Er starfsnám rétti kosturinn?

Á síðastliðnum árum hefur fjöldi langskólagenginna Íslendinga aukist töluvert og margir glíma því við örðugleika við að finna sér starf sem hæfir menntun þeirra. Eftirspurn á vissum sviðum hefur þó aukist í takt við breytingar í samfélaginu og tækniþróun á meðan aðrar deildir virðast ekki hafa jafn beinar tengingar við atvinnulífið eða tilteknar starfsgreinar.

Vegna magvíslegra þátta, svo sem óánægju með námslánakerfið og vandræði á leigumarkaðnum er orðið nokkuð algengt að nemendur taki sér hlutastarf með háskólanáminu. Þetta er gert í þeim tilgangi að brúa bilið milli útgjalda og námslána, eða einfaldlega til þess að reyna að forðast það að burðast með námslán út í lífið. Nemendur taka þá kannski námið á lengri tíma sem er að sjálfsögðu mun kostnaðarsamara fyrir ríkið. Þessir nemendur sinna gjarnan störfum sem eru ekki á nokkurn hátt tengt þeim námsvettvangi sem þeir hafa valið sér.

Skiptir máli að prófa störf tengd náminu

Vinnuveitendur líta þó gjarnan á margskonar starfsreynslu með jákvæðum augum og er það því að sjálfsögðu jákvætt að nemendur hafi prófað ýmis störf er þeir halda í atvinnuleit að loknu námi. Erfitt virðist þó að brúa bilið milli náms og starfs þar sem tenging náms við atvinnulífið virðist mismikil á milli námsbrauta. Á síðustu árum hefur svokallað starfsnám færst í aukana í íslensku atvinnulífi og slíkt eflir vissulega tengsl nemenda við atvinnulífið.

Samkvæmt Ástu Gunnlaugu Briem hjá Náms- og starfsráðgjöf hjá Háskóla Íslands eru nemendur oft frekar einangraðir í vernduðu umhverfi skólans á meðan á námi stendur. Því má segja að starfsnám sé góð leið fyrir þá til þess að kynnast atvinnulífinu og sjá tengingu námsins við mögulegan starfsvettvang. Ásta segir jafnframt að starfsnám sé mikilvægt fyrir nemendur til þess að byggja upp tengslanetið og þannig reyna að stuðla að því að þeir fái starf við hæfi að námi loknu. Það er beggja hagur, fyrirtækja og háskólanema, að byggja upp öflugt samstarf þar sem nýútskrifaðir nemar eða nemar á lokaári geta komið inn með nýjar hugmyndir eða unnið verkefni sín innan fyrirtækjanna.

Nauðsynlegt að sporna gegn hættulegri þróun

Deildir innan háskólans sjá um starfsnám og misjafnt er hve mikil tengsl hver deild hefur við atvinnulífið. Í sumum greinum er löng hefð fyrir starfsámi og til eru tilteknir kjarasamningar um slíkt. Nemendur geta þó allir sóst eftir starfsnámi upp á sitt einsdæmi, til dæmis að námi loknu, til þess að safna reynslu á ferilskrána. Það getur þó verið hættulegt þar sem tækifæri geta myndast fyrir fyrirtæki til þess að misnota krafta háskólamenntaðra einstaklinga í störf sem í raun ættu að vera mönnuð einstaklingum á launum. Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs segir að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af þessu enda gæti þetta komið af stað mjög óæskilegri þróun sem þekkist annars staðar. „Víða erlendis þekkist það að fyrirtæki stundi það að fá til sín starfsnema sem sinna mikilvægum störfum án þess að borga þeim. Slíkt getur jafnframt stuðlað að misrétti en þeir nemar sem ekki eru fjársterkir hefðu líklegast ekki ráð á að stunda fulla vinnu án tekna og þannig myndu fjársterkir nemar geta öðlast mikilvæga starfsreynslu umfram þá sem standa verr fjárhagslega.“ Aron heldur áfram: „Best væri auðvitað ef starfsnám væri samstarfsverkefni háskólans og fyrirtækjanna til þess að hagur allra væri tryggður.“

Nýverið olli auglýsing WOWair eftir starfsnema sem væri í meistaranámi í lögfræði fjaðrafoki enda virtist vinnuálag gífurlega hátt miðað við að starfið væri ólaunað. Þetta rými skapast vegna þess að offramboð er af einstaklingum menntuðum á vissum sviðum en aftur á móti er skortur á fólki menntuðu á öðrum sviðum, t.d. í iðngreinum. Afleiðingin er sú að langskólagengið fólk fær ekki starf við sitt hæfi en í september 2015 voru yfir þúsund einstaklingar með háskólapróf á atvinnuleysisbótum á Íslandi.

Í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur starfsnám sífellt orðið algengara og margir háskólagengnir einstaklingar líta á það sem stökkpall  út í atvinnulífið. Réttindi starfsnemans fara þó algjörlega eftir ráðningu þeirra. Í Bretlandi er starfsnám til að mynda stundum kallað starfsþjálfun (work placement) eða einfaldlega atvinnureynsla. Þessir titlar hafa þó enga lagalega tilvísun og réttindi starfsnemanna fara algjörlega eftir þeim samningum sem gerðir eru við atvinnuveitanda. Atvinnuveitandi getur ráðið starfsnemann inn sem starfsmann, vinnumann (worker) eða sjálfboðaliða.

Á Íslandi eru ekki sömu samningar um starfsnám til staðar og með vaxandi áhuga nemenda eftir starfsnámi hlýtur því að vera nauðsynlegt að byggja betri ramma utan um það. Ásta telur einnig mikilvægt að passa upp á að ekki sé verið að misnota starfskrafta nema í starfsnámi og ef til vill mætti veita honum einhvers konar umbun. Í starfsnámi felast tækifæri fyrir báða aðila en það er mikilvægt fyrir bæði nemendur og fyrirtæki að sjá hverju samstarfið á að skila.

Vísindaferðir eru tækifæri

Gréta Sigríður Einarsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við Háskóla Íslands en námið er kennt á Hugvísindasviði. Hluti af náminu er starfsnám og fær nemandi tuttugu einingar fyrir þann hluta námsins. Gréta Sigríður vann því í tíu vikur hjá útgáfufyrirtækinu Bjarti – Veröld. Gréta kveður starfsnámið hafa verið fjölbreytt og að hún hafi fengið tækifæri til þess að kynnast starfsemi fyrirtækisins. Að hennar mati var hún betur undirbúin fyrir starfsferil í slíkri vinnu eftir að hafa kynnst fólki innan geirans.

Oft reynist erfitt fyrir nemendur að byggja upp tengslanet að loknu námi, sérstaklega ef öll starfsreynsla þeirra takmarkast við svið sem er algjörlega ótengt námi þeirra. Að mati Grétu jukust tækifæri hennar á atvinnumarkaði talsvert eftir starfsnámið. „Öll reynsla kemur sér að sjálfsögðu vel, sérstaklega þegar ferilskráin er fátækleg eftir mörg ár í háskóla.“ Gréta stundaði grunnnám í bókmenntafræði og nefnir hún að áhugavert hafi verið að kynnast hinum hagnýta hluta bókaútgáfunnar, en það er eitthvað sem lítið er rætt í bókmenntafræðinni.

Ásta Gunnlaug nefnir einnig í þessu samhengi að nemendafélög gætu skipulagt vísindaferðir með það að markmiði að kynnast fyrirtækjum og þannig nýtt hvert tækifæri til þess að byggja upp tengslanetið meðan á námi stendur. Oft er litið á vísindaferðir innan háskólans sem upphaf góðrar helgar og tilefni til drykkju frekar en tækifæri til þess að mynda tengsl. Í vísindaferðum geta einmitt skapast góð tækifæri fyrir nemendur til þess að fá að heyra hvers konar kröfur fyrirtækin gera og hverju sóst er eftir við ráðningar.

Ólík reynsla af starfsnámi erlendis

Hildur Oddsdóttir hefur, líkt og Gréta, reynslu af starfsnámi en hún er nemandi í rekstrarverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún starfar eina önn í starfsnámi hjá verkfræðistofunni Mannviti en starfsnámið er hluti af námi hennar. Hún hefur einnig unnið í starfsnámi við Toulouse Business School í Frakklandi. Í HR fær hún sex einingar fyrir starfsnámið, eða sem nemur einum  áfanga. Hún fær ekki greitt fyrir starfsnámið en telur það fyrst og fremst dýrmæta reynslu að vinna undir handleiðslu þeirra sem reyndari eru í atvinnulífinu. Líkt og Grétu finnst henni hún græða margt á starfsnáminu þar sem hún fær til dæmis smá reynslu á atvinnumarkaðinum fyrir meistaranám. Þegar Hildur var starfsnemi í Frakklandi fékk hún þó að sjá aðra hlið á starfsnáminu. „Í Frakklandi er stór hópur menntaðra ungmenna atvinnulaus og margir atvinnurekendur nýta sér aðstöðu sína með því að ráða launalausa starfsnema í vinnu í stað launaðra starfsmanna. Þar var munur milli starfsnema og starfsmanna frekar óljós.“

Að mati Hildar er það því afar mikilvægt að starfsnemar séu verndaðir gagnvart misnotkun sem þessari. Gréta tekur í sama streng og nefnir þar hina fjárhagslegu erfiðleika sem ungt fólk þarf nú þegar að glíma við. Segir hún starfsnám vera eitthvað sem er afar auðvelt að misnota og segist hún sjálf setja spurningamerki við starfsnám sem er ekki viðurkennt af Háskólanum eða er til lengri tíma.

Traustur rammi starfsnáms er lykilatriði

Það er hagur nemenda og fyrirtækja að háskólar á Íslandi efli tengsl við atvinnulífið og bjóði til að mynda  upp á frekari möguleika á starfsnámi á BA/BSc stigi. Þá gætu nemendur kannski sjálfir reynt koma starfsnáminu í kring með leiðsögn starfsmanna á hverju sviði og reynt að sækja um einingar fyrir slíkt. Eins og staðan er núna er það ólíkt eftir deildum hve mikil tengsl deildir hafa við atvinnulífið.

Tengslatorg er nýtt samstarfsverkefni Stúdentaráðs og Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands en þar er gerð tilraun til þess að efla tengsl nemenda Háskóla Íslands við atvinnulífið. Vefurinn er hugsaður sem alhliða atvinnumiðlun fyrir nemendur skólans. Af því tilefni býður Háskóli Íslands fyrirtækjum og stofnunum upp á að auglýsa endurgjaldslaust eftir sumarstarfskröftum á Tengslatorgi. Alþjóðastofnun veitir einnig styrki og tengsl í gegnum Erasmus til þess að stunda starfsnám erlendis þótt það sé einungis á takmörkuðum sviðum. Greinilegt er að myndast hefur grundvöllur innan háskólaumhverfisins fyrir betri tengingu milli háskólanáms og atvinnulífsins. Krafa stúdenta eftir tryggingu um framhald eftir háskólapróf eykst stöðugt og því er mikilvægt að þetta góða tækifæri, sem starfsnám getur verið, verði ekki misnotað. Mikilvægt er því að skapa traustan og öruggan ramma í kringum starfsnám í tengingu við háskólana.


Texti: Bryndís Silja Pálmadóttir