Hvernig hyggst Háskóli Íslands meta menntun flóttafólks?

Nýverið birtist í fjölmiðlum frétt þess efnis að íslensk stjórnvöld ætli að bjóða 55 sýrlenskum flóttamönnum hæli hér á landi. Flóttafólk þetta hefur verið tilnefnt af svokallaðri flóttamannanefnd en nefndina skipa meðal annars flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Ísland nýtur þannig þeirra forréttinda að fá að velja og hafna fólki á flótta, ólíkt ríkjum eins og Líbanon, Jórdaníu og Tyrklandi sem nú eru að kikna undan fjölda flóttafólks og er það ein af þeim ástæðum að aðstæður fyrir flóttafólk í þessum ríkjum eru vægast sagt ómannúðlegar.

Fyrrnefndur hópur dvelur nú í einum af fjölmörgum flóttamannabúðum í Líbanon og á þar eflaust enga sæludaga. Talið er að um 1,5 milljón flóttamanna dveljist nú í hinu agnarsmáa landi Líbanon. Hvort sem um moldarsvað í formi tjaldbúða, sem hent hefur verið upp í flýti fyrir Sýrlenska flóttamenn, eða steinsteyptar flóttamannabúðir Palestínumanna sem eru nú einnig byggðar Sýrlendingum, þá eru aðstæður búðanna engum manni sæmandi. Í frétt um fyrrnefndan hóp, sem birtist á mbl.is er vitnað í Stefán Þór Björnsson, formann flóttamannanefndar, þar sem hann segir: „Þetta er mjög fjölbreyttur hópur, þarna er til dæmis pípulagningamaður, rafvirki, verkfræðingur, verkamenn, barþjónn, húsmæður, málari, maður með háskólapróf í enskum bókmenntum, túlkur og þýðandi. Við bindum miklar vonir við það að það muni ganga vel að koma fólki inn í íslenskt samfélag,“ Það er þá líklega hagur allra að innflytjendur og flóttamenn blandist vel inn í það samfélag sem þeir koma inn í sem og að samfélagið virði þá siði, venjur og reynslu sem flóttamenn og innflytjendur hafa í fartaskinu.

Sú staðreynd virðist nefnilega vera gjörn á að gleymast í umræðu um flóttafólk að flóttamenn eru fjölbreyttur hópur einstaklinga frá ýmsum löndum með ólíkan bakgrunn, menntun og reynslu, rétt eins og Íslendingar. Þeir sýrlensku flóttamenn sem nú bíða milli vonar og ótta í óvissu um hvort evrópsk ríki ákveði að taka við þeim, er oft menntað fólk. Fyrrnefnd frétt sem fjallar um þennan hóp flóttafólks sem boðið hefur verið hæli á Íslandi virðist einnig vera lituð af þeirri hugmynd að það séu forréttindi að búa á Íslandi – að fá inngöngu í litla  klúbbinn okkar Íslendinga á hjara veraldar. Þessi hópur hefur fengið ákveðna vottun, ólíkt fólki sem hírist í yfirfullum flóttamannabúðum eða sekkur í djúpan sæ á flótta.

Atgervissóun er þegar vandamál á Íslandi

Afar mikilvægt er að Íslendingar átti sig á þeim mannauði sem flóttamenn eru, hvað íslenskt samfélag mun græða á því að fá hingað fólk frá ólíkum menningarsvæðum sem og þeim áskorunum sem við þurfum að glíma við í sameiningu. Ein af þessum áskorunum er hvernig íslensk stjórnvöld, ríkisstofnanir og atvinnulífið hyggjast meta menntun og starfsreynslu þeirra flóttamanna sem hingað munu koma. Ef íslensk stjórnvöld munu efna loforð sín þá eiga Íslendingar von á að flóttamönnum fjölgi umtalsvert enda eru einungis fáir sem þegar hafa gert sig heimakomna hér á landi, með leyfi stjórnvalda.

Líklegt er að töluvert af þessu fólki verði Sýrlendingar líkt og fyrrnefndur hópur, þar sem um helmingur flóttafólks sem nú kemur til Evrópu er frá Sýrlandi. Ávinningur íslensku þjóðarinnar, sem og flóttafólksins, liggur væntanlega í því að innlima þetta fólk sem fyrst í íslenskt samfélag og hagkerfi. Það er að sjálfsögðu öllum í hag að ólík starfskunnátta og sá mannauður sem fólginn er í flóttafólki sé nýttur. Þar spilar Háskóli Íslands stórt hlutverk sem ríkisrekinn háskóli og ein af lykilstofnunum íslensks samfélags. Háskóli Íslands rekur Matsskrifstofu sem sér um að meta menntun þeirra einstaklinga sem hafa sótt sér menntun erlendis. Geta þetta verið skiptinemar, Íslendingar sem hafa menntað sig í öðrum löndum, innflytjendur eða flóttafólk.

Samkvæmt grein sem birtist í International Business Times síðastliðinn september er sýrlenskt flóttafólk töluvert líklegra til þess að vera menntað en flóttafólk frá öðrum löndum. Þetta er fólk sem oft kemur úr efri stigum samfélagsins, er háskólamenntað og hefur gjarnan langa starfsreynslu. Ein af ástæðunum fyrir því að unnið sé vel að komu flóttafólksins er þar af leiðandi tilraun til þess að tapa ekki þeim mikla mannauði sem íslensku samfélagi mun áskotnast.

Atgervissóun (e. brain waste), þ.e. þegar hluti af þegnum þjóðfélagsins er með nýtanlega menntun sem ekki er verið að nýta af einhverjum ástæðum, er nú þegar vandamál á íslenskum vinnumarkaði. Á Íslandi býr töluverður fjöldi innflytjenda sem ekki starfar í þeim geira sem menntun þeirra og starfsreynsla að heiman hefur undirbúið þá fyrir. Ástæðurnar fyrir atgervissóun geta verið margar en ein af þeim er sú að menntun fólks frá heimalandinu er ekki metin innan þeirrar greinar sem fólk sækist eftir að starfa í. Aðrar ástæður geta verið vandræði með vottun innan háskóla, að menntunin þyki ekki jafngild íslenskri auk félagslegra hindrana og fordóma.

Samkvæmt  dr. Brynju Elísabeth Halldórsdóttur, lektor við Háskóla Íslands sem meðal annars sér um sérstakt nám í alþjóðlegum menntunarfræðum, er töluvert meira um atgervissóun en fólk áttar sig á. Nám í alþjóðlegum menntunarfræðum er eitt af fáum valmöguleikum sem Háskóli Íslands býður upp á fyrir innflytjendur sem hafa lokið þeim kröfum sem þarf til þess að komast inn í Háskólann og er kennt á ensku. „Upphaflega var þetta nám hugsað fyrir innflytjendur sem vildu fara í háskólanám en treystu sér ekki í nám á íslensku en hafa þá kost á námi á háskólastigi.“ Dr. Brynja segir fólk einnig sækja í námið sem fyrir hefur háskólamenntun frá heimalandi sínu sem ekki er metin og er þetta ákveðin leið til þess að opna dyr inn í atvinnulífið. Þetta væri einn af þeim valmöguleikum sem Háskóli Íslands byði upp á fyrir flóttafólk sem getur vottað háskólamenntun sína heima fyrir en vill sækja frekari menntun á Íslandi.

Innan Háskólans hefur einnig sérstakur starfshópur verið settur á laggirnar sem ræðir ýmislegt í tengslum við móttöku flóttafólks og hvernig Háskóli Íslands skuli bregðast við. „Margt af þessu fólki er hámenntað og með fjölbreytta og góða starfsreynslu að baki,“ segir Áslaug Björnsdóttir, fulltrúi nemenda í starfshópnum. Hún bendir einnig á þá staðreynd að við Íslendingar getum ekki ætlast til þess að fá að fara í nám hvarvetna í heiminum á meðan við séum sjálf ekki tilbúin að gefa fólki annars staðar frá tækifæri í okkar landi. Vilji innan Háskóla Íslands til þess að aðstoða flóttafólk er augljóslega fyrir hendi.

Efnahagslegur ávinningur af flóttafólki

Í greiningarskýrslu frá Arion banka sem gefin var út 17. september 2015 um efnahagsleg áhrif móttöku flóttamanna kemur fram að innstreymi flóttafólks frá Sýrlandi hafi til lengri tíma litið jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf, þrátt fyrir að ákvörðun um komu þeirra væri vissulega aldrei tekin af efnahagslegum sjónarmiðum. En hvar liggur hindrunin inn í atvinnulífið? Hvaða möguleika hefur flóttafólk á að fá háskólamenntun sína metna, eða jafnvel að ljúka námi sem nú þegar er hafið á Íslandi?

Innan Háskóla Íslands starfa tveir aðilar sem meta einingar frá háskólum erlendis. Ína Dögg Eyþórsdóttir er ein þeirra en er hún nýlega komin heim frá Brussel þar sem hún fundaði með matsskrifstofum hjá háskólum annarra Evrópuríkja um hið víðtæka vandamál sem felst í mati á menntun flóttafólks. Segir Ína að í flestum tilfellum hingað til hafi fólki tekist að leggja fram tilskilin gögn þannig mögulegt sé að meta menntun þess og reynslan erlendis frá sýni að flóttamönnum frá Sýrlandi gangi yfirleitt vel með slíkt. Ína segir að háskólar í Evrópu notist við ólíkar aðferðir í þessum málaflokki en norskar matsskrifstofur fara til að mynda með lagalegt umboð og því hafa skrifstofur þar leyfi til þess að gefa út prófskírteini ef gögn flóttafólks samræmast stuðlum þar eða ef flóttafólk stenst matsferli sem byggist á meðal annars á stöðuprófum.

Á meðan hafa Svíþjóð og Ísland verið að gefa út svokölluð „bréf“ þar sem skrifstofurnar gefa ákveðna vottun á gögn einstaklinga. „Stundum eru gögnin einungis byggð á einni ljósmynd,“ segir Ína en erfitt getur reynst að meta reynslu og menntun flóttamannanna, sérstaklega þeirra sem ekki hefur tekist að taka tilskilin gögn með sér í ferðina sem oft er lífshættuleg. Samkvæmt Ínu eru aðilar innan Háskólans allir af vilja gerðir til þess að finna lausn á þessu vandamáli og nýta þeir sér ákveðna samstarfsaðila í neti sem nú þegar búið er að byggja upp.

Námsferill rofinn vegna flóttans

Þórunn Ólafsdóttir er fyrrum sjálfboðaliði á grísku eyjunni Lesbos og stofnandi hjálparsamtakanna Akkeris sem vinna að því að aðstoða flóttafólk. Segir hún að stór hópur ungs fólks frá Sýrlandi sé á flótta og hafi ekki náð að ljúka háskólanámi sínu áður en það flúði heimahagana. Algengt sé að ungir menn þurfi að flýja skömmu fyrir próflok, því að námi loknu er hætt við að þeir verði undir eins skikkaðir í herinn. Þetta var einnig ástæða þess að margir ungir menn í þessari stöðu flúðu strax í upphafi stríðsins árið 2011. Margir þessara ungu manna áttu því mjög lítið eftir af náminu þegar þeir flúðu en hafa oft litla möguleika á að taka upp þráðinn á nýjum dvalarstað vegna margvíslegra ástæðna.

Á Íslandi getur Lánasjóður íslenskra námsmanna einnig verið ákveðin hindrun fyrir flóttamenn, jafnvel þrátt fyrir að þeir fái nám sitt metið innan skólans. LÍN veitir eingöngu námslán til íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins. Flóttamenn geta í fyrsta lagi öðlast íslenskan ríkisborgararétt eftir fimm ára búsetu hér á landi, lögum samkvæmt. Þó má nefna að ríkisborgarar utan EES eiga möguleika á að sækja um námslán hjá LÍN ef þeir eru í hjúskap með íslenskum ríkisborgurum eða hafa átt lögheimili á Íslandi í að lágmarki tvö ár síðastliðin fimm ár áður en nám hefst. Flóttamenn þyrftu því að bíða í töluverðan tíma þangað til þeim tækist að hefja nám sitt, það er að segja ef þeir hafa ekki fjársterka bakhjarla eða vinnu með skóla. Þessi ákvæði eru bundin í lög og breytingar á þeim eru í höndum menntamálaráðherra.

Samkvæmt Ínu  getur reynst erfitt að meta menntun háskólamenntaðs fólks þar sem menntun er ólík eftir löndum og tungumálakunnátta fólks spilar einnig ákveðið hlutverk. Háskólinn vill reyna að koma til móts við þarfir fólks án þess að slaka á gæðastuðlum sínum. Sé þetta í raun spurning um útfærslu, peninga og tíma en á matsskrifstofunni starfa eingöngu tveir starfsmenn. Háskóli Íslands hefur þó ákveðið svigrúm til þess að meta einingar háskólanema eftir ECTS stuðlum, ef tiltekin gögn eru fyrir hendi og þar af leiðandi gætu þessir ungu háskólanemar frá Sýrlandi haldið áfram með nám sitt, það er að segja ef að deildir innan Háskólans gefa leyfi til þess. Það myndi eflaust veita flóttafólki sem þurft hefur að þola skelfilegar hremmingar á leið sinni hingað ákveðið öryggi að fá að halda áfram með nám sitt. Samkvæmt fyrrnefndri greiningu Arion banka á efnahagslegu sjónarhorni á komu flóttamanna mun íslenskt efnahagslíf skorta vinnuafl á næstu árum. Íslendingar eru að eldast og þar af leiðandi væri jákvætt að fá til Íslands yngra vinnuafl þrátt fyrir að sýrlenskt flóttafólk væri eflaust með ólíkan bakgrunn heiman frá.

Það er staðreynd að íslenskt samfélag mun þurfa að takast á við verðugt verkefni við það að koma flóttafólkinu inn á íslenskan vinnumarkað og mikilvægt er að sú atgervissóun, sem nú hrjáir íslenskt samfélag, muni ekki verða ríkjandi. Íslendingar þurfa að líta á flóttamenn sem uppsprettu þekkingar en ekki sem óskrifuð blöð sem þarf að kenna og móta. Háskólinn hefur greinilega hafið undirbúning þrátt fyrir að það sé vissulega atvinnulífið í heild sinni sem mun þurfa að taka á móti þessu flóttafólki. Nýtt kerfi í nýju landi er vissulega ákveðin hindrun fyrir nýlega aðflutta einstaklinga sem hyggjast taka þátt í atvinnulífinu og því verða Íslendingar að taka saman höndum við að létta undir með þeim. Auk þess er nauðsynlegt að tillit til þess fólks sem nú þegar hefur lagt mikið á sig til þess eins að komast hingað.

Leiðin inn í mennta- og atvinnulífið opnar ákveðnar dyr inn í samfélagið sem og að vera leið til þess að auka færni í tungumálinu. Ef við metum menntun og atvinnu þeirra einstaklinga sem nú þegar hafa fengið hæli hér og þeirra sem eru á leið hingað getur það verið ávinningur á báða bóga. Íslenskt samfélag og stjórnvöld mega ekki eingöngu líta á það sem forréttindi fyrir flóttafólk að koma hingað heldur einnig er mikilvægt að huga að fyrrnefndum þáttum um þann mannauð sem þetta fólk er,   menntun þeirra og hæfni. Það eru nefninlega líka ákveðin forréttindi fólgin í því fyrir okkur að fá þetta fólk hingað.


Texti: Bryndís Silja Pálmadóttir

HáskólinnStúdentablaðið