Vilja virkja ungar konur til þátttöku í atvinnulífinu

Ungar athafnakonur er nefnd sem stofnuð var í haust af Lilju Gylfadóttur, nema í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Nefndin vinnur að því að virkja ungar konur til þátttöku í atvinnulífinu og starfar sem nefnd undir Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA) en í það félag eru um 900 konur skráðar.

Eftir að hafa sótt opna viðburði FKA með móður sinni sóttist Lilja eftir því, að eigin frumkvæði, að stofna nefnd sem ætluð væri ungum konum og starfaði undir FKA. Hugmynd hennar féll í góðan jarðveg var stofnfundur haldinn 30. september síðastliðinn og þangað mættu hátt í tvöhundruð ungar konur. Fjöldinn kom stjórnarmeðlimum nefndarinnar skemmtilega á óvart.

„Við bjuggumst aldrei við slíkum fjölda þegar við fórum af stað með verkefnið en fjöldinn sem mætti á stofnfundinn sýnir hve áhuginn er í raun mikill og hve félagið er þarft.”

Nefndin er þó ekki nákvæm fyrirmynd Félags kvenna í atvinnulífinu heldur er hún að sögn Lilju;

„Nefnd fyrir ungar konur sem stefna að því að ná langt og hafa metnað fyrir sjálfri sér. Þarna fá ungar konur tækifæri til þess að mynda öflugt tengslanet, sækja áhugaverða og hagnýta viðburði og síðast en ekki síst njóta félagsskaps hverrar annarrar.“

Glæst framtíð

Markmið nefndarinnar er að hvetja konur á jákvæðan og uppbyggilegan hátt til þess að taka þátt í atvinnulífinu og styrkja ungar konur til framtíðar. 

Það má með sanni segja að Ungar athafnakonur taki skref í átt að auknu jafnrétti kynjanna með tilkomu sinni. Sú hugsun og hugmyndafræði sem stjórnendur nefndarinnar ganga út frá er framsækin og eflandi.

„Mín hugmyndafræði er sú að þarft sé að móta ungar konur áður en þær fara út á vinnumarkaðinn til þess að stuðla að því að þær sækist eftir sömu tækifærum og karlar, standi upp fyrir sjálfum sér og séu meðvitaðar um eigin verðleika og jafnan rétt kynjanna. Þrátt fyrir að árið sé 2014 þá sýna staðreyndir að enn er margt sem gera þarf betur og af mörgu er að taka í jafnréttismálum,“ segir Lilja.

Frá vinstri: Kristel Finnbogadóttir, Rakel Guðmundsdóttir, Lilja Gylfadóttir, Karen Ósk Gylfadóttir og Andrea Karlsdóttir.

Frá vinstri: Kristel Finnbogadóttir, Rakel Guðmundsdóttir, Lilja Gylfadóttir, Karen Ósk Gylfadóttir og Andrea Karlsdóttir.

Á starfsári sínu stendur nefndin fyrir fimm viðburðum sem hafa fræðandi og hagnýt gildi. Öllum meðlimum nefndarinnar gefst kostur á að sækja þessa viðburði ásamt því að sækja viðburði FKA. Skráning í Ungar athafnakonur fer fram á heimasíðu FKA. Ungar konur úr öllum námsgreinum geta sótt um aðild að nefndinni þar sem hún er ekki bundin við ákveðin svið heldur einstaklingsbundinn áhuga á atvinnulífinu.