Fær innblástur á Íslandi

Á undanförnum dögum hefur mikil athygli beinst að lista sem Stúdentablaðið birti síðastliðinn sunnudag, þar sem höfundurinn telur upp 20 hluti sem hafa komið honum spánskt fyrir sjónir hér á landi. Að baki listanum er Spánverjinn Jordi Pujolà, 41 árs nemandi við Háskóla Íslands, sem sagði upp vel launaðri vinnu sem fasteignasali í Barcelona og flutti til Íslands til að skrifa skáldsögu og læra íslensku.

Nýtt og framandi land

Jordi segist stundum líða eins og Egyptanum Sinuhe sem ferðaðist um heiminn og naut gestrisni og náttúrufegurðar. Honum finnst vel tekið á móti sér hvar sem hann kemur og segist ennþá vera gáttaður á fegurð þessa nýja og framandi lands. Íslendingum lýsir Jordi með samanburði við Katalóna: „Íslendingar og Katalónar eru eins. Báðir virðast fálátir í byrjun en þegar þú kynnist þeim eignastu góða vini.“

Hjólar út um allt

Jordi er búinn að breyta nánast öllu í lífi sínu síðan hann kom til Íslands. Hann notar ekki lengur bíl heldur hjólar út um allt hvernig sem viðrar. „Náttúran og landslagið sem finnst inni í Reykjavík einni er frábært. Ég hef unun af snjónum og þessum gráu gæsum sem fljúga út um alla borgina. Þegar þú hjólar mengar þú ekki umhverfið, býrð ekki til hljóðmengun, heldur andar að þér orku.“

Íslendingar afreka meira

Þegar talið berst að því hvað sé líkt og ólíkt með Spáni og Íslandi segist Jordi kunna vel við að borða kvöldmat með fjölskyldunni á hverju kvöldi klukkan sex í hlýja og notalega húsinu sínu. Hann segir að það sé eitthvað sem hann hefði aldrei látið sig dreyma um á Spáni. „Sumir Spánverjar gagnrýna Íslendinga fyrir að vera of afslappaðir en ég bendi alltaf á að það sé ekkert vit í því að vinna svona margar klukkustundir á dag eins og á Spáni af því að þegar allt kemur til alls afrekum við minna en þið.“ Aðspurður hvort sér finnist dýrt að búa á Íslandi segir Jordi: „Auðvitað eru sumir hlutir dýrari en á Spáni en þar þurfti ég hins vegar að borga háar upphæðir fyrir einkaskóla, hita og drykkjarvatn.”

Að fara út fyrir þægindarammann

Jordi stundar mikið jóga. Hann telur að lífið gefi manni viðvaranir eða fyrirboða og ef maður taki ekki neinar áhættur eða ögri sjálfum sér, þá missi maður stjórnina. Lífið gangi sinn vanagang og áhrif óhjákvæmilegra breytinga verði miklu stórvægilegri. „Við flýtum okkur of mikið og gleymum að stoppa og hugsa að mikilvægustu hlutirnir eru þeir sem við höfum nú þegar, svo sem heilsa, fjölskylda og vinir.“ Jordi telur að mikilvægt sé að ferðast alltaf fram á við í lífinu og að ekki sé gott að festast í þægindarammanum sínum.

Innblástur á Íslandi

Jordi er á fyrsta ári í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands. „Ég skil mikilvægi þess að rækta tungumálið af því að ég tala líka katalónsku, sem er minnihluta tungumál, og er stoltur af því. Auðvitað er íslenska svolítið erfið en við verðum að berjast gegn leti og ótta.“ Jordi er hrifinn af áskorunum en þær krefjast yfirleitt þess að öðru sé fórnað. En af hverju að hafa fyrir þessu? „Til að vera frjáls. Ef þú þénar sjálfur þína peninga og ert heilbrigður ertu ekki háður greiðum, lyfjum og læknum.“ Jordi segist hafa fengið mikinn innblástur á Íslandi en hann lauk nýlega við fyrstu skáldsögu sína „Necesitamos Un Cambio“ -Við þurfum á breytingu að halda. Hann er nú í leit að umboðsmanni.