að skrifa þessa grein ef ég hef ekkert til að hafa áhyggjur af? Því svara ég: ég finn alltaf eitthvað til að hafa áhyggjur af.

Í tilefni af þessum tímamótum í lífi mínu hef ég mikið velt fyrir mér tímanum. Hann er víst afstæður. Ég ætla þó ekki að fjalla um eðlisfræðilega eiginleika tímans hér í þessari grein, enda ekki hæf til þess. Hins vegar er áhugavert að hugsa um afstæði tímans í sambandi við þann skilning sem við leggjum í hann sem manneskjur. Við erum nefnilega afskaplega gölluð, mannfólkið. Við viljum sjá mynstur alls staðar, við skiljum ekki handahófskenndar tilviljanir heimsins heldur leggjum alltaf í þær einhverja meiningu. Tíminn er gott dæmi um þetta, en við höfum byggt upp gríðarlega umgjörð í kringum hann. Sekúndur, mínútur, vikur, ár, barnæska, fullorðinsár, ellin - þetta eru allt hugtök sem við höfum ákveðið að eigi að merkja eitthvað. Síðan eiga ákveðnir hlutir að eiga sér stað á hverjum tíma. Allt samkvæmt plani, helst. Smá hliðrun hér og þar, hvað með það, en ef þú tikkar í öll boxin á skikkanlegum tíma þá ertu í góðum málum! Ekki satt? Þetta getur allt verið afskaplega sannfærandi og allt í einu erum við komin með maka og námslán og gráðu og aðra gráðu og börn og vinnu og fimm vikna sumarfrí og leikskólapláss og stöðuhækkun og íbúð og svo hús á besta stað og gönguskíði og ferð til Tenerife í sumar og eignir og skuldir og ellilífeyri og svo framvegis og framvegis. Hvað er lífið annað en endalaus tékklisti af óskum til að uppfylla? Þetta virðist allavega gilda þegar tíminn er fangelsaður inn í þessa ákveðnu formúlu sem lögð er fyrir framan okkur flest. Ég veit ekki með ykkur en ég fæ hrikalega innilokunarkennd þegar líf mitt er smættað niður í einn stuttan lista. 

Ég hef mikið velt þessu fyrir mér, það er augljóst. Það mætti greinilega segja að ég hafi verið í nokkurs konar tilvistarkreppu síðastliðnar vikur, hinni margfrægu kvartlífskrísu. Ég held samt að ég sé komin út á hinum endanum. Þeim mun fleiri hringi sem ég fór þeim mun greinilegra varð það að ég get afar lítið gert í því hvernig annað fólk og samfélagið hugsar um tímann. Þessi formúla er til og ég get ekki breytt henni. Hins vegar get ég vel hunsað hana. Því ef ég veit eitthvað eftir þriggja ára nám á Félags- og Hugvísindasviði þá er það að ekkert sem við höldum að sé satt er það í raun og veru. Ég er ekki að fara að breyta hugmyndum samfélagsins um hvernig tíminn á að líða en ég get gert upp við sjálfa mig hvernig ég vil haga mínum tíma. Ég geri það með því að velta árunum framundan ekki of mikið fyrir mér. Ég hef afar litla stjórn á framtíðinni, hún kemur þegar hún kemur. Þess vegna reyni ég að hunsa hana sem mest, leyfa henni að nálgast eins og fjallgarð í fjarska á meðan ég virði fyrir mér jörðina undir fótum mínum. Fjöllin eru ekki að fara neitt. Í millitíðinni fer ég í sund og drekk bjór með vinum mínum, sef og keyri hringinn í kringum landið án þess að líta á úrið.