Rektor hunsar píkuna

Stefanía dóttir Páls, nemi í heimspeki, vildi færa Háskólanum málverk að gjöf. Fannst henni enginn annar en Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, koma til greina til þess að veita gjöfinni viðtöku. Þrátt fyrir nokkrar heimsóknir og enn fleiri tölvupósta hefur rektor ekki enn tekið á móti gjöfinni. Gjöfin er flennistórt málverk af píku.

„Ég byrjaði að taka eftir listaverkum af berrössuðum körlum hér og þar á Háskólasvæðinu en sá aldrei verk af nöktum konum. Mér fannst eiginlega bara sniðugt að reyna að stemma stigu við þessu og mála olíuverk af píku sérstaklega handa HÍ,” segir Stefanía.

 

Skrifstofudömur fóru hjá sér

Stefaníu fannst eins og gjöf hennar væri á einhvern hátt óþægileg fyrir Kristínu og hennar starfslið. „Þegar ég mætti með verkið á rektorsskrifstofu, búin að hringja á undan mér og alles, voru viðbrögðin svolítið skopleg. Mér fannst eins og skrifstofudömurnar hefðu farið hjá sér. Frú rektor kom reyndar fram og sá málverkið og þakkaði mér fyrir að hugsa hlýlega til skólans. Síðan þurfti hún skyndilega að drífa sig á fund og tók ekki við gjöfinni.“

 

„Maður veit ekki hvar aðrir eru á tepruskalanum“

Stefanía vill ekki gefast upp en útilokar ekki að finna píkunni stað ef rektor veitir henni ekki viðtöku. „Kannski hitti ég bara svona illa á. Þær lofuðu samt að hafa samband en ekkert hefur heyrst frá þeim . Kannski hefði ég átt að hylja verkið í stað þess að leyfa píkunum að stara blákalt framan í þær. Maður veit víst aldrei hvar aðrir eru á tepruskalanum. Ég bíð bara eftir svari við tölvupóstunum mínum. Ég vil samt alls ekki gera lítið úr önnum Kristínar. Hún hefur líklega margt á sinni könnu og að minni hálfu ríkir 100% friður og kærleikur í hennar garð. Kannski finn ég verkinu bara sjálf góðan stað innan HÍ ef enginn hefur tíma til að taka við því.“ Þess má geta að Kristín svaraði ekki tölvupósti Stúdentablaðsins um málið.


Háskólagangur eins og listagallerí

Ekki er víst hvort allir geri sér grein fyrir þeim mikla fjölda listaverka sem eru á Háskólasvæðinu en þau fönguðu huga Stefaníu fyrir löngu. „Mér finnst listaverk Háskólans til fyrirmyndar. Skólinn á svo mörg verk sem fá að njóta sín hér og þar á Háskólasvæðinu. Vissuð þið til dæmis að á ganginum á kjallarahæð Aðalbyggingarinnar eru svo mörg málverk að það er engu líkara að maður sé staddur í listagalleríi?“


Sköp eru snilld

Aðspurð hvort píkur séu Stefaníu sérstakt hugðarefni stóð ekki á svörum. „Sköp eru snilld. Upphaf lífs og kannski líka endir. Stundum held ég að konur geri sér ekki almennilega grein fyrir mættinum sem felst í því að eiga kvenkynfæri. Tæknilega séð gætum við bundið enda á tilvist mannkyns.“
    En tilvist píkunnar er ekki bara dans á rósum að sögn Stefaníu. „Mér finnst annars ótrúlega leiðinlegt hvað það er illa farið með píkur í heiminum. Vissirðu að um 90% kvenna í Egyptalandi eru umskornar? Og 97-98% í bæði Sómalíu og Gíneu? Það er ekki kúl.“