Ráðgjafar á röltinu: náms- og starfsráðgjafar á Háskólatorgi tvisvar í viku

Nemendur nýta sér í auknum mæli þjónustu Náms- og starfsráðgjafar á Háskólatorgi mánudags- og miðvikudagsmorgna milli 10:30 og 11:30. Tilgangur viðverunnar er meðal annars sá að vekja athygli nemenda á þjónustu  NSHÍ og vera sýnilegri í háskólasamfélaginu. Viðhorfskannanir hafa sýnt að sumum nemendum Háskóla Íslands er jafnvel ekki kunnugt um að þeim standi til boða náms- og starfsráðgjöf eða þá að þeir vita ekki hvert þeir geta sótt hana. Þess ber að geta að mikill fjöldi nemenda nýtir sér þjónustuna í hverri viku í opnum viðtalstímum, bókuðum viðtölum og á ýmiss konar námskeiðum og örfyrirlestrum.

Það að færa þjónustu sem þessa til stúdenta er víða þekkt í erlendum háskólum og finnst okkur sjálfsagt að bregða undir okkur betri fætinum og tylla okkur á Torgið tvisvar í viku. Reynslan sýnir að nemendur sem leita til okkar á Háskólatorgi hafa jafnvel ekki vitað af þjónustunni eða verið „á leiðinni“ en ekki látið verða af því.

Á Háskólatorgi geta nemendur fengið almennar upplýsingar um nám og námsval ásamt upplýsingum um aðra þjónustu Náms- og starfsráðgjafar, svo sem vinnubrögð í háskólanámi, persónulegan stuðning í námi, sérúrræði og starfsráðgjöf. Náms- og starfsráðgjöf er staðsett á efstu hæð á Háskólatorgi. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu NSHÍ, http://nshi.hi.is og á Facebook.


Hittumst á Háskólatorgi!

HáskólinnStúdentablaðið