1. sæti í smásagnakeppni Stúdentablaðsins: „Eftir veisluna" e. Þorvald Helgason

Þorvaldur Helgason, sigurvegari í smásagnakeppni Stúdentablaðsins.

Þorvaldur Helgason, sigurvegari í smásagnakeppni Stúdentablaðsins.

Þessir steinar sem sökkva inní árin, hvert munu þeir draga mig?

Gíorgos Seferis

Ég stöðvaði mótorinn við upphaf götunnar. Festi bátinn við veðrað götuskiltið og óð út í. Sjórinn var ekki djúpur svona langt inni í hverfinu, rétt náði mér upp að mjöðmum. Það tók mig smá tíma að átta mig á staðháttum enda þrjátíu ár síðan ég hafði komið hingað síðast. Ég var í kringum sextán þegar ég flutti út, rétt eftir tíu ára afmæli litlu systur minnar. Síðan þá hafði mér aldrei hugnast að koma hingað. Ekki fyrr en nú.

           Ég óð vatnið fram hjá niðurníddum húsum sem þakin voru þykkum gróðri. Brotnir gluggarnir göptu tómum augum, með fram götunni flutu brotin húsgögn og heimilistæki eins og rekaviður. Ég kannaðist við fæst húsanna en eitt þeirra þekkti ég þó strax aftur. Ruslageymslan sem pabbi hafði smíðað var næstum óbreytt og sami guli liturinn prýddi húsveggina, nú orðinn svo upplitaður að hann var nánast hvítur. Ég fikraði mig upp innkeyrsluna og eftir því sem ofar dró lækkaði vatnsborðið. Þegar ég var kominn upp að hurðinni náði það mér rétt upp að ökkla.

           Ég pírði inn um furðu heillega forstofuglugganna en sá aðeins myrkur og vatn. Af forvitni prófaði ég að ýta á dyrabjölluna. Innan í dimmu húsinu hljómaði sama kunnuglega hringingin og í minningunni. Ég tók í hurðarhúninn. Hurðin var ólæst og vatn flæddi út þegar ég opnaði. Ég gekk inn í forstofuna og fikraði mig eftir ganginum. Á gólfinu í sjónvarpsherberginu flutu bækur og nokkrar innrammaðar ljósmyndir. Ég tók upp eina þeirra sem sýndi fimm manna fjölskyldu, skælbrosandi fyrir framan bleikan kastala með bláum turnspírum. Landslagið var framandi og í kringum fjölskylduna var fjöldi manns, sumir með myndavélar og aðrir klæddir upp sem dýr eða ævintýrapersónur. Ég tók myndina með mér og hélt áfram inn í stofuna. Á veggnum hékk stórt, rifið landslagsmálverk og á miðju gólfinu lá borðstofuborðið á hlið.

Ég gekk lengra inn í húsið þar til ég var kominn að því sem hafði verið svefnherbergi foreldra minna. Dyrnar voru lokaðar. Ég ýtti draslinu frá sem hafði safnast fyrir framan hurðina og opnaði. Á hjónarúminu lágu fjórar beinagrindur þétt upp við hvor aðra. Fötin, sem virtust áður hafa verið fínustu spariföt voru orðin mölétin og tætt. Ef ekki hefði verið fyrir klæðnaðinn og allt draslið í kringum þau hefði maður vel getað trúað því að þau hefðu dáið friðsællega í svefni. Ég leit á minnstu beinagrindina, hún var klædd í hvítan blúndukjól og hélt á litlu rauðu tuskudýri. Lagði myndina varlega ofan á smávaxnar hvítar greiparnar. „Til hamingju með afmælið,“ hvíslaði ég og strauk henni um beinabert ennið.

Höfundur: Þorvaldur Helgason, nemi í ritlist.
1. sæti í smásagnakeppni Stúdentablaðsins 2017