Síðustu-metra-pepp!

Jólaprófin eru brostin á með bugun og örvæntingu í eftirdragi. Einu sinni enn. Pælirðu stundum í því af hverju þú lætur þig hafa þetta, enn eina ferðina, og hvort það sé mögulega eitthvað næs við þennan tíma ársins? Ég pæli líka í því. Fyrst var ég ekki alveg viss hvort þar væri eitthvað að finna annað en hörmung og meiri hörmung (svo er ég líka blönk) en við ákafari heilabrot komst ég að nokkrum næsheitum. 

1. Ryan Gosling motivation meme. Hver elskar ekki pepp frá fola eins og mr.HotStuff? Það skiptir engu máli hvort þetta sé eitthvað last season thing, Gosling verður bara heitari með árunum. Svo er hann líka orðinn pabbi, eru háskólapíur og -peyjar ekki mega heit fyrir hot daddys?

2. Hlutfallslega virðist maður koma fleiri hlutum í verk, miðað við aðra árstíma. Til dæmis tókst mér að fara ferð í Sorpu, þrífa eldhúsið og setja í þvott á aðeins einum eftirmiðdegi. Þetta kalla ég WIN. Ég átti samt að skila ritgerð daginn eftir en það er aukaatriði.

3. Jólapróf eru stórgóður filter á raunveruleikann. Óhjákvæmilega sónar maður framhjá jólaskreytingum bæjarins, sem getur ekki talist neitt nema mjög jákvætt. Sögusagnir herma að þær séu einstaklega slæmar í ár, einhver er að spara...

4. Prófljótan er í tísku. Já, ég veit. Ég hélt líka að Buffalo-skórnir kæmu aldrei aftur. Gæti samt alveg verið að ég sé að blekkja sjálfa mig. En það er allt í lagi.

5. Sund. A.k.a. Vesturbæjarlaugin. Sel það ekki dýrara en ég keypti, en klór eykur víst heilavirknina. Snöggar hitabreytingar eru líka sérdeilis góðar fyrir húðina, þú ert bara að gera þér greiða með því að dekra smá í pottunum. Þar er hægt að spotta aðra prófabugaða heita kroppa, so what is there not to love? Jóló.

Kveðja, Lestrarfrestarinn.

LífstíllStúdentablaðið