Dagbók Háskólanema: Sunna Dís Másdóttir

Sunna Dís Másdóttir, meistaranemi í ritlist, dröslaðist með bækur, gúglaði ísskápa og uppfræddi unga syni sína um franskt brauðmeti á hversdagslegum föstudegi í haust. 

07.01 Yngra dýrið galar úr barnaherberginu og flaggar helstu stjörnunum úr sérlega viðamiklum orðaforða: „Mamma HÆÆ!“. Og klukkan er meira að segja komin fram yfir sjö. Það er rannsóknarefni hversu mikil vítamínsprauta það er fyrir sálarlífið að fara fram úr klukkan sjö eitthvað, miðað við sex eitthvað.

09.02 Fjörutíu mínútna langt leikskóladropp að baki og enn og aftur læt ég mig dreyma um þann fjarlæga dag þegar báðir drengir verða komnir á sama leikskóla. Ég er mætt á vinkonuvinnufund í notalegasta eldhúsi Vesturbæjar: rótsterkt kaffi, vinkonuspjall og ráðagerð um samstarfsverkefni. Það er lottóvinningur lífsins að eiga hæfileikaríka vini.

12.10 Yfirgef vinkonueldhúsið og stefni á Borgarbókasafnið með þyngsta bókapoka sögunnar. Íhuga enn og aftur hvort ég ætti að skammast mín fyrir að eiga fimm fjölnota ríkispoka í vínbúðarrauðum lit. Skila staflanum, les mér til vegna frílansverkefnis og tek nýjan sem er alveg óvart jafn þungur.

13.30 Kem við í afgreiðslu RÚV og kippi með mér bók sem mér er falið að lesa fyrir þriðjudag, þegar ég ætla að sitja í sjónvarpssal og tala um bókmenntir. Fæ fiðrildi í magann og þorna dálítið í munninum við tilhugsunina. Þannig eru bestu verkefnin. Bókin er sjálfsævisaga Bjarna Bernharðar, án efa áhugaverð lesning.

13.50 Komin heim, drekk te og borða heilsunammisstöng sem ég vildi óska að innihéldi svolítið súkkulaði. Opna Uglu og fæ vægt áfall þegar ég sé að ég gleymdi að skrá mig úr áfanga á haustönn. Horfist líka í augu við þá staðreynd að það er ekki seinna vænna að fara að snúa þessi lokaverkefnisskrif í gang ef ég ætla mér að skila fyrir jól. Eða bara einhvern tíma. Sé líka að einingarnar fyrir sumarönn eru ekki enn komnar til LÍN. Herði mig upp, hringi í nemendaskrá, finn einmana súkkulaðibita  í nammiskúffunni.

14.30 Kanna hvað Spotify finnst að ég eigi að hlusta á þessa vikuna á meðan ég svara tölvupóstum, skrifa reikninga fyrir greinar sem ég hef skrifað og önnur verkefni síðustu vikna og uppfæri aðgerðalistann fyrir næstu daga. Það hlýtur að vera með verri frestunaráráttum að trassa það að senda reikninga fyrir unnin störf.

15.05 Hvort ætli sé ódýrara að kaupa nýjan ísskáp eða leigja vinnustofu? Ég get ómögulega unnið heima hjá mér ef þetta skrifli heldur áfram að suða svona ærandi hátt.

15.55 Af stað – leikskólapikköppið bíður ekki eftir neinum. Hvorugur drengjanna er neitt sérstaklega spenntur fyrir því að koma heim. Ég múta með heimsókn í pabbavinnu og viti menn, allir komast stóráfallalaust út í bíl.

16.50 Völsum inn á Snaps þar sem kúltiveraðir eldri menn sitja á hvítvínsspjalli á föstudagseftirmiðdegi, hlömmum okkur við barinn og drekkum klakavatn með tilheyrandi sulli og smjöttum á brauði þar til pabbinn hefur lokið störfum þá vikuna. Ég kenni þeim þriggja ára muninn á brioche og baguette.

20.00 Úrvinda litlir menn eru sofnaðir á slaginu. Við tekur klukkutími í frágang og þrif – hressandi föstudagskvöld – áður en við hjónaleysin hrynjum í sófann, gúglum ísskápa og horfum á þátt þar til þreytan tekur völdin.

22.30 Komin í ból – Bjarni Bernharður fær að bíða til morguns.