Þurfum við detox?

Í grein Björns L. Jónssonar, þáverandi yfirlæknis Náttúrulækningafélags Íslands, sem birtist í 3 tbl. Heilsuverndar árið 1966 segir svo skemmtilega um föstur: ,,Menn ættu að gæta hófs í mat og drykk alla ævi. Fari menn við og við yfir mörkin nægir nokkurra daga fasta til að ná jafnvægi á ný. Þetta er laukrétt. En samkvæmt þessari reglu þyrftu flestir að vera fastandi við og við, því að yfirleitt borðar fólk að staðaldri of mikið”. Skilgreining Björns á föstu var sú að viðkomandi neytti engrar fastrar fæðu né mjólkur meðan á föstunni stæði, heldur aðeins vatns eða grænmetis- og ávaxtadrykkja.

Þyngdartap verður vegna minni fæðuinntöku

Líklega mættum við staldra aðeins við þessi orð og velta því fyrir okkur hvort ekki sé heilmikið sannleiksgildi í þeim enn í dag. Margir grípa jú til þess ráðs að ,,detoxa” með einum eða öðrum hætti eftir að hafa gert vel við sig í mat og drykk. Þeir sem ráðleggja detox/föstur og auglýsa námskeið eða vörur sem gera út á slíkar aðgerðir lofa því gjarnan að þyngdartap verði og líkaminn hreinsist eða afeitrist á þessum tíma. Stundum heyrum við jafnvel talað um hreinsandi fæðutegundir. Það liggur í hlutarins eðli að þyngdartap verði þegar við minnkum fæðuinntöku svo verulega. Hér má þó spyrja sig hvort það teljist til heilbrigðs jafnvægis að sveiflast svona milli öfga í fæðuinntöku.

Víða er hægt að kaupa nokkurra daga „safakúr“ sem á að hafa afeitrandi áhrif og stuðla að þyngdartapi. Þyngdartapið verður vegna þess að við hættum að borða það sem við gerum vanalega og drekkum safa sem inniheldur mun færri hitaeiningar. Afeitrunaráhrifin eru hins vegar ekki eins sýnileg, ef þau eru einhver yfir höfuð. 

Víða er hægt að kaupa nokkurra daga „safakúr“ sem á að hafa afeitrandi áhrif og stuðla að þyngdartapi. Þyngdartapið verður vegna þess að við hættum að borða það sem við gerum vanalega og drekkum safa sem inniheldur mun færri hitaeiningar. Afeitrunaráhrifin eru hins vegar ekki eins sýnileg, ef þau eru einhver yfir höfuð. 

Seint verður hægt að ráðleggja föstur með reglubundnu millibili fyrir allan almenning. Það er engu að síður gert í ýmsum auglýsingum í dag. Oft er jafnvel fullyrt um langtíma ávinning án þess að fyrir því liggi vísindaleg rök.

Líkaminn ætti að geta séð sjálfur um losun eiturefna

Næringarfræðingurinn Ólafur G. Sæmundsson gaf nýverið út 2. útgáfu af bók sinni Lífsþróttur. Þar fjallar hann meðal annars um detox og föstur og fékk Stúdentablaðið góðfúslegt leyfi til að fjalla um þá greinargerð. Ólafur segir að afeitrunar- og útskilnaðarkerfi líkamans sé mjög fullkomið og það eina sem þurfi í raun að gera sé að misbjóða því ekki með óhollum lífsháttum. Bendir hann á að lifrin taki við öllu því sem við látum ofan í okkur og lifrarfrumur brjóti niður framandi efni áður en þau komist í almenna blóðrás. Í blóðinu séu ákveðin prótein sem binda ýmis efni og komi í veg fyrir að þau nái fullri verkun í líkamanum. Lifrin tekur því næst við efnunum og brýtur þau niður. Þá eru nýrun skilvirk úthreinsunarstöð sem losa út langmest af úrgangsefnum efnaskipta líkamans. Jafnframt á úthreinsun sér stað gegnum gallvegakerfi lifrar, gallútgang skeifugarnar sem og með útöndun.

Fasta til langs tíma getur aukið álag á líffæri

Í bók sinni segir Ólafur að yfirleitt sé ekki minnst á lifur eða nýru í umfjöllun ,,detox-kuklara” á vörum þeirra, aðferðum eða þjónustu. Ástæðan sé að öllum líkindum sú að þeir hafi ekki græna glóru um starfsemi afeitrunarkerfa líkamans. Samt takist þeim að telja fólki trú um að líkaminn sé fullur af eiturefnum. ,,Snilldin felst í því að búa til sjúkdóminn fyrst og selja svo lækninguna” skrifar Ólafur.

Fjölmargar tegundir eru til af afeitrandi tei, fæðubótarefnum, drykkjum og fæðu. Neytir fólk afeitrandi fæðu eða drykkja endrum og eins til þess að réttlæta óheilsusamlegan lífsstíl sinn? Eða er okkur einfaldlega talin trú um að líkaminn okkar sé fullur af eitri og við þurfum á detoxi að halda til þess að hreinsa hann?

Fjölmargar tegundir eru til af afeitrandi tei, fæðubótarefnum, drykkjum og fæðu. Neytir fólk afeitrandi fæðu eða drykkja endrum og eins til þess að réttlæta óheilsusamlegan lífsstíl sinn? Eða er okkur einfaldlega talin trú um að líkaminn okkar sé fullur af eitri og við þurfum á detoxi að halda til þess að hreinsa hann?

Ólafur bendir jafnframt á að fasta umfram 2–3 daga valdi niðurbroti á dýrmætum vöðvum og að lokum minni orkunotkun líkamans. Það getur svo aftur stuðlað að örari fitusöfnun á ný að lokinni föstu. Fastan auki í reynd álag á lifrina og veiki ónæmis- og afeitrunarkerfin.

Ólafur segir að föstu sé vissulega hægt að nota í mesta lagi 1–3 daga til ögunar í upphafi megrunarátaks en eftir það skuli halda inntökunni um 500 hitaeiningum undir áætlaðri orkuþörf. Að hans mati er fasta því ekki heppileg langtímalausn eða réttlætanleg nema til mjög skamms tíma.

Í greinargerð Ólafs kemur fram að til að sporna gegn átröskun verði umræða um mat að vera eðlileg. Varast skuli boð, bönn og svæsnar öfgar líkt og gjarnan er boðið upp á í detox og föstumeðferðum.

 

Texti: Birna Varðar