Hlaupahópur HÍ lætur óveður ekki stoppa sig

Það er vaskur hópur hlaupara sem hittist við íþróttahús Háskóla Íslands og hleypur saman í hádeginu á þriðjudögum og fimmtudögum. Melkorka Árný Kvaran, íþrótta- og matvælafræðingur, er þjálfari hópsins.

Hlaupahópurinn æfir alla þriðjudaga og fimmtudaga kl.12:05–13:00 frá september og út maí en stundum hefur júní bæst við líka. 

Að sögn Melkorku er alltaf fastur kjarni sem mætir óháð veðri og færð. Alls eru um 10–20 hlauparar sem mæta á hverja æfingu en oft fleiri á góðviðrisdögum. 

Eftir að Melkorka tók við hópnum hefur aðeins einn tími fallið niður vegna veðurs. Æfingum hópsins er ekki aflýst nema almannavarnir vari fólk við að vera á ferli vegna ofsaveðurs. Að öðrum kosti klæðir hópurinn sig eftir veðri og leitar uppi skjólsælli staði. Fólkið kemur jafnvel enn orkumeira og hressara til baka úr þeim hlaupatúrum.

Allir starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands geta mætt á þessar hlaupaæfingar. Þeir þurfa þó að eiga kort í íþróttahúsinu en árskortið kostar ekki nema 8.000 krónur. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega í hlaupahópinn heldur aðeins mæta við anddyri íþróttahússins á æfingatíma.

Melkorka segir að það skemmtilega við hópinn sé hversu blandaður hann er af nemendum og starfsfólki skólans. Umfram allt er hópurinn hress og skemmtilegur og margar innihaldsríkar samræður sem skapist á æfingum. Það, ásamt óbilandi áhuga á útiþjálfun og hlaupum, er það sem Melkorku þykir best við þjálfarastarfið. 

Aðspurð hvort æfingarnar henti jafnt byrjendum sem lengra komnum segir Melkorka svo vera. Hún leggur mikið upp úr því að uppsetning æfinganna sé þannig að allir fái það sem þeir sækjast eftir á æfingunum.

Byrjendur þurfa ekkert að óttast því allir fá verkefni við hæfi. ,,Að mæta á fyrstu æfinguna er fyrsta markmiðið fyrir byrjandann. Að klára fyrstu æfinguna ætti að vera annað markmiðið. Eftir það getum við byggt ofan á þennan ísbrjót sem hefur átt sér stað hjá byrjanda í hlaupum. Markmiðið þarf að vera lágstemmt og raunhæft. Einstaklingarnir eru svo misjafnir og grunnurinn ólíkur og því þarf að skoða tilfelli hvers og eins, þ.e. hvað sé raunhæft fyrir viðkomandi. Hafi einhvern lengi langað að prófa að hlaupa en ekki haft sig út í að reima á sig skóna þá hvet ég hann til að mæta á næstu hlaupaæfingu HÍ-hópsins og ég tek vel á móti honum,” segir Melkorka glöð í bragði.

Nokkur atriði þarf að hafa í huga þegar fólk leggur af stað í hlaupaævintýrið. Góður skófatnaður og jákvætt hugarfar gagnvart veðrinu og eigin þreki er í raun það sem mestu máli skiptir til að komast af stað.  Gamlir og slitnir skór geta dregið verulega úr allri ánægju. Melkorka bendir á að ekki þurfi að eiga nýjasta og flottasta fatnaðinn svo lengi sem hann sé þægilegur, andi vel og haldi á manni hita. 

Sjálf er hún oftast bara í ullinni næst sér á veturnar. Hún gæti ekki hlaupið án húfu eða eyrnabands og vettlinga. Þá mælir hún jafnframt með því að hlauparar negli skóna sína fyrir vetrarfærðina. Það veitir mikinn stöðugleika og öryggi í hálkunni sem getur orðið ansi hressileg á okkar hrjóstruga landi.

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja hvernig næra skuli kroppinn áður en mætt er á hlaupaæfingu í hádeginu. Melkorka segir að það sé gríðarlega persónubundið hvað fólki þyki best að borða fyrir hlaupaæfingar. Flestum dugar að borða góðan morgunverð um morguninn og svo eitthvað létt 30–90 mínútum fyrir æfinguna, t.d. banana eða brauðsneið. Rúsínur og gulrætur eru líka heppilegt snarl stuttu fyrir æfingu sem fer fljótt út í blóðið og gefur orku án þess að taka of mikið pláss í maganum. Að lokinni æfingu skiptir svo miklu máli að næra sig vel og drekka vatn.

Stúdentablaðið þakkar Melkorku kærlega fyrir spjallið og hvetur alla áhugasama til að mæta á næstu æfingu!