Afdrep handa útvöldum: Úttekt á nemendafélagsrýmum í Háskóla Íslands

Sum nemendafélög Háskólans búa við þann munað að eiga nytsamleg og skemmtileg nemendafélagsrými í hinum ýmsu byggingum skólans. Þeim fylgja oft fullbúnar lesstofur, skrifstofur fyrir stjórnarmeðlimi og svo eins konar setu- eða kaffistofur þar sem meðlimir félaganna geta slappað af, haldið hópavinnufundi og drukkið kaffi sem oftar en ekki er í boði nemendafélaganna.

Stúdentablaðið tók sig til og ákvað að forvitnast um þessar setustofur og fékk leyfi til að skyggnast inn í huggulegt líf setustofa skólans. Margar spurningar vöknuðu við heimsóknirnar, til dæmis varðandi sögu herbergjanna, hversu lengi nemendafélögin hafa verið svo lukkuleg að eiga slík afdrep og hvernig stemmningin sé almennt innan hópsins sem safnast þar saman til að ræða lífið, tilveruna og svo auðvitað námið sjálft.
 

Fredagsbar Orators í Lögbergi

Þegar maður gengur í fyrsta skipti inn á Fredagsbarinn, setustofu nemendafélags lögfræðinnar, tekur á móti manni ákveðinn drungi og dimma ásamt starandi augum hundruð svarthvítra lögfræðinga. Veggirnir eru nefnilega þaktir ljósmyndum af fyrrum stjórnarmeðlimum Orators, einvala stjörnuliði lögfræðinga og hæstaréttardómara landsins. Djúpir, dökkir leðursófar eru meðfram flestum veggjum auk ísskáps í horninu sem kemur sér vel í prófatíð til að hýsa nesti nemenda.

Blaðamaður var þó nokkuð hissa þegar enginn eiginlegur bar var sýnilegur við komuna eins og nafnið hafði gefið væntingar um. Ætli nafnið „Fredagsbarinn“ megi ekki rekja til þess að staðurinn hefur  ítrekað verið notaður sem viðkomustaður eftirpartýja á föstudögum. Á þeim dögum má oftar en ekki finna coca-cola ísskápinn fullan af öli. Samkvæmt umsjónarmanni stofunnar geta þau partý orðið nokkuð „sveitt“ þar sem ekki rúmast nema rúmlega þrjátíu manns í einu í gluggalausu rýminu. Fredagsbarinn er oftar en ekki nýttur sem aðstaða fyrir hópavinnu lögfræðinema á daginn, en meðlimir Orators eru svo heppnir að eiga einnig lesstofu og skrifstofu í Lögbergi, sem nýtist nemendum gríðarlega vel sem vinnuaðstaða. Fredagsbarinn er því frekar ákveðið afdrep fyrir þá sem eru að bilast á þrúgandi þögninni sem getur skapast á lesstofunni eftir langan prófalestur.


Soffíubúð Soffíu í Aðalbyggingu


Í kjallara Aðalbyggingarinnar, innan um raðir af kennslustofum, leynist herbergi merkt „Soffíubúð“. Soffíubúð er heimastaður hinna þenkjandi heimspekinema. Mild og falleg birta tekur á móti manni sem kemur á óvart vegna staðsetningarinnar í kjallaranum. Í Soffíubúð hafa heimspekinemar Háskólans komið sér afar fyrir. Þar er að finna mikið og stórt bókasafn sem inniheldur meðal annars bækur úr dánarbúi Þorsteins Gylfasonar og Páls Skúlasonar, fyrrum heimspekiprófessora við Háskóla Íslands. Kaffihorn og brakandi brúnir leðursófar liggja síðan gegnt hinum vígalega bókaskáp.

Heimspekigrín er veggfóðrað upp um nánast alla veggi, ásamt ýmsum fróðleikskornum og myndum af ýmsum hugsuðum heimsins. Kaffi er í boði fyrir slikk og eiga heimakærir heimspekinemar margir erfitt með að hugsa sér lífið án kaffistofunnar kæru. Árið 2008 stóð til að taka Soffíubúð af heimspekinemum en í kjölfarið spruttu upp mikil mótmæli heimspekinema með Gunnar Júlíusson fremstan í flokki. Nú er Gunnar heitinn orðinn verndari Soffíubúðar og mynd af honum hangir uppi á besta stað í miðju rýminu þar sem hann vakir sposkur yfir félagsmönnum.


Kaffistofa Fisksins í Aðalbyggingu


Nágranni Soffíu er Fiskurinn, félag guð- og trúarbragðafræðinema, en bæði nemendafélögin áttu  áður aðsetur á þriðju hæð Aðalbyggingar en voru síðan færð niður í kjallarann í kringum aldamótin. Þá bar Kaffistofan nafnið Kapelluloft.

Blaðamaður bankaði upp á hjá Fiskinum á góðviðrisdegi en inni sátu nokkrir guðfræðinemar á skrafi og á fullu í verkefnavinnu. Það sem kemur á óvart er að rýmið skiptist í þrennt; lítið einskonar eldhús með vaski, bjart vinnuherbergi með  gildum bókaskáp og ágætis vinnuborði og svo er stofan sjálf í miðju rýminu þar sem hægt er að hlamma sér í fína og gamaldags sófa, samansafn sem er líklega fengið úr Góða Hirðinum. Uppi á veggjum eru myndir af meðlimum félagsins, Íslandskort  með teiknibólumerkingum og svo auðvitað fagur viðarkross. Hjá Fiskinum er að finna kaffivél og urmul af litríkum kaffikrúsum til að halda félagsmönnum gangandi á erfiðum skóladögum.


Nördakjallari Nörds í Endurmenntun


Leiðin liggur í eina af undarlegri byggingum Háskólans sem kallast Endurmenntun, þar sem Nörd, nemendafélag tölvunarfræði- og hugbúnaðarverkfræðinema á aðsetur í kjallaranum. Nemendafélagsrými þeirra samanstendur af þremur herbergjum sem eru þéttsetin langt fram eftir kvöldi en tvö herbergjanna eru hugsuð sem einskonar lesstofur. Þriðja herbergið mætti líklegast kalla kaffistofu Nörds en þar inni er virkilega góð eldunaraðstaða. Þar er fullbúið eldhús og tveir ísskápar en að auki sófar, borð og bókaskápur.

Lítið er um skrautmuni hjá Nördum fyrir utan ágætt safn verðlaunagripa ásamt ljósmyndum úr félagslífinu. Ilmandi grillbrauðslykt tók á móti blaðamanni þegar hann kíkti í heimsókn en inni sátu nemendur sveittir við lærdóminn og kipptu sér lítið upp við truflunina, þrátt fyrir merki á hurðinni sem bendir vinsamlegast á að einungis félagsmenn séu velkomnir.

Cauchy Stiguls


Við hliðina á Nördunum í Endurmenntun rambaði blaðamaður á heldur krúttaða setustofu Stiguls, nemendafélags stærðfræði- og eðlisfræðinema Háskólans, sem kallast Cauchy (sem blaðamaður lærði að væri vísun í þekktan stærðfræðing en einnig orðaleikur, þar sem þetta er setustofa með sófum!). Að reka þarna inn nefið var eins og að labba á múrvegg því loftið var býsna þungt. Líklegast er ekkert grín að læra stærðfræði og eðlisfræði í marga tíma á dag.

Cauchy samanstendur af ágætum ísskáp til að kæla nesti (og annað sem þarf mögulega að kæla í lok erfiðrar viku). Litlir sófagemlingar eru í einu horninu og bókaskápur í felum á bakvið stóra, hvíta tússtöflu sem næstum gleypir allt rýmið. Í bókaskápnum er að finna gott samansafn af vitsmunalega örvandi skruddum til að hjálpa sér við námið. Rýmið, sem er heldur betur smátt í sniðum í samanburði við aðrar setustofur, er nýtt í lestur og annan lærdóm og jafnvel fundahöld, stöku sinnum. Þó er rýmið kannski aðallega notað til að slaka á og spjalla við samnemendur.


Súð Félags læknanema


Súðin kallast setustofa læknanema en hana er að finna á efstu hæð Landsspítalans. Til að komast að Súðinni þarf að taka risastóra lyftu, sem oftar en ekki er full af fárveikum sjúklingum á leið sinni í aðgerð. Nafnið kemur að öllum líkindum til af þeirri ástæðu að öll setustofan liggur svo skemmtilega undir súð nokkurri í byggingunni. Birta og róandi andrúmsloft einkenna Súðina þótt erfitt sé fyrir rýmið að hrista af sér spítalabraginn.

Orðið setustofa er kannski einum of þröngt hugtak fyrir Súðina en efsta stig læknanema notar rýmið sem vinnurými, kennslurými, lesstofu og jafnvel sem svefnrými. Nemendur vinna flestir langan vinnudag á spítalanum og því getur verið gott að eiga slíkt afdrep til að slappa af og jafnvel taka eina létta kríu. Vel var tekið á móti blaðamanni og ljósmyndara Stúdentablaðsins sem villtust fyrst inn í Læknagarð í þeirri fullvissu að þar væri setustofuna að finna. Læknanemar sátu í mestu makindum undir ferðasæng í notalegum rauðum sófum sem er að finna í einu horni rýmisins. Cumulated Index Media standa í röðum í bakgrunni sem nú í dag þjóna heldur hlutverki skrauts en nauðsynjarita, eftir tilkomu leitarvefja á alheimsnetinu. Í hinum enda rýmisins eru síðan vinnuborð auk þriggja tölva sem nýtast læknanemum í námi sínu.

Nemendur koma  þó einnig í Súðina til að njóta góðra stunda með hverjum öðrum, æfa sig í hnýtingum skurðaðgerðahnúta og skopast á röntgentöflu, sem lenti víst einhverntímann í því að varanlegur túss var notaður á hana svo það spaug situr þar nú fast og gefur rýminu smá lit. Hér ber að nefna að Súðin er reyndar hálfgerð gjöf frá Landspítalanum sjálfum svo hún er að einhverju leyti sér á parti miðað við hinar setustofur nemendafélaganna.

Á að drepa afdrepin?
Sprottið hefur upp sú gagnrýni að þessar setustofur séu einungis forréttindi fárra og jafnvel hefur verið rætt um að loka þeim. Á síðasta skólaári var til að mynda umræða um að taka lesstofuna af Orator sem var mætt með miklum mótmælum lögfræðinema. Flest þeirra nemendafélaga sem eiga slíkar aðsetur virðast sammælast um að setustofurnar séu stór hluti  skólalífsins, að það væri synd og skömm að geta ekki sest og fengið sér kaffibolla og skrafað við samnemendur í rými sem þau hafa skapað saman. Það eru þó auðvitað mikil forréttindi að búa við slíkan munað þegar við skoðum hverjir eiga nemendarými og hverjir ekki. Það eru um 66 nemendafélög í skólanum en einungis um 18% þeirra eiga einhverskonar aðstöðu, þá annaðhvort í formi skrifstofu, lesstofu, setustofu eða þá allt af þessu þrennu.

Ein leið til að finna lausn á þessu, eins og oft hefur verið rætt um, er að hrifsa af þessum forréttindapésum góssið svo að allir séu jafnir. Það væri jafnvel hægt að fara fram og tilbaka í pælingum um hvort að rýmin væru betur nýtt í eitthvað annað, til dæmis sem kennslustofur, en það hefur eitthvað borið á því að skortur sé á þeim fyrir ýmsar deildir. Sem dæmi má nefna að setustofa Tungumáladeildarinnar, sem var að finna í Nýja garði, var breytt fyrir um það bil þremur árum í kennslustofu. Margir vilja þó meina að það sé rangt að taka eitthvað sem hefur þegar verið gefið, sérstaklega ef það er notað oft og nýtist nemendum í starfi.  Erfitt er að segja til um hverjir eiga rétt á setustofu og hverjir ekki. Læknanemar nýta til dæmis sitt rými til hins ýtrasta og eiga erfitt með að sjá fyrir sér vinnu og skóla á spítalanum án einhverskonar afdreps.

Hin hugmyndin að lausn á þessu misrétti væri ef til vill sú að allir fengju smá pláss fyrir sig. Að í stað þess að taka þá skuli gefa. Allir vilja eiga samastað í stað þess að týnast innan um þúsundin öll sem stunda nám hér í skólanum. Auðvitað væri frábært ef allir fengu slíka aðstöðu og hver veit nema það gerist í framtíðinni. En er það gerlegt? Fjármagn  sem þyrfti til framkvæmda fyrir slíkt verkefni yrði gífurlegt en pláss og peningar eru tveir hlutir sem eru af skornum skammti í Háskóla Íslands.

Það er þó ekki hægt að segja að aðstaða í Háskólanum sé endilega slæm. Auðvitað má alltaf bæta, jafnvel það sem gott er, en við teljumst þó nokkuð heppin með skóla. Úttektin sýnir, samt sem áður, að sum nemendafélög eiga aðeins betri aðstöðu en önnur og slíkt er óneitanlega ákveðin forréttindi. Í umræðu um jafnrétti innan skólans er þetta því verðugt umhugsunarefni. Hefðarhugmyndir virðast gefa þessum nemendafélögum einhverskonar tilkall til kaffistofa sinna. Ákveðin nemendafélög hafa þurft að gefa upp sína aðstöðu – afhverju sum en ekki önnur? Og hvernig er úthlutunum háttað? Ekki eru öll félögin sem eiga slíka aðstöðu jafn gömul skólanum sjálfum, auk þess sem einungis örfá eiga fullbúna aðstöðu. Þar sem Háskóli Íslands segist opinberlega vilja leggja áherslu á „jafnrétti á öllum sviðum sinnar starfsemi“ ætti hann að taka þetta mál inn á borð til sín. Í það minnsta gefa út einhvers konar fasta stefnu varðandi nemendafélagsrými skólans. Þið sem eigið ykkar eigin aðstöðu, þið eruð lánsöm.
 

Önnur nemendarými sem vert er að nefna:
Nemendarými Kennó, Tuma og Padeia í Stakkahlíð
Skrifstofur Anima og Mágusar í kjallara Odda
Nemendarými Hugvísindasviðs í Árnagarði
Skrifstofa Hvarfs við Smyrilsveg 22

Texti: Díana Sjöfn Jóhannsdóttir

Myndir: Hiroyuki Ozawa