Réttu mér skrúfjárnið! Af hverju kunnum við ekki að fikta í tækjunum okkar?

Í mikilli fjarlægð, bæði í tíma og rúmi, er að finna – ekki stað, beint, ekki einn heim heldur . . . 

. . . ef til vill má notast við hugtakið „archipelago“ eða „eyjaklasi“ til að lýsa samfélaginu sem birtist okkur í hinni ónefndu vetrarbraut Stjörnustríðsmyndanna. Íbúar þess búa í margsamsettum heimi, heimastaðir þeirra í galaxýinu eru misafskekktir, misfjarlægir, en áralöng uppbygging infastrúktúrs, hvort sem hún er af hinu góða eða slæma, hefur gert það að verkum að samgöngur eru tíðar og samskipti nauðsynleg – pláneta á milli. 

Verur vetrarbrautarinnar eru okkur fjarlægar. Við kunnum ekki á líffræði þeirra, skiljum ekki hvers þær þarfnast til að komast af, vitum ekki hvort þær þurfa á húsaskjóli að halda, hvers konar mat þær borða (þó hann sé nú reyndar oftast blár) eða úr hverju klæði þeirra eru gerð. Þessi atriði eru jafn fjölbreytt og fólkið sem okkur birtist, en í tilverunni virðist vera einn fasti, jafnvel einhvers konar samnefnari fyrir þessa vetrarbraut: tækni

Það gefur ef til vill augaleið að eyjaklasasamfélag í geimnum notist við geimskip sem sinn aðalferðamáta. En þau þurfa ekki aðeins á geimskipum að halda til þess að komast á milli staða, heldur einnig til þess að flytja varning, til þess að færa vistir frá gjöfulum plánetum til hinna hrjóstrugri (eins og t.d. Tatúín), til þess að stunda viðskipti, og eflaust ýmislegt annað sem mér hefur ekki dottið í hug. En það sem mér þykir merkilegt er að tæknivæðingin endar ekki þar. Geimskipin eru mikilvæg, en svo má telja upp ryksugur, vélmenni, borðspil, ýmis konar græjur sem fólk hefur á heimilum sínum, og – og þetta er það sem mig langar að fjalla um – getur lagfært sjálft. 

Það er munur á því hvernig fólk vinnur með tækni. Sumar persónur eru fæddir flugmenn, eins og t.d. eftirnafn Geimgengilsfjölskyldunnar gefur til kynna, og hafa feðginin þrjú einstaka tengingu við vélmenni og virkni þeirra, sem jafnframt verður leiðarstef í sögunni. Tæki og brellur eru hluti af trúarbrögðum annarra, svo ég tali nú ekki um samfélögin sem byggjast upp í kringum ruslahaugana, skipagarðana og vélakirkjugarðana sem ógrynni virðist vera af í vetrarbrautinni. Mennska er einnig mun víðtækara hugtak en í okkar heimi, og eru mörkin milli sæborga, vélmenna og andróída lítil sem engin.

Framsæti geimskipa eru yfirleitt hlaðin alls konar tökkum og sveifum sem flestir flugmenn virðast skilja, og jafnvel þegar komið er inn í stofnanir veldisins er tæknin aldrei óskiljanleg, þó hún sé strípaðri og flekklausari. Í andspyrnuhreyfingunni má skýrt sjá að skipin eru jafnan byggð úr fundnum pörtum, þau eru samsett úr leifum og brotajárni – sem þó fúnkera. 

Í samfélagi af slíkri stærð er ekki að vænta að allir íbúar þess geti tekið í sundur vélmenni eða geimskip og lagfært þau. En svo virðist oft vera raunin. Hver sem er virðist geta tekið upp hvers kyns tæki og tól, opnað þau og krukkað í þeim þar til þau eru eins og ný! Þvílík snilld! Ég geri mér grein fyrir því að þetta er samfélag sem reiðir sig 100% á tækni og á sem slíkt að hafa verið tæknivætt í um þúsund ár, en samt sem áður get ég ekki annað en dáðst að þessari stefnu. 

Ég vil geta tekið tölvuna mína í sundur þegar hún bilar, vitað hvað er að henni og lagfært hana, án þess að leita til sérfræðings sem segir mér svo að ég þurfi nýja - það sé hreinlega of dýrt að lagfæra þessa. Ég vil geta ýtt á takka í bílnum mínum til þess að opna skottið eða aflæsa honum svo ég sé ekki fullkomlega bjargarlaus ef stýrikerfið í skjánum bilar. Ég vil sjá fleira fólk sem skilur hvernig græjur virka og hvernig aukahluti þau vantar, svo rafmagnstækjum sé ekki skutlað á haugana langt fyrir aldur fram. 

Vandamálið sem ég lýsi hér að ofan er afurð stefnu sem hefur verið ríkjandi í tæknibransanum síðustu 20-30 ár. Gljáfægð, flekklaus tækni en fullkomlega óskiljanleg. Tæknin í kringum okkur er tækni sem við skiljum ekki, getum ekki tekið í sundur og lagað, og þess vegna finnst okkur eins og við þurfum að henda því sem er bilað og kaupa frekar nýtt 

Það er ekki eins og við séum ófær um að þróa með okkur tæknilæsi. Við erum læs á hin ýmsu forrit og lærum ógnarhratt á nýja samfélagsmiðla, við lærum á ný stýrikerfi fljótlega eftir að þau eru uppfærð (þó okkur sé sjaldan gefið mikið val). Við erum læs á Excel, læs á Word, læs á Notes og Numbers, læs á Photoshop og InDesign, hvers kyns vefsíður og forrit, svo ég tali nú ekki um öll öppin! Ég þurfti t.a.m. að nota app til að komast inn á hótelherbergi í fyrrasumar. Það var Bluetooth mekanismi í lásnum sem var áreiðanlega margfalt dýrari en einfalt lásahús með lykli. En hvað veit ég! 

Fyrir um 30-40 árum voru flestar vörur hannaðar þannig að fólk gæti tekið þær í sundur á heimilum sínum, við gátum skrúfað bakið aftan af tölvuskjánum eða lyft upp húddinu á bílnum – og komist að því hvað var að. Ég legg til að við tökum þetta upp á ný. Förum á námskeið! Lærum að gera við tækin okkar! Hönnum vörur þannig að það þurfi ekki að henda þeim þegar þær bila! Ef til vill náum við þá að þróa langtímasambönd við ryksugurnar okkar, eins og R2D2, sem fylgir heilum þremur kynslóðum eftir, frá upphafi til enda.