Íslensk rapptónlist skemmtilega heiðarleg

Hinn tuttugu og þriggja ára gamli Jóhann Karlsson, betur þekktur undir nafninu Joe Frazier, er rísandi stjarna í hipphopp-senunni á Íslandi og hefur verið að útsetja, hljóðblanda og semja takta (e. beats) fyrir mörg af þekktustu nöfnunum hér á landi. Jóhann hefur mestmegnis verið að vinna í mjög nánu samstarfi við rapparann Herra Hnetusmjör að undanförnu og eru þeir félagar nánast orðnir óaðskiljanlegir, eða „fullkomin pörun,“ eins og hann segir sjálfur. Nýverið kom út tónlistarmyndband við lagið Fáum borgað sem Herra og Joe sömdu ásamt rappkempunni Blaz Roca en þeir þrír eiga það sameiginlegt að vera fulltrúar Kópavogs-klansins. Jóhann hefur einnig unnið að útsetningum og taktasmíð fyrir tónlistarmenn og rappara á borð við Bent, Friðrik Dór og Emmsjé Gauta og á til að mynda nokkur lög á nýjustu plötu Gauta sem er væntanleg á árinu.

Eftir miklar umræður um að hittast á vel völdum KFC stað í höfuðborginni enda ég á að hitta Jóhann á Stúdentakjallaranum í bjór. „Við Árni vorum einmitt saman í viðtali hjá honum Dóra DNA á Kenny [KFC] um daginn fyrir þáttinn hans, Rapp í Reykjavík, en Kenny er svona okkar heimavöllur,“ segir Jóhann og hlær. Jóhann er hress, íklæddur bomberjakka og Jordan skóm en þeir hafa orðið að eins konar einkennisbúningi hjá honum, hann afsakar sig síðan fljótt fyrir að vera nýskriðinn upp úr veikindum þó hann beri það ekki utan á sér.

Mikill uppgangur hefur verið í rapptónlist á Íslandi og segir Jóhann að hann sé ánægður með að stíga inn í senuna á besta tíma, eða það sem mætti kalla ákveðið blómaskeið í íslensku hipphoppi og rapptónlist. Að mati Jóhanns er tónlistarstefnan ein sú vinsælasta í dag og hann fagnar því að meiri virðing sé borin fyrir rappinu nú en áður fyrr.

Listsköpun heillaði
Spurður út í það hvernig hann byrjaði á því að semja takta og útsetja lög segist Jóhann hafa smitast af bræðrum sínum, sem voru báðir meðlimir í sveitinni Dáðadrengir á sínum tíma, en mikil tónlistar- og listsköpun ríkir í fjölskyldunni. „Ég byrjaði á því að fikta í tölvunni hjá elsta bróður mínum og það var svo árið 2011, minnir mig, sem að ég tók bara tímabil þar sem ég var mjög mikið heima að gera takta því það var bara það sem mér fannst skemmtilegast að gera.” Á barnsaldri voru draumar Jóhanns að mestu tengdir listsköpun að einhverju tagi en hann segist hafa haft hug á því að verða leikari, dansari eða jafnvel tölvuleikjasmiður áður en hann fór út í tónlist. Hann lítur svo á að bræður sínir og tónlistarsköpun þeirra hafi haft mikil áhrif á endanlegt val sitt og að það sé eitthvað innra með honum sem kalli á hið listræna og skemmtilega frekar heldur en hið gáfulega og leiðinlega, eins og Jóhann komst svo skemmtilega að orði.

Risavaxnir draumar
Um drauma nánustu framtíðar  segist Jóhann óska sér að fara í frekara tónlistarnám úti í listamannaparadísinni Los Angeles. Hann bætir síðan við að ákveðin krísa hrjái hann þessar mundir og að hann ætli sér að skoða það vel á árinu hvaða leið hann vilji fara í tónlistinni eða hvort hann eigi að taka sér eitthvað annað fyrir hendur. Jóhann segist upplifa mikla samfélagslega pressu, þar sem ávallt er búist við því að listsköpunin sé einungis stutt tímabil ævinnar.

Hann minnist á að ungt fólk haldi að það þurfi að hafa allt sitt á hreinu. „Ég festist sjálfur alveg oft í því að finnast ég þurfa að finna mér eitthvað eitt ákveðið að gera enda ekkert öruggt í þessum bransa þar sem að í einum mánuðinum getur verið brjálað að gera á meðan í þeim næsta er kannski ekkert eða mjög lítið. Ég held samt að mig langi að vinna í tónlist þangað til ég átta mig á að það sé ekki raunhæft, en þangað til langar mig að vera ungur og heimskur eins lengi og ég get. Það er alltaf þessi pressa á mann að maður fari að gera eitthvað alvöru eins og að læra í Háskólanum. Held að margir sem eru að gera eitthvað listrænt upplifi þessa togstreitu, að vilja halda áfram í listsköpun en finna fyrir pressunni að þurfa að finna sér „alvöru vinnu“.”

Jóhann hugsar sig síðan aðeins um og bætir við að  það að prófa sig áfram og taka áhættur í lífinu sé algjörlega þess virði. „Ef maður er með eitthvað sem maður vill gera og hefur með ástríðu fyrir ætti maður að gera það annars pælir maður alltaf í þessu „hvað ef“. Það leita allir eftir einhverju sem þá langar til að gera og margir finna það kannski aldrei, en ég er núna með eitthvað sem ég er mjög „passionate“ fyrir og langar að gera – og er að gera.“

Samstarf göfgar og gefur
Samstarfið við Árna Pál, öðru nafni Herra Hnetusmjör, hefur að eigin sögn verið mikil lyftistöng fyrir Jóhann og gefið honum færi á að kynnast fleirum í bransanum og víkka út sjóndeildarhringinn. Samvinnan hófst þegar Árni, sem hafði heyrt af Jóhanni frá sameiginlegum vini, hafði samband við Jóhann í gegnum Facebook og bað hann um að senda sér efni sem hann væri að búinn að vera að vinna að. Stuttu eftir það settust þeir niður í stúdíói og sömdu lagið Hvítur bolur gullkeðja á mettíma eða á einungis einni kvöldsetu. „… Og upp frá því urðum við bara mjög góðir vinir og erum orðnir hálfgert dream-team í dag. Í gegnum Árna fékk ég líka tækifæri til að rappa og syngja án þess að þurfa að prufa þá leið í grunninn sjálfur. Ég er útsetjari en mér finnst gaman að rappa og ég get sungið svo mér finnst gaman að fá tækifæri til að gera það líka án þess að þurfa að skapa mitt eigið rapp-game.“

Jóhann ber einnig mikið þakklæti til rapparans Emmsjé Gauta en að eigin sögn átti Gauti mikinn þátt í því að koma honum inn í tónlistarsenuna. Jóhann hafði einungis verið að leika sér heima við að semja og útsetja lög en ákvað síðan að ríða á vaðið og senda Gauta tölvupóst með hljóðprufum og spyrja hvort hann vantaði nokkuð hjálp við plötuna sína Þeyr. Þá hafði Gauti reyndar nýlokið allri vinnu við plötuna sína en líkaði svo vel við útsetningarnar sem Jóhann sendi honum að hann tók  tónsmiðinn unga upp á sína arma. Jóhann útsetti síðar lagið Í kvöld fyrir Emmsjé Gauta og Frikka Dór og á, eins og áður kom fram, nokkur lög á nýjustu plötu kappans. „Þetta er eiginlega bara heppni, ég meina, ég var bara heima hjá mér að gera ekki neitt þangað til ég sendi Gauta tölvupóst og datt inn í þetta. Við urðum í kjölfarið mjög góðir vinir og hann kynnti mig fyrir fleiri listamönnum í þessari tónlistarsenu. Á yfirborðinu er eiginlega engin samkeppni  í íslenskri tónlist, það eru eiginlega allir bara frekar góðir vinir, allir hjálpa hver öðrum. Það er frekar fallegt. Það er líka ekki til betri tími til að koma inn í þessa senu, en samt á sama tíma mjög ógnvekjandi því það eru allir að gera svo flotta hluti og maður þarf að vera sífellt á tánum til að halda í við hina.“

Rappið tekið alvarlega
En hvað er það sem veldur þessum uppgangi í rappsenunni á Íslandi? „Mér finnst eins og rapp á íslandi sé skemmtilega honest einhvern veginn, ef þú hlustar á textana. En það er mjög mikilvægt ef þú ert að monta þig í íslensku rappi að það sé trúanlegt. Sjálfstraust og framsetningin skiptir líka svo gríðarlega miklu máli, að þú sért að segja eitthvað af sannfæringu og ef eitthvað áhugavert gerist í lífinu þínu, þá semurðu kannski línu um það. Eins og við fengum einu sinni spons frá Nike, íþróttagalla og eitthvað, þá næst sömdum við lag þar sem við segjum til dæmis; „þurfti að borga fyrir föt en ekki lengur“ sem er eitthvað sem myndi ekki virka sem mont ef það væri bara lygi. Maður þarf að vera samkvæmur sjálfum sér sem persóna. Það er allt í lagi að ýkja en ekki að breyta því hver þú ert.“

Heiðarleikinn spilar þannig mikið hlutverk í góðu rappi að mati Jóhanns en hann minnist einnig á að íslenska tungumálið hafi sérstöðu í að skapa rappinu ákveðna harðneskju. „Mér finnst eins og rapp hafi líka alltaf fangað tíðarandann í samfélaginu miklu betur heldur en aðrar tónlistarstefnur og þess vegna birtist þverskurður af því sem fólk er að finna fyrir og því sem er í gangi.“ Að eigin sögn þykir Jóhanni sérstaklega vænt um þegar áhorfendur kunna lögin og syngja með. „Mér finnst geðveikt gaman þegar við erum að spila einhversstaðar og fólk kann textana mína. En ég held að árangurinn sem að lagið Já marh náði á íslandi sé stærsti sigurinn enn sem komið er, en það fór í gríðarlega mikla spilun.“ Jóhann bætir síðan fljótt við að tónlistarlífið sé endalaust hark og að mestu tekjurnar af vinnunni sé að fá af tónleikahaldi og flutningi. „Ég er því heppinn að hafa náð að koma mér með í lög sem eru vinsæl og fá að troða upp með Árna.“

Tónlistin og umrót samfélagsins
Jóhann vann í samstarfi við Herra Hnetusmjör að fyrstu plötu rapparans, Flottur Skrákur, en nýverið gaf tvíeykið einnig út smáskífu sem ber titilinn Bomberbois, en plötuna gáfu þeir út frítt á netinu. Fyrir utan að útsetja alla plötuna syngur Jóhann einnig og rappar með félaga sínum í lögunum. Samkvæmt Jóhanni er mjög mikilvægt að halda tónlistarsköpuninni lifandi og segir að með því að gefa út lög frítt á netinu reglulega séu þeir frekar bókaðir í gigg. Mikið af lögum þeirra fjalla um djammið og höfða að mörgu leyti til yngri kynslóðarinnar en þar sem rapptextar verða oftar en ekki eins og þverskurður af samfélaginu segir Jóhann að djammið sé aldrei langt undan, enda séu íslendingar mikil djammþjóð. „Það er líka gaman að djamma og það er svo gaman að hlusta á lög um djammið þegar þú ert að djamma. Og fólk hlustar mikið á það því það er alltaf að djamma. Eins og þegar Úlfur Úlfur rappar um hvað djammið er ógeðslegt, og það er það. Og það vita það allir og því tengja allir við það en samt er það sett í partýbúning þannig að það er ennþá partý.“

Tónlistar- og textasköpun kallar á ákveðið menningarlæsi og aðspurður segir Jóhann að hann passi sig á að vera meðvitaður um hvaða hljómur sé í gangi hverju sinni, þó honum þyki einnig gott að loka sig af og skapa eitthvað algjörlega út í bláinn. Mikilvægt sé þó að vera ávallt með puttann á púlsinum og lesa markaðinn hverju sinni. „Er byrjaður að finna fyrir því núna þegar ég verð eldri versus þegar ég byrjaði og var yngri að ég er farinn að pæla meira í markaðnum. Áður var maður kannski bara að gera eitthvað því það var kúl eða skemmtilegt.“ Jóhann telur þó að tónlist þurfi alltaf að vekja einhverja tilfinningu hjá hlustendum. „Stundum þegar þú hlustar á eitthvað geðveikt gott rapplag líður þér eins og þú sért geðveikt kúl á meðan þú ert að hlusta, og mér finnst það svolítið öflugur eiginleiki tónlistar, þegar hún vekur einhverja tilfinningu hvort sem það sé gleði eða eitthvað dýpra.“

Vill gera, ekki bíða
Spurningum um hvað framtíðin beri í skauti sér og hvað sé næsta skref svarar Jóhann á þá leið að hann ætli sér að halda áfram að vinna eins mikið og hann geti í tónlistinni en muni jafnvel síðar stefna á tónlistarnám erlendis. Þó finnst honum ógnvekjandi sú hugsun að enda með há námslán í eins óöruggum bransa og tónlistin er hérlendis. Gott tónlistarnám gæti samt gefið honum aukið tækifæri til þess að virkja sköpunargáfuna, víkka sjóndeildarhringinn og kynnast listamönnum frá öðrum löndum. Jóhann segist þó vilja horfa mest til núlíðandi stundar og áætlar að skapa enn frekar á árinu og jafnvel fara að vinna með fleiri mismunandi tónlistarmönnum. „Mér finnst gaman að gera allskonar tónlist með allskonar fólki. Kannski prófa ég að vinna með söngkonu eða vinna meira í poppaðri tónlist, þó að við Árni vinnum mjög vel saman og munum halda samstarfinu áfram. Ég vil prófa mig áfram og sjá hvað ég næ að skapa.“ Þeir Árni eiga þó nokkur verkefni framundan á árinu, eru bókaðir á mörg menntaskólaböll og árshátíðir en síðan taka við stærri verkefni í sumar og eru þeir til að mynda að fara að spila á Secret Solstice hátíðinni og einnig á útihátíðum en þeir eru m.a. bókaðir á Húkkaraball Þjóðhátíðarinnar í ágúst.

Sjálfstraustið og áhættan
Undir lok viðtalsins gat blaðamaður varla setið á sér og spurði Jóhann út í kynjamun tónlistarlífsins á Íslandi. Hvað þykir honum um það að rappsena landsins sé að mestu leyti fremur karllæg? „Ég bara er ekki alveg viss af hverju það er, kannski vantar margar stelpur sem langar að gera þetta sjálftraust í að kýla á það og hvort það sé útaf samfélagslegri pressu eða öðru, ég  bara veit það ekki. En ég held að þetta sé að fara að þróast. Svo koma svona stelpur sem að enginn getur neitað að eru illaðar, ég meina eins og Nicki Minaj er betri en flestir karlkyns rapparar, hún er bara geggjuð og það er ekkert hægt að neita því. En ég bara hvet alla,  bæði stelpur og stráka til þess að kýla á það. Internetið gefur líka svo mikla möguleika. Maður veit aldrei fyrr en maður reynir.“


Viðtal: Díana Sjöfn Jóhannsdóttir
Myndir: Håkon Broder Lund