Skólinn minn: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir

 

Hvað ertu að læra og á hvaða ári ertu?

Ég útskrifaðist með BA í lögfræði síðastliðið vor og er nú í meistaranáminu og er því á fjórða ári.

Hversvegna lögfræði?

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á þjóðfélagsmálum, lögfræði fer inná mörg svið þjóðfélagsins og ég fékk tækifæri til að starfa á lögmannsstofu árið sem ég tók mér frí frá námi eftir útskrift í Verzló. Eftir það var ég alveg ákveðin að fara í lögfræði.

IMG_4324.jpg

Hver er besti kúrs sem þú hefur setið?

Ég myndi segja að refsiréttur hjá Jóni Þór Ólasyni væri besti kúrsinn því hann var bæði skemmtilegur og fróðlegur og í framhaldi fór ég að starfa á vettvangi sem tengdist kúrsinum mjög náið sem lögreglumaður.

Hvað er það besta við Háskóla Íslands?

Ég held að það besta við HÍ sé fólkið og félagslífið, hér hefur maður kynnst ómetanlegu fólki.

Hvaða samgöngumáta notar þú til þess að komast í og úr skóla?

Ég nota bíl og finnst það alveg lífsnauðsynlegt. Mér hefur a.m.k. ekki tekist að skipuleggja líf mitt á þann veg að ég nái að nota aðra samgöngumáta.  

Stundarðu vinnu með skóla?

Ég stunda ekki launaða vinnu, en ég stunda hinsvegar gríðarlega mikla ólaunaða sjálfboðavinnu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég er ritari Sjálfstæðisflokksins og sinni þar með ýmsum skyldum fyrir flokkinn. Ritari Sjálfstæðisflokksins er einskonar annar varaformaður, ber ábyrgð á innra starfi flokksins, sit þingflokksfundi og ýmislegt fleira.

Ef þú værir ekki að læra lögfræði, hvað myndir þú vera að læra?

Hagfræði eða verkfræði myndi ég halda, ég hafði mikinn áhuga á stærðfræði í framhaldsskóla og því kannski smá ótrúlegt að ég hafi valið lagadeildina.

Ef þú værir í námi erlendis hvaða land, staður eða skóli yrði fyrir valinu?

Ég hefði mikinn áhuga að fara til Bandaríkjanna í nám og auðvitað helst í Harvard eða Stanford. Þó einnig til Bretlands þar sem ég dvaldist þar í fimm mánuði og stundaði nám í ensku, Cambridge var dásamlegur bær að búa í þar og ég heillaðist gríðarlega að staðnum og væri mikið til í að fara þangað að nýju.

Hvernig slakar þú á til þess að gleyma skólanum?

Ég gleymi því oft að ég sé í skóla svona dagsdaglega, hef svo margt fyrir stafni á hverjum degi að ég þyrfti kannski frekar að einbeita mér að því að muna eftir því að sinna skólanum. Annars slaka ég best á þegar ég er komin heim á kvöldin, get verið ein með sjálfri mér og helst gert ekki neitt, það finnst mér frábært.

Hvaða skemmtilesning er á náttborðinu þínu núna?

Það eru þrjár bækur á náttborðinu mínu núna, annarsvegar bókin Heimur batnandi fer, ævisaga Malala Yousafzai og Sjóblinda eftir Ragnar Jónasson. Allt bækur sem mig langar að klára lesa og því læt ég þær blasa við mér á náttborðinu til að minna mig á að gefa mér tíma til að lesa eitthvað annað en bækurnar í lagadeildinni.

Hvað þarftu að meðaltali langan nætursvefn?

Venjulega þarf ég u.þ.b. sjö til átta klukkutíma, en þegar það er mjög mikið að gera og ég mögulega orðin smá langþreytt þá sef ég oft töluvert lengur.

Ertu „A“ eða „B“ manneskja?

Ég myndi telja mig frekar mikla A manneskju, ég kann vel við það að vakna snemma og sofna iðulega um leið og ég kem heim til mín á kvöldin. Það er ansi sjaldan sem ég næ að halda mér vakandi yfir sjónvarpsþáttum til að mynda þegar langt er liðið á kvöldið.

Ef þú mættir velja hvaða þrjá einstaklinga sem er með þér í heitapottaspjall, hverja fengirðu með þér?

Ætli ég myndi ekki vilja eiga eitt heitapottaspjall í viðbót með mömmu minni Kristínu Steinarsdóttur heitinni, þá gæti verið gaman að fá með okkur kröftugar konur á borð við Beyoncé og Margreti Thatcher. Gæti orðið skrautleg og skemmtileg heitapottsferð þótt ég njóti þess alltaf best að fara í pottinn með vinkonum mínum og eiga almennilega einlægt og hreinskilið spjall um daginn og veginn.

Ef þú gætir breytt þremur hlutum við Háskóla Íslands eða lagadeildina, hverju myndirðu breyta?

Fyrst myndi ég vilja að fyrirlestrar í náminu væru teknir upp og aðgengilegir fyrir skráða nemendur á uglunni. Í öðru lagi finnst mér að kennslan mætti vera mun fjölbreyttari en einungis í fyrirlestraformi og í þriðja lagi myndi ég vilja að það væri opið lengur milli háskólans og Stúdentakjallarans, mun aldrei fá það skilið af hverju það þarf að læsa hurðinni svona snemma.

Kláraðu setninguna: „Þegar ég var lítil…“

var ég í pössun hjá 12 ára stelpu og ég klemmdi mig svo illa á hurð að ég missti smá af litla putta.


Viðtal: Kristinn Pálsson

Mynd: Håkon Broder Lund