Næring í núvitund – hvað er það?

Birna Varðar skrifar pistla í Stúdentablaðið um heilsu og hreyfingu. Hún er nemi í næringarfræði við Háskóla Íslands, afrekskona í hlaupum og höfundur bókarinnar Molinn minn þar sem hún lýsir baráttu sem hún háði við íþróttaátröskun. 

Birna Varðar skrifar um heilsu og hreyfingu í Stúdentablaðið. Mynd: Julie Runge

Birna Varðar skrifar um heilsu og hreyfingu í Stúdentablaðið. Mynd: Julie Runge

Við lifum í þjóðfélagi þar sem annríki er svo mikið að stundum fæst varla tími til að staldra við rétt á meðan við borðum. Þetta á trúlega ekki síst við núna á þessum síðustu mánuðum ársins þegar háskólanemar keppast við að koma frá sér skilaverkefnum og eru í þann mund að hefja próflestur.

Þú manst vonandi eftir því að líta upp annað slagið til að ná þér í eitthvað matarkyns eða kaffisopa. Þú tekur jafnvel einn eða tvo bita og veitir bragðinu eftirtekt. Svo sestu aftur við tölvuna og heldur áfram þar sem frá var horfið á meðan þú maular. Skyndilega er allt búið úr skálinni og kaffið runnið niður. Þú rankar við þér og tekur eftir daufu bragði á tungunni og smávægilegu klístri á fingrunum. Eitthvað hefur veitt magafylli en máltíðin skilur ekkert mikið meira eftir sig en það. Þú veist ef til vill ekki hvort þú borðaðir mikið eða lítið. Máltíðin átti sér stað án þess að þú tækir eftir því.

Er snjallsíminn að deyfa upplifunina sem fólgin er í því að dreypa á nýlöguðu kaffi?

Er snjallsíminn að deyfa upplifunina sem fólgin er í því að dreypa á nýlöguðu kaffi?

Að nærast í núvitund felur í sér að vera til staðar, andlega og líkamlega, á meðan við borðum. Að vera meðvituð og nota öll skynfæri til þess að upplifa bragð, liti, áferð, lykt og hljóð sem máltíðinni fylgir. Út frá því getum við metið hvernig okkur líkar maturinn auk þess sem við eigum auðveldara með að finna fyrir svengd og seddu. Við skynjum þannig betur hvernig maturinn hefur áhrif á líðan okkar um leið og hann veitir líkamanum nauðsynlega orku.

Það er ekki endilega raunhæft markmið að ætla að njóta hverrar einustu máltíðar í núvitund til að byrja með. Hægt væri að byrja á tveimur máltíðum á dag, til dæmis í hádeginu og um kvöldmatarleytið. Gefðu þér þá tíma til að setjast til borðs og njóta matarins. Láttu tölvu, sjónvarp eða lesefni ekki dreifa athyglinni á meðan. Að máltíð lokinni getur þú svo haldið vinnu þinni áfram.

Njótum jólamatarins með öllum skynfærunum

Njótum jólamatarins með öllum skynfærunum

Góð máltíð er gulls ígildi, ekki síst fyrir önnum kafna námsmenn. Veittu þér þann munað að gera hlé á því sem þú ert að gera öðru hverju og njóta þess að borða.

Hér má finna nokkur ráð sem hægt er að grípa til viljir þú tileinka þér að nærast í núvitund. 

Texti: Birna Varðar

 

LífstíllStúdentablaðið