Lýðræðisríkið Ísland? Það hlaut að koma að þessari grein

Túristar nefna oft við mig hvað við séum heppin að búa í pólitískri útópíu eins og Íslandi. Sannleikurinn er hins vegar sá að það sem einhvern tímann hefði getað kallast ágætis ástand hérlendis fer versnandi með hverju árinu og þó mörg vilji ekki viðurkenna það, þá er hluti vandamálsins fólginn í því að fólk heldur áfram að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Margir lesendur eru líklega mjög ungir og/eða af erlendu bergi brotnir, og því finnst mér mikilvægt að rifja upp nokkur atriði sem gætu hafa farið framhjá ykkur á síðustu 15 árunum í pólitíkinni hér á okkar fagra fróni - og þá sérstaklega að rifja upp það sem hann Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið að bralla. 

Til að byrja með er ótrúlega mikilvægt að muna að á Íslandi er leyfilegt að taka náttúruauðlindir sem gætu verið í þjóðareign, eins og fiskinn okkar, úthluta nokkrum gjafmildum fjárfestum kvóta af þeim auðlindum og horfa svo upp á þá aðila erfa börnin sín að kvótanum sem þeir eiga. Sem sagt, gríðarlegt fjármagn sem gæti gagnast allri þjóðinni liggur í höndum örfárra fjölskyldna, og mun gera það áfram þar til lögum um kvótakerfið á Íslandi verður breytt (ég er auðvitað að tala um þær fjölskyldur sem eiga samanlagt meira en 85% hlut í Samherja að sögn Þórðar Snæs Júlíussonar hjá Kjarnanum). Það virðist því miður vera algeng þróun landa að fáeinar fjölskyldur hafi mikil pólitísk völd og umsvif. Ein slík fjölskylda hérlendis er Engeyjarættin sem er sannkölluð „old money“ fjölskylda og hefur verið það í yfir 100 ár. 

Einn aðili af Engeyjarætt er maður sem við ættum öll að þekkja, en hann virðist vera viðloðandi hvern skandalinn á fætur öðrum. Ég er auðvitað að tala um Bjarna Ben! Þegar þetta er ritað er Bjarni önnum kafinn við að bæla niður umræðuna um greinargerð Sigurðar Þórðarsonar ríkisendurskoðanda varðandi Lindarhvolsmálið, en nokkrum árum eftir hrun stofnaði Bjarni fyrirtækið Lindarhvol sem tók að sér ríkiseignir og seldi einkaaðilum fyrir skít og kanil. Samkvæmt grein á Vísi neitar forseti Alþingis að birta greinargerð ríkisendurskoðanda um málið á þeim grundvelli að við hana væri „ekkert athugavert“. Einnig kom út önnur skýrsla í nóvember í fyrra sem Bjarni virtist heldur ekki kæra sig um að rýna í saumana á, en hér á ég við skýrsluna sem gerð var um sölu Íslandsbanka sem tók í kringum 6 mánuði að fá birta. Sala bankans var svo sannarlega áhugaverð, en samkvæmt könnun á vegum Gallup studdi aðeins fjórðungur fólksins í landinu einkavæðingu hans… og mörg þau sem voru hlynnt sölunni voru meðlimir og kjósendur Sjálfstæðisflokksins. 

Enn áhugaverðara varðandi sölu Íslandsbanka er staðhæfingin um að aðeins fagfjárfestar ættu að eiga kost á að kaupa hlut í bankanum, en eftir að bankinn var seldur kom í ljós að sú var ekki raunin. Þeir sem fengu hins vegar að kaupa hlut í bankanum voru fjármálageirainnherjar… og faðir fjármálaráðherra. Eftir söluna sagði Bjarni að hann hefði einfaldlega ekki vitað að pabbi sinn væri einn af kaupendunum og fullyrti að hann hefði ekki komið að því með neinum hætti að ákveða úthlutun til einstakra aðila. Við verðum hins vegar að spyrja okkur að því hvort maður sem var sannarlega viðriðinn viðskiptagjörningana í aðdraganda hrunsins hefði nokkurntímann átt að teljast hæfur til að hafa yfirumsjón með einkavæðingu Íslandsbanka.

Aðalskandall málsins var samt sá að strax eftir söluna seldu flestir þessara fjárfesta hluta sína aftur og græddu allt að tvöfalt magn peninganna sem þeir eyddu. Er þetta of sjokkerandi? Bíddu bara. Þetta er nefnilega ekki í fyrsta sinn sem Bjarni lendir í klandri fyrir sinn hlut í sölu Íslandsbanka. 

Árið 2008 hét Íslandsbanki „Glitnir“. Krónan hafði veikst gífurlega frá upphafi árs og tilkynnti ríkið í lok september að það hygðist kaupa 75% hlut í bankanum. Síðan hrundi bankinn í byrjun október, fullt af fólki í landinu tapaði peningum og kreppan sem flest okkar muna eftir skall á. Það sem við vissum hins vegar ekki fyrr en ákveðin gögn láku varðandi málið fyrir nokkrum árum, er að það lítur út fyrir að a.m.k. Bjarni og föðurbróðir hans, Einar Sveinsson, hafi vitað að bankinn myndi hrynja eftir að ríkið tilkynnti að það ætlaði að taka yfir. Í Heimildinni kemur fram að frá 29. september til 6. október seldu bæði Bjarni og Einar hluta sína til sjóðs innan bankans sem kallaðist „Sjóður 9“ - Bjarni seldi fyrir 50.000.000 krónur og Einar fyrir 1.200.000.000 krónur. Eftir að þetta kom í ljós sagði Bjarni í viðtali við The Guardian að „allir skynsamir fjárfestar hefðu verið að íhuga að selja á þessum tíma“, en samt töpuðu margir íslenskir fjárfestar háum fjárhæðum. En svona virðast Bjarni og fleiri komast hjá því að sæta ábyrgð hvað varðar vafasama viðskiptahætti sína í hvert einasta skipti; með því að styðjast við mælskulistina. 

Íslensk stjórnmál eru ekki öll þar sem þau eru séð.

„Bjarni, sala Íslandsbanka virðist ekki hafa verið í samræmi við lögin sem gilda um slíka sölu!“

„Mér finnst lögin ekki eiga að gilda í þessum aðstæðum!“

Svona svaraði Bjarni á opnum fundi Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í maí í fyrra. Eftir að skýrslan um sölu Íslandsbanka kom loksins út í nóvember í fyrra mætti Bjarni í viðtal hjá Kastljósi þar sem kynnir þáttarins minntist á að Bjarni hefði neitað að mæta pólitískum andstæðingi í viðtalinu, sem Bjarni þvertók fyrir - þó að kynnir þáttarins hafi ítrekað oftar en einu sinni að þeim hefði borist beiðni þess efnis að Bjarni skyldi mæta einn. 

En nú langar mig að spyrja ykkur: er þetta vænleg forysta fyrir þjóðina okkar? Mörg okkar bera lítið sem ekkert traust til stjórnmálamanna, og raunar hefur það lengi verið staðan, en af einhverjum ástæðum höldum við áfram að kjósa yfir okkur sama fólkið - jafnvel þegar ríkisstjórnin hrundi tvisvar á einu ári (og já, hún er skipuð af sama fólkinu og var við völd áður en ríkisstjórnin féll í fyrsta sinn). Ákvarðanir þessa fólks hafa bein áhrif á stúdenta og háskólasamfélagið, en samt finnst mér eins og margir nemendur kjósi að skipta sér ekki af því sem gengur á í íslenskum stjórnmálum. Þegar ég sé hvað ráðherrar annarra landa segja af sér fyrir lítið, til dæmis í Bretlandi undanfarin ár, verður mér hugsað til þess að þrátt fyrir endurtekin áköll almennings mun Bjarni Ben sennilega aldrei segja af sér. Og svo mun fólk kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur. Og annar skandall mun líta dagsins ljós.

Ég veit ekki með ykkur, en mér líst illa á að maður sem er beintengdur við jafn marga vafasama vendipunkta hvað varðar ríkisfé sitji áfram í einni af valdamestu stöðum landsins.

Heimildir

Ingi Freyr Vilhjálmsson. „Seldi í Sjóði 9 sama dag og neyðarlögin voru sett“. Heimildin, 6. október 2017.

Jakob Bjarnar. „Ríkisendurskoðandi sér ekkert athugavert við starfsemi Lindarhvols ehf.“. Vísir, 18. maí 2020. 

Jon Henley. „Iceland PM sold bank assets hours before financial crash, leaks show“. The Guardian, 6. október 2017.

Jón Trausti Reynisson. „Sá sem átti aldrei að sjá um að selja Íslandsbanka“. Heimildin, 8. apríl 2022.

Þórður Snær Júlíusson. „Eigendur Samherja færa eignarhaldið til barna sinna“. Kjarninn, 15. maí 2020.