Kynslóð í krísu? Þúsaldarkynslóðin í tölum

Sjálfsupptekin. Tæknivædd. Sveigjanleg. Þannig hafa margar rannsóknir, greinar og bækur á síðustu áratugum reynt að skilgreina þá kynslóð sem er fædd upp úr 1980, sumir telja frá árinu 1982, og fram að aldamótunum 2000. Kynslóðin fékk snemma heitið Generation Y á ensku, hún tekur við af hinni rómuðu Generation X, en á síðari árum hefur heitið millennials orðið yfir í enskumælandi umræðu, sem má þýða sem þúsaldarar á íslensku.

Þúsaldarkynslóðin fæddist í upphafi tölvualdarinnar, í æsku þeirra sem henni tilheyra voru borðtölvur að verða staðalbúnaður á heimilum, netið var í stöðugri framþróun og í seinni tíð hafa fartölvur, snjallsímar og samfélagsmiðlar orðið alltumlykjandi hluti af veruleika þeirra. Þetta fólk er á milli 16 og 33 ára, í grófum dráttum það sem má kalla „ungt fólk“ í dag. Þessi kynslóð hefur af sumum verið stimpluð löt og ósjálfbjarga, sem er stundum rakið til uppeldisaðferða sem leggja áherslu á að allir séu einstakir, hæfileikar hvers barns eru metnir að verðleikum og að „allir fá bikar“ fyrir þátttöku fremur en frammistöðu.

Á hinn bóginn sýna nú margar rannsóknir að þúsaldarar séu í lítt eftirsóknarverðri stöðu fjárhagslega, eftir dýrt háskólanám hafa þeir takmarkaða möguleika á vinnumarkaðnum, og eiga í erfiðleikum með að ná þeim takmörkum í lífinu sem foreldrarnir gerðu  á sama aldri – kaupa íbúð eða hús, giftast og stofna fjölskyldu. Fjárhagslegt öryggi er mun minna í dag samhliða því sem möguleikarnir sem bjóðast ungi fólki fjölgar í hnattrænu samhengi en þetta leiðir af sér heila kynslóð af „fullorðnu“ fólki sem lifir ennþá eins og táningar gerðu áður fyrr.

Margar þeirra tölulegu upplýsinga sem hér birtast byggja á alþjóðlegum rannsóknum en í hnattvæddu samfélagi okkar, þar sem landamæri afmást fyrir tilstilli alnetsins, má færa rök fyrir því að margt í þeim endurspegli jafnframt veruleika þúsaldara á Íslandi. Tækniframfarir, hnattvæðing og umhverfisógn auk fjármálakreppunnar 2008 hafa sett mark sitt á þúsaldarkynslóðina á heimsvísu.Texti: Elín Edda Pálsdóttir

Infógrafík: Hjalti Freyr Ragnarsson