Íslensk deitmenning er...

...eins og að vera í atvinnuviðtali

Að vera á stefnumótamarkaðnum er svolítið eins og að vera sífellt í atvinnuviðtali. Ég er búin að fara í þónokkur upp á síðkastið, því að auk þess að vera „raðdeitari“ í anda Taylor Swift, þá er ég einnig að glíma við krísuna: „Hvað skal gera við framtíð mína?”. Það sem ég á við með því að markaðurinn sé eins og stanslaust atvinnuviðtal er að það er sífellt verið að vega mann og meta. Ef ég stíg eitt feilspor, til dæmis tala of mikið í bíó, býð manninum upp á bjór eða segist ekki þurfa að fara heim til að sækja tannburstann minn fyrir næturgistinguna, er ég dæmd. Ég til að mynda hef oft horft framhjá ýmsu kynlegu í þeirra fari. Þó að það að vera kölluð málóð af síðasta ástmanni hefði átt að kveikja einhverjar viðvörunarbjöllur. Plús hann trúði víst ekki á hlýnun jarðar, en á móti þá mundi hann alltaf eftir kommusetningu á facebook spjalli. Kannsi verð ég að byrja velja betur og hætta að velja ástmenn út frá því hvaða skóm þeir klæðast?

...fullkomin ímynd á Tinder

En hvað gerir maður ekki til að finna þessa ást sem allir eru að tala um og vilja að maður finni? Maður lítur framhjá ýmsu. Tinder prófíllinn er betur uppsettur en ferilskráin, enda er alltumlykjandi  pressa að hafa ímyndina á samfélagsmiðlumalveg pottþétta. Ég held ég hefði aldrei uppgötvað hversu grunnhyggin, dómhörð og fordómafull ég er fyrr en ég prufaði Tinder, sem ég eyði út reglulega en enda síðan alltaf einhvern veginn aftur með í símtækinu.

...ofar skilningi gamla fólksins

Þegar maður fer í hið árlega fjölskylduboð er maður varla stiginn inn fyrir dyrnar áður en maður hefur fengið þá athugasemd að vera ein minnar kynslóðar í fjölskyldunni sem ekki hefur eignast barn. Í kjölfarið fylgja spurningar um ástamálin en kona getur ekki annað gert en að hlæja gervilega og hugsa um hvort hún eigi að viðurkenna að hafa mætt skítþunn og nýkomin úr bóli tíunda viðfangsins sem hún kvaddi með sæmd sama dag. Fólk hefur bara svo ægilegar áhyggjur af því að einhver, guð forði því, skuli pipra. Veit ekki hvort að þessar gömlu frænkur átti sig á því að deitmenningin virkar bara svona á Íslandi. Allir fara bara heim með einhverjum af djammi miðbæjarins þangað til að ákvörðun er tekin um að vilja halda sig við einn ákveðinn. Mögulega vegna þess að það hopp heppnaðist best eða vegna þess að pressan var orðin of mikil að staðsetja sig með einum aðila. Leigumarkaðurinn á Íslandi gefur manni til dæmis lítið svigrúm til að kjósa sér að vera einn, erfitt að finna sér sæmilega íbúðarholu nema hafa eitt stykki sálufélaga með í för. Þannig mætti segja að þrýst sé úr mörgum áttum.

...eins og gömlu dansarnir

Einhver „hefðbundnari“ deitmenning, beint út úr rom-com Hollywood, virðist þó vera að fæðast með tilkomu Tinder. Mestmegnis er það takmarkað við svokölluð „netflix and chill“ en fólk er þó farið bjóða út í meira mæli en áður. Þó meirihlutinn láti sér nægja aukið sjálfsálit frá hverri samsvöruninni (e.match) sem dettur inn án þess að segja stakt orð að þá er aðdáunarvert, mögulega mesta afrek hversdagsins, að bjóða út á stefnumót. Endalausar hafnanir geta fylgt því en það er svo yndislega hugrakkt og skemmtilegt. Ég tek ofan hattinn fyrir öllum þeim sem bjóða út. Að sama skapi vil ég benda á að það ætti ekki að einskorðast við að karlkynið bjóði. Skrítið að sumir virðist haldi það enn í dag,  meina við lærðum flest öll í danskennslu í grunnskóla að stelpur og strákar skiptast á að bjóða upp í dansinn. Oft virðist allt þetta húllumhæ í kringum deitmenninguna einmitt svipa mjög mikið til dansins í grunnskóla. Allir vandræðalegir að reyna að fela sveitta lófa og vona að stíga ekki á fæturna á félaga sínum.

...að slíta sambandinu með þögn

Að deita einhvern þýðir ekki að þú þurfir að eyða lífinu með viðkomandi. Fólk þarf að vita að það er hægt að deita og hittast í ákveðinn tíma en hætta síðan við á ákveðnum tímapunkti. Oft virðist þó gleymast að láta ástarviðfangið vita en sú aðferð að hunsa aðilann algjörlega virðist vera fremur vinsæl meðal óvissra Íslendinga. Eins og það sé auðveldara að hætta bara að tala við manneskjuna frekar en að henda í lauflétt skilaboð. Litla landið gerir það líka að verkum að við munum hittast vikuna eftir á næsta götuhorni í vandræðalegum augngotum og  mögulega mörgum sinnum eftir það.

...að kunna að tapa

Þegar upp er staðið er þó hver  ósigur í raun sigur út af fyrir sig. Það var kannski mjög mikil von um að samruninn myndi virka í byrjun og fyrirheit og væntingar um kvikmyndaástir fylltu hugann af þoku en einhverra hluta vegna small þetta ekki saman. Þið voruð of ólík eða ekki á réttum stað í lífinu. Því er um að gera að klára að semja níðvísur um fyrrum ástmenn, detta í rauðvínsflösku og bjóða næsta út á deit.


Pistill: Díana Sjöfn Jóhannsdóttir

Teikning: Orri Snær Karlsson